Virðing Alþingis – fólk í lífshættu

Fjölgun aðstoðarmanna á Alþingi

Fjölga á aðstoðarmönnum þingflokka á Alþingi um sautján til þess að auka virðingu þingsins, að því er Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði í fréttum í gær.  Virðing Alþingis hefur aldrei verið minni, þannig að sannarlega er þörf á að auka virðingu þess.  Endurheimt virðingar Alþingis felst hins vegar ekki í því að fjölga aðstoðarmönnum þingflokkanna heldur í því að bæta störf,hegðan og framkomu alþingismanna.

 

Fækkun alþingismanna

Íslendingar eru fámenn þjóð og vafamál hvort við höfum hæfan mannafla og fjármuni til þess að halda uppi svo fjölmennu þingi með 63 alþingismönnum.  Sé borinn saman fjöldi þingfulltrúa í Danmörku, Noregi og Svíþjóð ættu alþingismenn á Íslandi að vera 10 talsins miðað við fólksfjölda og sé litið til Bretlands og breska fulltrúaþingsins ættu alþingismenn á Íslandi að vera sjö.

Með því að fækka alþingismönnum um helming og hækka laun þeirra um helming mætti fá hæfara fólk til þessara mikilvægu starfa. Þannig væri einnig unnt að spara ríkissjóði yfir tvo milljarða króna í rekstrarútgjöldum á ári.  Með fækkun alþingismanna væri einnig unnt að hætta við fyrirhugaða skrifstofubyggingu fyrir Alþingi, sem er í burðarliðnum, en í frumathugun Framkvæmdasýslu ríkisins er mælt með því að ráðast í skrifstofubyggingu á Alþingisreitnum.  Samkvæmt þarfagreiningu og húsrýmisáætlun er þörf fyrir um 5.000 m² nýbyggingu ásamt um 750 m² bílakjallara – bílakjallara!

Byggingarkostnaður er áætlaður 2.588 milljónir króna, en þá er ekki tekið tillit til verðbóta og kostnaður vegna skrifstofu- og tækjabúnaðar.  Þarna væri því unnt að spara um þrjá milljarða í byggingarkostaði og um einn milljarð á ári í rekstrarkostnaði. Alls nemur árlegur rekstrarkostnaður, sem spara mætti með þessum hætti, um þremur milljörðum króna

 

Hjálp við fólk í lífshættu

Þessu fé – þremur milljörðum króna á ári – væri unnt að verja til þess að afnema skatta á lágtekjufólki, fólki sem hefur minna en 400 þúsund krónur í mánaðartekjur, og koma til aðstoðar fólki í lífshættu vegna notkunar áfengis og annanna vímuefna – og leggja einn milljarð til rekstrar meðferðarstofnunar á Vogi.  Þannig mætti auka virðingu Alþingis, sem er lífsnauðsyn lítilli þjóð sem vill teljast menningfarþjóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Er þetta ekki þannig, að því örvæntingarfyllri sem menn verða í tilraunum sínum til að auka virðingu Alþingis, því minni verður virðingin?

Lítil virðing Alþingis er eins og sjúkdómseinkenni. Og sjúkdómar verða ekki læknaðir með því einu að reyna að halda einkennunum niðri. Þeir versna bara.

Virðing Alþingis ræðst af verkum þeirra sem þar sitja. Ekki af fjölda aðstoðarmanna. Ef þingmenn legðu meiri áherslu á að sinna því hlutverki sínu að bæta samfélagið, en að byggja yfir sjálfa sig og halda kjánalegar hátíðir sem snúast um þá sjálfa, myndi virðing þeirra aukast fljótt.

Þorsteinn Siglaugsson, 13.11.2018 kl. 14:46

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

Ég vil endilega taka upp forsetaþingræði hér á landi

með sama hætti og er í frakklandi.

=Að almenningur eigi kost á því að kjósa sér

 1 góðan verkstjóra beint á toppinn sem að helgar sig starfinu

og  hefur það hlutverk að axla ábyrgð á sinni ríkisskútu

og er duglegur að höggva á óvissuhnúta.

Jón Þórhallsson, 13.11.2018 kl. 16:02

3 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Góður pistil og svo sammála.

Tek einnig undir athugasemd Þorsteins.

Virðing þeirra sem á þingi sitja ræðst af þeirra verkum.

Sigurður Kristján Hjaltested, 13.11.2018 kl. 19:32

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Þakka þér ágæt mál Tryggvi Gíslason.  Ég hef lengi talið að rétt væri að fækka þingmönnum og stefna að því sem best að þinghúsið dugi.  Hvað margir þingmenn endilega þurfa að vera veit ég ekki enda ekki sérfróður um þannig mál, en það hlýtur að vera til leið til að finna það út.  Viðmiðunnar tölur er gott að hafa en ég teldi að helmingur ætti að vera yfirdrifið nóg. 

Reglur um fjölda flokka á þingi þurfa líka að vera til, því að of margir flokkar vekja lýðræðið og skilvirkni alþingis svo sem sannast hefur.

Þeir sem ekki þola hefðir verða aldrei virðingaverðir og þess ber að geta að við eigum ekki svo mikið af hefðum að ástæða sé til að henda þeim fáu sem þó eru til.  Hefðir skapa reglu og þar með stöðugleika sem sumum finnst heppilegt.

Hrólfur Þ Hraundal, 13.11.2018 kl. 20:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband