Færsluflokkur: Bloggar

Verður heimurinn samur og áður

Heimur okkar lifir nú fordæmalausa tíma, að því sagt er. Vafalaust er það rétt, að við sem byggjum þessa jörð, eigum eftir að búa við COVID veiruna og afleiðingar hennar um ókomin ár. En plágan er hin eina sem náð hefur til heimsins alls. Plágur af ýmsu tagi eru hins vegar þekktar frá örófi alda. Er 251 plága skráð í heimsfaraldursbók Wikipedia. Tvær miklar plágur hafa geisað á Íslandi – og víða annars staðar: Svarti dauði og Stóra bóla.

Svarti dauði

Svarti dauði var skæð farsótt er barst til Íslands 1402.  Hálfri öld fyrr, á árunum 1348 til 1350, hafði pestin gengið um alla Evrópu, en barst ekki til Íslands fyrr vegna þess að engin skip komu til landsins þau tvö ár sem hún geisaði á Norðurlöndum og á Englandi. Ekki er vitað hversu margir dóu í Svarta dauða á Íslandi, en flestir telja allt að tveir þriðju allra landsmanna hafi fallið í valinn. Heilar ættir dóu út og mikil tilfærsla varð á eignum. Sumir erfðu stóreignir eftir fjarskylda ættingja og stundum gat verið erfitt að finna réttu erfingjana. Kirkjan eignaðist einnig fjölda jarða því að fólk hét á kirkjur og dýrlinga og gaf stórfé sér til sáluhjálpar.

Pestin er talin upprunnin í Mið Asíu og barst þaðan með kaupmönnum vestur á bóginn. Giskað hefur verið á að íbúar Evrópu hafi fyrir plágu verið um 80 milljónir og hafði fjöldi þeirra tvöfaldast á 300 árum. Sé sú tilgáta rétt að þriðjungur þeirra hafi látist í plágunni er heildarfjöldi látinna 27 milljónir. Þetta voru því fordæmalausir tímar.

Stóra bóla

Stóra bóla var mannskæð bólusótt er gekk um Ísland á árunum 1707 til 1709. Samkvæmt manntalinu 1703 voru Íslendingar 50.358. Talið er um 18 þúsund manns hafi látist úr bólunni - eða nær þriðjungur landsmanna. Hafi mannfjöldi við lok Stóru bólu árið 1709 verið um 34 þúsund. Þessi manndauði hafði mikil áhrif á efnahag og afkomu þjóðarinnar sem aldrei hefur orðið fámennari frá landnámsöld. Náði fólksfjöldi ekki 50 þúsundum aftur fyrr en um 1830. Jarðir lögðust í eyði og hvorki var unnt að stunda útgerð né búskap eins og áður því að mikill skortur var á vinnufólki. Eignatilfærsla var víða mikil og má líkja áhrifum Stóru bólu við afleiðingar Svarta dauða árið 1402, sem eru mannskæðustu sóttir sem gengið hafa á landinu.

Stórabóla hafði mikil áhrif á íslenskt þjóðfélag. Mannfallið varð einna mest meðal ungs fólks.  Varð því skortur á vinnuafli auk þess sem fólki á barnseignaraldri fækkaði mikið og mannfjölgun því hæg næstu áratugina. Hjáleigur og kotbýli lögðust í eyði og skortur var á vinnufólki. Á árunum fyrir bóluna höfðu sprottið upp þurrabúðir við sjóinn þar sem fólk byggði afkomu sína á sjósókn, en mikill afturkippur varð við bóluna. Margt breyttist því á þessum fordæmalausu tímum.

Aðrar skelfingar

Í umræðunni um COVID-19 nú hafa aðrar hörmungar, sem lengi hafa fylgt mannkyni, fallið í skuggann eða jafnvel gleymst: styrjaldir, hryðjuverk, ofbeldi, fátækt, misrétti, mismunun og líkamleg og andleg vanlíðan. Vonandi tekst okkur að takast á við veiruna skelfilegu. Til þess verðum við breyta hegðan okkar. Að auki verðum við að gefa meiri gaum hörmungum sem fallið í skuggann eða jafnvel gleymst: styrjaldir, hryðjuverk, ofbeldi, fátækt, misrétti, mismunun og líkamleg og andleg vanlíðan. Þetta er verkefnið sem við blasir.


Mútur - gamalt fyrirbæri í mannlegu samfélagi

Vegna umræðu síðustu daga og vikur um mútugreiðslur má nefna, að orðið „múta“ eða „mútur“ hefur fylgt þessari þjóð langan aldur og kemur víða fyrir í fornu máli íslensku, s.s. í heilagra manna sögum, í Stjórn, gamalli þýðingu á upphafi Biblíunnar, og í Alexanders sögu, sögu Alexanders mikla sem uppi var 300 árum fyrir Krists burð. Þá kemur orðið einnig fyrir í kvæðinu „Heimsómi“, er Skáld Sveinn orti á 15. öld, þar sem segir:

Hvert skal lýðurinn lúta?
Lögin kann enginn fá,
nema baugum býti til.
Tekst inn tollur og múta,
taka þeir klausu þá
sem hinum er helst í vil.
Vesöl og snauð er veröld af þessu klandri,
völdin efla flokkadrátt í landi,
harkamálin hyljast mold og sandi,
hamingjan bannar að þetta óhóf standi.

Í þessu erindi spyr Skáld Sveinn, hvaða lögum almenningur eigi að lúta, af því að enginn fái réttláta meðferð nema greiða valdsmönnum mútur til þess að valdsmenn noti þau ákvæði laga, sem eru mútugjafanum til hagsældar. En af þessum svikum verður veröldin fátækari og svikin auka flokkadrátt í landinu, og svikin – harkamálin – gleymast, fara í gröfina með þeim sem sviknir eru, svo og með þeim sem svíkja. Að lokum er í erindinu borin fram sú ósk, að hamingjan komi í veg fyrir þetta óréttlæti – þetta óhóf. Mútur eru því ekki nýtt fyrirbæri í mannlegu samfélagi, eins og sumir virðast halda.

 

Gyðja þagnarinnar

Þá er fróðlegt að hafa í huga, að gyðja þagnarinnar í hinni forngrísku goðatrú heitir Muta, en það orð merkir „hin mállausa“.  Gyðjan Muta var þekkt fyrir fegurð, en einnig fyrir málæði og hún gat ekki þagað yfir leyndarmálum. Sagði hún frá framhjáhaldi Júpíters, sem var æðstur guðanna. Fyrir vikið skar Júpíter tunguna úr henni.  Var Merkúr, guð verslunar og ferðalaga, falið að fara með hina fögru gyðju niður í undirheimana, en hann hreifst af fegurð hennar og hafði kynmök við hana á leið þeirra niður og barnaði hana. 

Íslenska nafnorðið múta merkir í nútímamáli „peningagreiðsla til þess að hafa áhrif á gang mála“. Í dönsku og norsku er nú notað orðið bestikkelse, en í sænsku er notað orðið  muta eða mutor, sem á rætur að rekja til grísku gyðjunnar. Í þýsku er notað orðið Schmiergelder, í ensku orðið bribery um mútur, en upphaflega var orðið notað um „theft, robbery, swindling, pilfering“, komið af franska orðinu briberie, sem og var þar notað um það þegar embættismenn tóku fé fyrir sviksamlegt athæfi. Allt er þetta því af sömu rót runnið og mútur alþekktar um allan heim – um aldir alda.


Sigurhæðir og séra Matthías Jochumsson

Í bréfi sem Matthías Jochumsson skrifaði í mars 1904  segir: „Ég lét byggja mér nýtt dáfallegt hús í fyrra til að deyja í.“ Þetta hús er Sigurhæðir, sem hann lét reisa 1903 og þar sem Matthíasar-félagið stofnaði Matthíasarsafn, minningarsafn um Matthías Jochumsson og opnað var árið 1961. Þar voru herbergi, ætluð skáldum og fræðimönnum til skapandi skrifa. Sigurhæðir standa sunnan undir núverandi Akureyrarkirkju, sem vígð var 1940, og nefnd hefur verið Matthíasarkirkja.

Skáldabærinn

Mörg skáld hafa í tímans rás tengst Akureyri með einum eða öðrum hætti, þótt tengslin séu mismunandi.  Sum eru fædd í „höfuðstað hins bjarta Norðurs“,  önnur komu til bæjarins á fullorðinsárum og settust þar að, og enn önnur dvöldust þar aðeins skamma hríð, en skildu eftir sig ljóð, myndir og minningar. Í þessum hópi eru um fimmtíu skáld. Mætti því kalla bæinn „skáldabæinn Akureyri“. 

Eitt skáld kom iðulega til Akureyrar, en hafði þar aldrei fasta búsetu, listaskáldið góða, Jónas Hallgrímsson, sem fór um Akureyri á ferðum sínum til og frá æskuheimili sínu á Steinsstöðum í Öxnadal.  Séra Matthías Jochumsson fluttist til Akureyrar árið 1886 og lifði þar til dauðadags 18. nóvember 1920 og skildi þar eftir sig spor, sem enn hefur ekki fennt í. Matthías átti allt frá bernskudögum fram á elliár, barðist við þunglyndi og efasemdir í trúmálum,  eins og víða kemur fram í kvæðum hans. Af sögu hans því má margt læra. Meðal annars getur ungt fólk lært margt af sögu hans – einnig við sem eldri erum.

Söguskilti – í minningu Matthíasar

Stjórn Akureyrarstofu hefur nú ákveðið að óska eftir því við umhverfis- og mannvirkjasvið bæjarins, að húsið Sigurhæðir verði sett í sölu, þótt málið hafi hvorki verið rætt í bæjarstjórn né bæjarráði. Hins vegar verði sögu hússins og sögu Matthíasar Jochumssonar gerð skil með öðum hætti, „til dæmis með söguskilti“ – ég endurtek: „með söguskilti“. Þetta er ekki sæmandi.Formælandi Akureyrarstofu færir þau rök fyrir hugmyndinni, að stígur frá kirkjutröppunum sé ekki fær fyrir fatlaða eða fólk sem á erfitt með gang – „ekki síst á snjóþungum dögum“.

Furðulegt er að lesa þetta: selja Sigurhæðir, þótt málið hafi ekki verið rætt í bæjarstjórn eða bæjarráði, en sögu Matthíasar gerð skil með söguskilti. Forysta í skáldabænum, skóla- og menningarbænum Akureyri getur ekki verið þekkt fyrir slíkt og þvílíkt. Það finnast leiðir, ef ráðamenn vilja hugsa málið frá upphafi til enda og vilja standa sína plikt gagnvart sögu bæjarins og menningu. Svo kann líka að vera að leiðin að Sigurhæðum eigi ekki að vera auðgengin, hvorki ungum né öldnum, fötluðum né fólki sem á erfitt með gang. Leið Matthíasar Jochumssonar gegnum lífið var nefnilega ekki auðveld.


Málróf gefið mörgum, en spekin fáum

Sex einstaklingar skrifa að jafnaði tvær greinar á viku í íslensku dagblöðin tvö, Fréttablaðið og Morgunblaðið, og virðast hafa vit á flestu, að ógleymdum hinum sjöunda blekbera – fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins, sem í vikulegu Reykjavíkurbréfi og fimm daga í viku sproksetur fólk og snýr út úr orðum andstæðinganna í Staksteinum. Í umræðuþáttum útvarps- og sjónvarpsstöðva láta spekingar síðan móðan mása. Í þessum umræðuþáttum eru kallaðir til orðvísir doktorar í stjórnmálafræðum, sem spá fyrir um úrslit kosninga víða um lönd og um ókomna framtíð, en viðast ekki þekkja orð danska heimspekingsins og StormP. sem segir: „Det er vanskelig at spå, særlig om fremtiden.“ 

Eðlilegt er að við, sem láta í okkur heyran – viljum tjá okkur opinberlega, séum minnug orð Hávamála að afla sér þekkingar, sýna hófsemi og kunna sig, því að málugur maður verður sér oft til skammar – eða eins og þar stendur:

Ærna mælir,
sá er æva þegir,
staðlausa stafi;
hraðmælt tunga,
nema haldendur eigi,
oft sér ógott um gelur.

Í Fyrstu málfræðiritgerð Snorra-Eddu frá því um 1150 segir, að málróf sé gefið mörgum, en spekin fám. Prédikarinn leggur einnig áherslu á, að menn séu orðvarir: „Vertu ekki of munnhvatur og hjarta þitt hraði sér ekki að mæla orð frammi fyrir Guði“ eða „Varir heimskingjans vinna honum tjón. Fyrstu orðin fram úr honum eru heimska, og endir á ræðu hans er ill flónska. Allt er þetta því gamall sannleikur þar sem allt ber að sama brunni: verum varkár, gætum orða okkar, tökum tillit til annarra.

Austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein [1889-1951] segir: „Allt, sem á annað borð er unnt að hugsa, er unnt að hugsa á skýran hátt. Allt, sem á annað borð er unnt að segja, er unnnt að segja á skýran hátt” – eða á frummálinu þýsku: „Alles was überhaupt gedacht werden kann, kann klar gedacht werden. Alles was sich aussprechen lässt, lässt sich klar aussprechen.“

Tímabilið frá því Hávamál, Völuspá, helgar þýðingar, fornaldarsögur Norðurlanda, Íslendingasögur og Sturlunga saga voru færðar í letur á Íslandi, hefur verið kallað „gullöld Íslendinga“. Nú hafa gárungar kallað samtíð okkar „bullöld Íslendinga".  Látum í guðs nafni þessi orð gárunganna ekki rætast.

 


Í upphafi var orðið - og Jónas Hallgrímsson

Í frumgerð Nýja testamentisins, sem ritað er á grísku, segir í upphafi Jóhannesarguðspjalls í íslensku þýðingunni: Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð.  Þar sem stendur Orðið í íslensku þýðingunni er í gríska frumtextanum notað logos, sem merkir „skynsemi”, „lögmál”, „skipulag” – og „orð”.  

Gríska orðið logos hefur mismunandi merkingar, enda nota grískir heimspekingar það á ólíkan hátt.  Þales frá Míletos [um 625-543 f. Kr.] er sagður fyrstur hinna miklu grísku heimspekinga nota orðið logos um „rökhugsun”.  Heimspekingurinn Heraklítos frá Efesos [um 535 til um 475 f. Kr.], taldi orðið tengja saman skynsamlega umræðu og uppbyggingu heimsins.  Einn þáttur í kenningum hans er að allt væri breytingum háð.  Hið eina sem væri óumbreytanlegt væri hverfulleiki hlutanna sem hann lýsti með orðunum panta rei sem merkja: allt streymir fram.  Margir heimspekingar, rithöfundar og skáld hafa tekið þessa hugmynd upp eftir honum. En Heraklítos taldi einnig að einhvers konar heimsskynsemi stjórnaði öllu í náttúrunni, en áleit hins vegar að hver einstaklingur stjórnaðist af eigin skynsemi og hefði sjálfstæðan vilja.

Sókrates [469-399 f. Kr.] og flestir heimspekingar, honum samtíða eins og sófistarnir, notuðu orðið logos um „fræðilega umræðu” og „fræðilega þekkingu” og  Aristóteles [384-322 f. Kr.] notaði hugtakið logos um „rökstudda umræðu” eða „rökin í orðræðunni”.

Stóumenn, en upphafsmaður stóuspekinnar var Zenon frá Kíton [333-264 f. Kr.], notuðu logos um guðlega skynsemi sem þeir töldu ráða heiminum og gegnsýra allt.   Alheimsskynjunin væri uppspretta þeirra lögmála sem gilda um samfélagið og stjórn þess. Í hverjum manni væri neisti af hinum guðdómlega eldi, skynseminni sjálfri.

Heimspekingurinn Fílon, sem var samtímamaður Krists og sjálfur gyðingur en starfaði lengst af í Alexandríu, notaði gríska orðið logos um tengsl milli guðs og heimsins, þ.e.a.s. um þá skipan eða það lögmál sem gilti þar á milli.  Margir telja upphafsorð Jóhannesarguðspjalls endurspegli þessar hugmyndir sem mótuðu hugmyndir kristinna heimspekinga um hinn þríeina guð.

Orðin í upphafi Jóhannesarguðspjalls merkja því, að í upphafi hafi verið skipan og sú skipan hafi verið hjá guði og sú skipan hafi verið guð sem síðan birtist heiminum í mynd frelsarans Jesú Krists, sbr. orð Opinberunarbókarinnar: „Hann var skrýddur skikkju, blóði drifinni, og nafn hans er Orðið Guðs.”

Rómversku stóuspekingarnir Cicero [104 - 43 f. Kr. ], Seneca [4. f. Kr.- 65 e. Kr.] og Markús Árelíus 121-180 e. Kr.] töldu að líkt og heimur mannsins væri hluti af alheimninum, kosmos, væri skynsemi mannsins hluti af logos, eins og þeir nefndu alheimsskynsemina.

Af því sem hér hefur verið rakið, virðist hugtakið logos í upphafsorðum Jóhannesarguðspjalls ekki ná til meginþátta í merkingu gríska orðsins.  Orðið logos felur í sér merkinguna lögmál, hugsun, skipan – auk merkingarinnar orð.  Ef til vill hefði því verið eðlilegra að þýða orðin þannig: Í upphafi var hugsun og hugsunin var hjá Guði og hugsunin var Guð.

 

Rómantíska stefnan og guð

Rómantíska stefnan kom fram í listum og stjórnmálum í Evrópu í lok 18. aldar og tók við af upplýsingarstefnunni, þótt margt úr upplýsingunni lifði áfram í rómantísku stefnunni á sama hátt og viðhorf rómantísku stefnunnar hafa lifað fram á þennan dag.

Rómantíska stefnan byggir á arfi allt frá grísku heimspekingum á öldunum fyrir Krists burð.  Sagt er að kenningar Platons um ríkið marki upphaf fræðanna um stjórnmál og með frummyndakenningu sinni hafi hann viljað renna stoðum undir siðfræði Sókratesar sem gekk gegn afstæðishyggju sófista. Kenningar Platons voru síðan endurvaktar í stefnu sem kölluð hefur verið nýplatónismi, en helsti frumkvöðull hennar var Plótínos sem uppi var á þriðju öld.  Í lok fornaldar blandaðist nýplatónismi kristinni dulfræði og allt þetta rennur saman í rómantísku stefnunni í sinni miklu mynd.

Lykilorð rómantísku stefnunnar eru: þrá, endurminning, sannleikur, frelsi og ást. Áhersla er lögð á tilfinningar einstaklingsins og að veruleikinn væri ekki einungis sýnileg tilvera heldur óáþreifanlegur og dulin verund – og í þessari duldu verund væri að finna algildar fyrirmyndir hugmynda manna um veruleikann.  Er þetta endurómur af kenningum Platons um frummyndirnar.

Samkvæmt kenningum rómantískustefnunnar er óræð uppspretta heimsins, sem Platon og aðrir grískir heimspekingar veltu fyrir sér, hið sama og guð. Hefur þessi hugmynd verið nefnd algyðistrú, panþeismi, og kemur fram í ljóðum Jónasar Hallgrímssonar.  Sagt er að í algyðistrú búi þrá eftir því sem er ekta og ósnortið í náttúrunni.  Er oft vitnað til þýska heimspekingsins Friedrichs Schellings [1775-1854] sem taldi að guð væri í náttúrinni, en Schelling er talinn fremsti heimspekingur rómantísku stefnunnar.  Fræg eru orð hans: „Náttúran er hinn sýnilegi andi og andinn er hin ósýnilega náttúra.” 

Rómantíska stefnan horfir á náttúruna frá sjónarhóli fegurðar þar sem upplifun einstaklingsins skiptir mestu.  Lengi hafði verið litið á náttúruna frá hagnýtissjónarmiði.  Í ljóðum sínum leitar Jónas Hallgrímsson víða að fegurð og að almættinu í náttúrunni og hann persónugerir náttúruna og telur að í náttúrunni birtist almættið í sannri fegurð sinni.  Af þessum sökum má segja að Jónas hafi fundið fegurð íslenskrar náttúru ljóðum sínum.

Í Hulduljóðum, kvæðabálki sem Jónas lauk aldrei við en lagði meiri rækt við en flest önnur ljóð sín, lætur hann Eggert Ólafsson ávarpa guð, sem nefndur er faðir og vinur alls sem er – og Eggert biður guð að annast Ísland:

 

Faðir og vinur alls sem er,

annastu þennan græna reit,

blessaðu, faðir, blómin hér,

blessaðu þau í hvurri sveit.

 

Í Hulduljóðum koma fram einkenni rómantísku stefnunnar: trúin á guð í náttúrunni, alheimsvitundin, guð sem „skapara alls sem er”, guð sem birtist í blómum vallarins og flugi fuglanna – en náttúran var Jónasi ein lifandi heild.

 

Gátan um Guð

Enski eðlisfræðingurinn Stephen Hawking [1942-2018] segir í lok bókar sinnar A Brief History of Time:

"Finnist fullkomin kenning [um tilurð heimsins], þá ætti hún, eða að minnsta kosti aðaldrættir hennar, smám saman að verða skiljanleg öllum, en ekki aðeins fáum vísindamönnum. Þá getum við öll, heimspekingar, vísindamenn og almenningur, tekið þátt í umræðunni um það hvers vegna við og alheimurinn erum til. Takist að finna svar við þeirri spurningu, yrði það lokasigur mannlegrar skynsemi – þá þekktum við hugskot Guðs."

 

Enski eðlisfræðingurinn Paul Davies [f 1946] segir í bók sinni The Mind of God 1992:

"Ég tilheyri þeim hópi vísindamanna, sem aðhyllist ekki hefðbundin trúarbrögð, en hafna því engu að síður, að heimurinn sé tilviljun án tilgangs. Vísindalegt starf mitt hefur enn fremur sannfært mig um að trúa því stöðugt sterklegar, að hinn sýnilegi heimur, sem ég skynja með hugsun minni, sé saman settur af svo undraverðri hugkvæmni, að ég get ekki sætt mig við, að hann sé aðeins skynlaus veruleiki. Að mínum dómi hlýtur að vera einhver dýpri skýring. Hvort menn vilja kalla þessa dýpri skýringu „Guð”, þá er það spurning um viðhorf og skilgreiningar. Enn fremur hef ég komist að þeirri niðurstöðu, að hugsun – þ.e. meðvitundin um heiminn – er ekki merkingarlausir og tilviljanakenndir duttlungar náttúrunnar, heldur alger undirstaða veruleikans. Með þessu er ég ekki að segja, að við séum tilgangur þess að heimurinn er til. Því fer fjarri. Aftur á móti trúi ég því, að við, mannlegar verur, séum skapaðar inn í þetta kerfi fyrirbæra sem einn af grundvallarþáttum þeirra."

Gátan um guð er því enn óleyst – og verður væntanlega enn um sinn.


Staða íslenskrar tungu

Í gær afhenti forseti Íslands Íslensku bókmenntaverðlaunin 2018 að Bessastöðum við hátíðlega athöfn, eins og sagt er, en Félag íslenskra bókaútgefenda stendur að verðlaununum.  

Tilnefndar höfðu verið fimm bækur í þremur flokkum: fagurbókmenntum, fræðiritum og bókum almenns efnis og barna- og ungmennabókum.  Fjórar af þessum fimmtán bókum hef lesið, þ.e. bækurnar „Kristur - Saga hugmyndar“ eftir Sverri Jakobsson, bókina „Flóra Íslands. Blómplöntur og birkningar“ eftir Hörð Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóru Ellen Þórhallsdóttur, ljóðabálkinn „Sálumessu“ eftir Gerði Kristnýju og ljóðabókina „Haustaugu“ eftir Hannes Pétursson. 

Allar eru þessar bækur frábærar að mínum dómi – hver á sinn hátt, ekki síst bók Gerðar Kristnýjar, en í bókinni „sungin messa yfir konu sem féll fyrir eign hendi svo að þjáning hennar og líf fái ekki að gleymast.

 

Styrkur íslenskrar tungu

Þótt bókmenntaverðlaunin séu mikilsverð svo og tilnefningarnar og afhending við hátíðlega athöfn að Bessastöðum, er það annað sem mér finnst meira um vert, en það er áhugi hins skapandi minnihluta Íslendinga á bókmenntum og tungumálinu. Meðan hinn skapandi minnihluti Íslendinga hefur þennan áhuga á tungumálinu, er íslenskri tungu ekki hætta búin, enda hefur hún aldrei staðið sterkar en nú.  Bölsýni og hrakspár einstakra manna hefur þar ekkert að segja.


Skaupið skelfilega

Nú er sannarlega kominn tími til að hætta svokölluðu skaupi í RÚV. Oft hefur það verið aumt, en aldrei eins og nú. Gamansemi og góðlátlegt grím er ekki því miður öllum gefin. Þá grípa menn eins og Jón Gnarr til kláms og svívirðinga. Fy fanden, segjum við Danir.


mbl.is „Maður getur ekki gert öllum til geðs“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Virðing Alþingis – fólk í lífshættu

Fjölgun aðstoðarmanna á Alþingi

Fjölga á aðstoðarmönnum þingflokka á Alþingi um sautján til þess að auka virðingu þingsins, að því er Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði í fréttum í gær.  Virðing Alþingis hefur aldrei verið minni, þannig að sannarlega er þörf á að auka virðingu þess.  Endurheimt virðingar Alþingis felst hins vegar ekki í því að fjölga aðstoðarmönnum þingflokkanna heldur í því að bæta störf,hegðan og framkomu alþingismanna.

 

Fækkun alþingismanna

Íslendingar eru fámenn þjóð og vafamál hvort við höfum hæfan mannafla og fjármuni til þess að halda uppi svo fjölmennu þingi með 63 alþingismönnum.  Sé borinn saman fjöldi þingfulltrúa í Danmörku, Noregi og Svíþjóð ættu alþingismenn á Íslandi að vera 10 talsins miðað við fólksfjölda og sé litið til Bretlands og breska fulltrúaþingsins ættu alþingismenn á Íslandi að vera sjö.

Með því að fækka alþingismönnum um helming og hækka laun þeirra um helming mætti fá hæfara fólk til þessara mikilvægu starfa. Þannig væri einnig unnt að spara ríkissjóði yfir tvo milljarða króna í rekstrarútgjöldum á ári.  Með fækkun alþingismanna væri einnig unnt að hætta við fyrirhugaða skrifstofubyggingu fyrir Alþingi, sem er í burðarliðnum, en í frumathugun Framkvæmdasýslu ríkisins er mælt með því að ráðast í skrifstofubyggingu á Alþingisreitnum.  Samkvæmt þarfagreiningu og húsrýmisáætlun er þörf fyrir um 5.000 m² nýbyggingu ásamt um 750 m² bílakjallara – bílakjallara!

Byggingarkostnaður er áætlaður 2.588 milljónir króna, en þá er ekki tekið tillit til verðbóta og kostnaður vegna skrifstofu- og tækjabúnaðar.  Þarna væri því unnt að spara um þrjá milljarða í byggingarkostaði og um einn milljarð á ári í rekstrarkostnaði. Alls nemur árlegur rekstrarkostnaður, sem spara mætti með þessum hætti, um þremur milljörðum króna

 

Hjálp við fólk í lífshættu

Þessu fé – þremur milljörðum króna á ári – væri unnt að verja til þess að afnema skatta á lágtekjufólki, fólki sem hefur minna en 400 þúsund krónur í mánaðartekjur, og koma til aðstoðar fólki í lífshættu vegna notkunar áfengis og annanna vímuefna – og leggja einn milljarð til rekstrar meðferðarstofnunar á Vogi.  Þannig mætti auka virðingu Alþingis, sem er lífsnauðsyn lítilli þjóð sem vill teljast menningfarþjóð.


SÁLUMESSA, ljóðabók með djúpar rætur

Gerður Kristný hefur gefið út sjöundu ljóðabók sína sem hún nefnir Sálumessu.  Bókin „flytur bæn þeirra sem lifa um að sál þess látna megi bjargast” og „sungin messa yfir konu sem féll fyrir eign hendi svo að þjáning hennar og líf fái ekki að gleymast,” eins og segir í kynningu á kápusíðu.

Gerður Kristný hefur áður fjallað um ofbeldi gegn konum.  Í ljóðabókinni Drápa er fjallað um morð á konu í Reykjavík árið 1988 og í ljóðabókinni Blóðhófni, sem út kom 2010, segir frá jötnameynni Gerði Gymisdóttur sem Skírnir, skósveinn Freys, sótti í Jötunheima handa húsbónda sínum.  Er frásögn hinna fornu Skírnismála endursögð Blóðhófni og lýst átökum, harmi og trega Gerðar Gymisdóttur sem beitt var valdi og hún neydd burt frá heimkynnum sínum til að þýðast guðinn Frey í lundinum Barra.

 

Mannlíf

Sem ritstjóri tímaritsins Mannlífs birti Gerður Kristný árið 2002 grein eftir unga konu frá Akureyri sem misnotuð hafði verið barn að aldri af eldri bróður sínum.  Vakti greinin athygli, en Gerður Kristný fékk hins vegar þungan dóm frá siðanefnd Blaðamannafélags Ísland fyrir að birta greinina.  

Árið 2005 kom síðan út bókin „Myndin af pabba - saga Thelmu” en Thelma Ásdísardóttir og fjórar systur hennar sem ólust upp í Hafnarfirði á sjöunda og áttunda áratug aldarinnar sem leið urðu um árabil fyrir grimmilegu kynferðislegu ofbeldi frá hendi föður síns og annarra barnaníðinga.  Fyrir þessa bók fékk Gerður Kristný bókmenntaverðlaun Blaðamannafélags Íslands.  Mikið breyttist því á þessum þremur árum. Og enn eru viðhorf til ofbeldis sem betur fer að breytast.

 

#MeToo hreyfingin

Enn lætur Gerður Kristný til sína heyra um ofbeldi karla gegna konum, því að segja má að ljóðin í Sálumessu séu skrifuð inn í nýjasta þátt frelsisbaráttu kvenna víða um heim – #MeToo hreyfingarinnar.  Ljóðabálkurinn lýsir ofbeldi karla gegn konum – í þessu tilviki karlmanns gegn ungri stúlku – stúlkubarni, systur sinni.  Ljóst er að kveikjan að ljóðabálknum er saga ungu konunnar frá Akureyri og er bærinn að hluta umgjörð kvæðabálksins:

 

Pollurinn

lagður svelli

 

Það hvein

í ísnum undan

skautum barnanna

 

eins og

hníf væri

brugðið á brýni

 

Og það eru að koma jól – en:

 

Hann leitaði

á þig þegar

hann kenndi

þér að lesa

 

Ása sá sól

Ani rólar

 

Þú óttaðist að

það sama biði barna hans

 

Naumast er unnt að lýsa tilfinningum barns á myndrænni hátt:

 

Bernska þín

botnfrosin tjörn

 

Myndhverfingar 

Eins og í fyrri ljóðabókum Gerðar Kristnýjar einkenna sterkar myndhverfingar ljóðin:

 

Grýlukerti uxu

fyrir glugga

 

Þú horfðir út um

vígtenntan skolt

vetrarins

 

Gerður Kristný leitar til annarra tungumála til þess að finna orð og vitnar í tungumálið farsi, persneskt mál, þar sem orðið tiám er notað um „ljómann í augum okkar þegar við eignumst vin” en „það vantar orð yfir skelfinguna sem hríslast eins og snjóbráð niður eftir hryggnum” – segir Gerður Kristný.

Lýsingar á sorgarfargi konunnar eru áhrifamiklar og Gerður Kristný bregður fyrir sig samlíkingum eins og:

 

Helvíti, hér er sigur þinn

Dauði, hér er broddur þinn

 

Þöggunin

Og svo er það skömmin og fólkið í þorpinu vill þagga niður söguna:

 

Fólkið vildi ekki

að sagan bærist út

 

Hún vatt sér

undir augnalok þeirra

sleit þau af

sem blöð af blómi

 

Enginn unni

sér hvíldar

 

Þau þyrluðu þögn

yfir orð þín

örfínu lagi af lygum

svo enginn þyrði

að hafa þau eftir

 

Seinna skilaði

fólkið þitt

laununum

– klinki í plastpoka

 

30 silfurpeningar!

sagði það

 

Mannssonurinn - mannsdóttirin

Og tilvísanir í sögu svika og ofbeldis halda áfram, söguna um mannssoninn sem svikinn var. Nú er það mannsdóttirin sem var svikin:

 

Vissulega varstu

mannsdóttirin

sem var fórnað

 

Sagan þín

birtist svo hver

sem á hana trúir

glatist ekki

 

Máttur skáldskaparins

En ofbeldismaðurinn fær makleg málagjöld:

 

Bátskjafturinn

hvolfist yfir hann

 

keiparnir

ganga inn í

bringu og hrygg

 

Rökkurnökkvinn

sekkur

 

Gerður Kristný er þarna að vísa til skáldskaparins, nökkvans eða dvergaskipsins, sem rætt er um í Skáldskaparmálum, en skáldskapur – ljóðið – á eftir að refsa ofbeldismönnum allra tíma og því er von:

 

Tennurnar

hafa verið

dregnar úr

vetrinum

 

Hjarnið

hrúður á særðri jörð

hún ber sitt barr

 

Viðlag kvæðabálksins er, að það vantar orð: „Það vantar orð yfir snjóinn sem sest á örgranna grein bjarkar í stingandi stillu,” eins og skáldið segir.  Og lokaorð kvæðabálsins eru:

 

Það vantar orð

Það vantar orð 

Ekki er unnt að gera þessum áhrifamikla kvæðabálki Gerðar Kristnýjar viðhlítandi skil í orðum – það vantar orð.  Það verður að lesa ljóðabálkinn. Allir hugsandi menn, konur og ekki síst við karlar þurfum að lesa bálkinn – lesa Sálumessu Gerðar Kristnýjar – ekki einu sinni heldur sjö sinnum sjö.

 

Tryggvi Gíslason 20.10.2018


Hugarafl - opið samtal

Undanfarin fimmtán ár hefur fagfólk innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins: sálfræðingur, iðjuþjálfi, félagsráðgjafi og jógakennari starfað í teymi í samvinnu við Hugarafl, sem eru frjáls samtök þeirra sem þurfa á hjálp að halda vegna geðheilsu.  Starf teymisins er nefnt „geðheilsa-eftirfylgd” og er hornsteinn þjónustustarfs sem byggir á nýrri leið innan íslenska geðheilbrigðiskerfisins í samræmi við áherslur í aðgerðaráætlun Alþingis í geðheilbrigðismálum, ályktun Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar WHO, þar sem megináhersla er lögð á opin úrræði og samstarf við þá sem á hjálp þurfa að halda – og fjölskyldur þeirra – sem geta leitað eftir þjónustu á eigin forsendum og án tilvísunar frá lækni.  Orðið valdefling felur í sér að hafa vald til þess að taka ákvarðanir sjálfur, hafa aðgang að upplýsingum og úrræðum og læra að hugsa á gagnrýninn hátt og hafa áhrif á eigin líf og efla jákvæða sjálfsmynd sína og vinna bug á fordómum.

Nú hefur yfirstjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins ákveðið að leggja niður fjögur stöðugildi, tengd þessu hjálparstarfi – án rökstuðnings – og heilbrigðisráðherra hefur enn ekki lagt til lausn á málinu sem henni ber skylda til.  Fella á þetta hjálparstarf undir tilvísanakerfi og þeir, sem á hjálp þurfa að halda, geta ekki lengur leitað beint til þjónustu á eigin forsendum og án tilvísunar frá lækni.

 

Fimmtán ára starfi kastað fyrir róða

Árið 2016 fengu á sjötta hundrað einstaklingar reglubundna þjónustu „geðheilsu-eftirfylgdar”. Það ár leituðu nær 900 einstaklingar beint til Hugarafls.  Voru komur þessa fólks yfir 12 þúsund.  Veitt voru yfir 2000 viðtöl (símaviðtöl ekki meðtalin), auk vitjana, þjálfunar á vettvangi og útkalla vegna bráðatilfella. 

Nú á að kasta fyrir róða fimmtán ára starfi þar sem brotið var blað í hjálp við þá sem þurfa á hjálp að halda vegna geðheilsu sinnar.  Guðný Björk Eydal, prófessor við Fálagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, og Steinunn Hrafnsdóttir, dósent við Fálagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, telja starfið sé einstök þjónusta sem ekkert annað úrræði veitir með sama hætti. „Aðferðir sem byggja á hugmyndafræði valdeflingar og aðferðum batalíkans hafa á undanförnum árum verið grunnstef í alþjóðlegri stefnumótun í geðheilbrigðismálum,” eins og segir í greinargerð Guðnýjar Bjarkar og Steinunnar Hrafnsdóttur.

 

Áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar

Sem kennari hálfa öld, þar sem ég horfði upp á vanmátt nemenda sem máttu sín minna og áttu fáa úrkosti, og sem aðstandandi einstaklinga sem hafa þurft á hjálp að halda vegna geðheilsu, skora ég á forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra, Alþingi og Verferðarsvið Reykjavíkurborgar að reka af sér slyðruorðið og gefa Hugarafli kost á að vinna áfram að „geðheilsueftirfylgd”, sem er hornsteinn þjónustustarfs við þá sem glíma við geðheilsu og byggir á nýrri leið, bæði innan hins  íslenska og hins alþjóðlega geðheilbrigðiskerfis.

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband