Færsluflokkur: Bloggar

Vin sínum skal maður vinur vera

Prófessor við Háskóla Íslands skrifaði á dögunum á heimasíðu sína:

Margt er þægilegt við ellina. Maður verður svo umburðarlyndur og um leið svo hissa á því sem verið er fárast yfir. Hægt er að komast hjá því að lesa endalausar greinar í dagblöðunum eftir sömu nöldurseggina ár eftir ár. Verðtrygging og vextir hætta að koma manni við og það skiptir engu hvað við borgum í heilbrigðisþjónustuna, maður er hvort eð er löngu dauður áður en biðlistum linnir. Svo hættir maður að hugsa um dauðann og dómsdag, sér aftur hvað Marx sagði margt af viti og hvað kirkjan og ríkisútvarpið eru merkilegar menningarstofnanir. Það skiptir mann engu hvernig íslensk tunga er að breytast og öll málfræði er eins og kúgunartæki. Maður verður svolítið rogginn af því að vera hafinn yfir dægurþrasið, en þar má maður vara sig! Og loks veit maður hvað mestu skiptir í lífinu og hvað manni hefur verið best gefið.

Lesandi gerði athugasemdir við orð prófessorsins, hann hefði góð tök á íslensku en:

Hins vegar kemur orðið maður níu sinnum fyrir í pistli hans. Kennari minn í barnaskóla hamraði á því að notkun orðsins maður væri danska og bæri að varast orðið. Var okkur nemendum hans ráðlagt að nota fremur fyrstupersónufornöfn en óákveðna fornafnið maður og segja annaðhvort ég eða við í frásögn eins og fræasögn prófessorsins. Að sjálfsögðu breytist tungumálið enda er íslenskan lifandi tungumál, en hreintungumenn vilja sem minstar breytingar. 

Lengi héldu hreintungumenn því fram að áhrif frá dönsku fælust í því að nota óákveðna fornafnið maður á þann hátt sem prófessorinn gerir. Til fróðleiks má hins vegar geta þess, að danska fornafnið man er upphaflega sama orðið og norræna orðið maður og í Den Danske Ordbog segir, að orðið man „bruges for at henvise til en ubestemt person som repræsentant for en gruppe eller for folk i almindelighed” ellegar „at ordet bruges for at henvise til den talende selv, ofte for at gøre udsagnet mere generelt eller for at underspille sin egen rolle”. Fornafnið vísar því til persónu sem er fulltrúi ákveðins hóp fólks eða fornafnið vísar til fólks yfirleitt. Ummælin vísa þannig til margra og draga úr mikilvægi þess sem talar - eða skrifar, enda hefðu ummæli prófessorsins haft annan hljóm og aðra skírskotun ef fyrstupersónufornafnið ég/við hefði verið notað. Prófessorinn er á sinn hátt að tala fyrir munn margra.

Þess ber svo að geta, að víða í sjálfum Hávamálum, heilræðakvæði sem ort er fyrir meira en ellefu hundruð árum og hefur aðeins varðveist á íslensku, er víða notað orðið maður sem óákveðið fornafn á sama hátt og í dönsku, sbr. m.a. vísuna:

Vin sínum

skal maður vinur vera,

þeim og þess vin.

En óvinar síns

skyli engi maður

vinar vinur vera.


Sýning nemenda Verslunarskólans á Moulin Rouse

Nemendur Verslunarskóla Íslands sýna nú söngleikinn Moulin Rouge í Austurbæ undir stjórn Bjarkar Jakobsdóttur. Aðstoðarleikstjóri er Birkir Ingimundarson, úr hópi nemenda skólans. Sýningin er í einu orði sagt frábær, raunar vandaðasta sýning framhaldsskólanemenda sem ég hef séð á langri ævi.

Söngleikurinn fjallar um hina einu sönnu ást, blekkingar, svik, peninga og völd. Ungur breskur rithöfundur kemur til Parísar árið 1899 og kemst í kynni við bóhema Montmartre og verður ástfanginn af gleðikonunni Satine, sem er helsta stjarna skemmtistaðarins Moulin Rouge, sem auk þess að vera dýr skemmtistaður er dýrt gleðihús með öllu sem fylgir, ofbeldi og yfirgangi gagnvart konum og keppni um peninga og völd - sem allt er alger andstaða hinnar sönnu ástar og sannrar vináttu. 

Söngleikurinn hefur verið settur á svið víða um heim, auk þess sem gerðar hafa verið kvikmyndir eftir sögunni, nú síðast árið 2001 mynd með Nicole Kidman og Ewan McGregor í aðalhlutverkunum, þótt kvikmyndin frá 1952 undir stjórn John Hustons með Zasa Zasa Gabor og José Ferrer í aðalhlutverkum sé mér minnisstæðari.

Í sýningu Verslunarskólans leika Snædís Arnarsdóttir gleðikonuna og Teitur Gissurarson rithöfundinn. Að auki eru um 30 nemendur í sviðlistahópnum svo og sex manna hljómsveit auk 30 nemenda í undirnefndum sýningarinnar af ýmsu tagi. Leikarar gera hlutverkum sínum frábær skil og sviðslistarhópurinn dansar cancan á við hvaða hóp listamanna sem er og sýnir kunnáttu og fimi í breiki og stökkdansi af mikilli íþrótt. 

Oft er talað um það sem afvega fer í samtíð okkar - og ekki að ástæðulausu. Hins vegar er minna talað um það sem vel er gert. Ungt fólk liggur einnig oft undir ámæli - eins og oft áður, enda trú margra að heimurinn hafi frá sköpun sífellt farið versnandi. Hins vegar er það sannast mála að við Íslendingar höfum aldrei átt betur menntað ungt fólk en nú, fólk sem hefur vilja og kjark til þess að fara aðrar og nýjar leiðir en þær sem gamla kynslóð okkar hefur farið. Sýning Verslunarskóla Íslands á söngleiknum Moulin Rouge er eitt dæmi um menntun, hæfileika og kjark ungs fólks á Íslandi.


Ekki er vitið meira en guð gaf

Undarlegt var að lesa ummæli Kristófers Dignus, leikstjóra Áramótaskaups RÚV, sem Fréttablaðið hafði eftir honum í dag, laugardag 9da janúar 2016, þegar Kristófer Dignus, leikstjóri Áramótaskaups RÚV, segir umrætt grín „vera pínlegt og það eigi að vera þannig, enda vísi það til pínlegs atburðar á síðasta ári.“ Síðan er haft eftir Kristófer Dignus, leikstjóra Áramótaskaups RÚV, engan vera heilagan þegar kemur að gríni og grínið hafi verið góðlátlegt. Þetta eru orð heilags manns - ég hef ekki rangt fyrir mér. Og Kristófer Dignus klikkir út með því að segja: „Mér finnst ekki verið að sparka í liggjandi mann.”

Ekki er vit Kristófers Dignus, leikstjóra Áramótaskaups RÚV, meira en guð gaf honum í upphafi. Tillitssemi og virðing fyrir öðru fólki - ekki síst sem því fólki sem á undir högg að sækja - er grundvallarsetning þeirra sem virða mannréttindi og ástunda mannvirðingu - virðingu fyrir öðrum mönnum, körlum og konum. Í skjóli þess, sem Kristófer Dignus kallar grín, virðast heimskir menn og illa menntir - eins og hann - telja sig geta gert grín að hverju sem er. Enginn er heilagur, segir Kristófer Dignus, dómarinn í sjálfs sín sök. Vera kann að enginn sé heilagur, en þegar níðst er á ógæfufólki í skemmtiþætti RÚV á gamlárskvöld er það bæði heimskulegt, ber vitni um dómgreindarleysi og er ekki skemmtilegt. Engum heilvita manni dytti til að mynda í hug að gera gys að deyjandi barni, sjúkri konu eða drukknum manni í neyð - nema Kristófer Dignus, leikstjóra Áramótaskaups RÚV. Auk þessa alls var það brot á grundvallarreglum RÚV að birta skammarlegt viðtal við Sigurð Einarsson í fréttum á sínum tíma. Sigurður Einarsson fékk dóm á öðrum stað.

Skömm RÚV mun lengi í minnum haft eftir ummæli dagskrárstjóra RÚV, Skarphéðins Guðmundssonar, sem segist ekki til umræði að biðja Sigurð Einarssonar afsökunar. Þessir menn, Skarphéðinn Guðmundsson og Kristófer Dignus mega skammast sín fyrir að hafa misnotað vald sem þeim hefur aldrei verið fengið í hendur. 


Jesús Kristur

Til vina, vandamanna og velunnara - og annarra áhugasamra lesenda nær og fjær - sendi ég fróðleik um málfræði og kristindóm með ósk um gleðilega jólarest, eins og við Akureyringar sögðum á öldinni sem leið.

Nafn frelsarans hefur oft verið nefnt á þessum jólum, eins og eðlilegt má telja með kristinni þjóð. Nafnið Jesús er skírnarnafn Krists, komið af hebreska nafnorðinu yesua sem merkir ‘frelsun’. Margt hefur verið skrifað um það, hvernig skýra skuli merkingu þessara orða. Nærtækast virðist mér að skýra þau með orðinu ‘frelsari’, minnugur orða Lúkasarguðspjalls: „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn í borg Davíðs.”

Orðið Kristur er íslensk mynd gríska orðsins sem með latínuletri er ritað Khristós, og merkir ‘hinn smurði’. Gríska orðið er þýðing á hebreska orðinu mashiah - Messías. Eins og lesendur þekkja, er kristin trú nefnd eftir orðinu Kristur, en kristnir menn telja að Jesús frá Nasaret sé ‘hinn smurði’. Samkvæmt kenningu gyðingdóms er Kristur enn ókominn í heiminn.

Hjalti Hugason, prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands, segir á Vísindavefnum:

„Kristur er ekki eftirnafn eða síðara nafn Jesú, heldur fela orðin Jesús Kristur í sér trúarjátningu af hálfu kristinna manna. Þessi tvö orð merkja raunar Jesús er Kristur en Kristur er gríska og merkir það sama og Messías á hebresku. ... Trúarjátningin Jesús Kristur merkir þá að Jesús frá Nasaret hafi verið sá frelsari sem rit Gamla testamentisins sögðu að mundi koma í heiminn og Gyðingar væntu að kæmi hvenær sem var.”

Fallbeyging orðsins Jesús er hins vegar á reiki í íslensku, enda engin furða. Til fróðleiks lesendum er hér að neðan birt beyging orðsins á íslensku og latínu:

 

            ÍSLENSKA        LATÍNA       

NEFNIFALL   Jesús           Iesus         

ÁVARPSFALL  Jesú            Iesu         

ÞOLFALL     Jesúm           Iesum         

ÞÁGUFALL    Jesú            Iesu          

EIGNARFALL  Jesú            Iesu          

 

Séra Páll Jónsson, prestur í Viðvík í Skagafirði, orti sálm sem flest börn á Íslandi hafa sungið á aðra öld og hefst þannig:

Ó, Jesú, bróðir besti

og barnavinur mesti,

æ, breið þú blessun þína

á barnæskuna mína.

 

Sumir syngja að vísu „Ó, Jesús, bróðir besti”, en gæta þess þá ekki að hinn lærði prestur notar ávarpsfall en ekki nefnifall í sálmi sínum. Ekki er hægt að fetta fingur út í það málfræðilega, því að í íslensku er ekkert ávarpsfall - nema af þessu eina orði. En ef til vill ættum við að virða lærdóm sálmaskáldsins í Viðvík í Skagafirði og segja og syngja: „Ó, Jesú, bróðir besti”.

Gleðilega jólarest!


Framtíð íslenskar tungu

Á heimasíðu Mennta- og menningarmálamálaráðuneytisins má lesa um rannsókn, sem gerð var af fremstu máltæknisérfræðingum Evrópu og bendir til þess að flest Evrópumál, þar á meðal íslenska, eigi á hættu stafrænan dauða og séu í útrýmingarhættu á stafrænni öld.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru birtar í Hvítbókaröð META-NET, sem er kallað evrópsk öndvegisnet (a Network of Excellence). Er rannsóknin unnin af meira en 200 sérfræðingum á 60 rannsóknarsetrum í 34 löndum, þ.á.m. Íslandi. (http://www.meta-net.eu/whitepapers). Sérfræðingarnir lögðu mat á stöðu máltækni fyrir þrjátíu af um 80 tungumálum Evrópu á fjórum mismunandi sviðum: vélþýðingum, talsamskiptum, textagreiningu og aðgengi að mállegum gagnasöfnum. Sérfræðingarnir komust að þeirri niðurstöðu að stafrænn stuðningur við tuttugu og eitt af þessum 30 tungumálum væri lítill sem enginn á að minnsta kosti einu af þessum sviðum. Nokkur tungumál, m.a. íslenska, fá lægsta einkum á öllum sviðunum fjórum og lenti íslenska í næstneðsta sæti tungumálanna 30. Aðeins maltneska er talin standa verr að vígi og enska ein taldist hafa “góðan stuðning”.

Grundvöllur rannsóknarinnar

Ekki er ljóst við hvað átt er með “stafrænni öld”, hvort orðin merkja einfaldlega einhvern tíma í framtíðinni eða á þessari öld - öld stafrænna samskipta. Merking þessara orða skiptir ekki öllu máli heldur hugsunin og aðferðin sem býr að baki rannsókninni, skilningur á hlutverki og stöðu tungumála svo og tilgangurinn með því að fullyrða, „að flest Evrópumál, þar á meðal íslenska, eigi á hættu stafrænan dauða” án þess að gerður sé nokkur fyrirvari annar en sá, að stafrænn stuðningur við tungumálin verði aukinn að mun.

Hlutverk tungumála

Tungumál er mikilsverðasta tjáningartækni mannlegs samfélags í öllum sínum margbreytilegum myndum. Með tungumálinu tjáum við skapandi hugsun okkar og tilfinningar, afstöðu og viðhorf og komum skilaboðum á framfæri í óteljandi myndum.

Bandaríski félagsfræðingurinn John Naisbitt gaf árið 1994 út bók sem hann nefndi Global Paradox, og ræðir þar aukin samskipti þjóða í verslun og viðskiptum, þjóðernisvitund, tungumál og styrk þjóðríkja og heldur því fram að því víðtækari, sem samvinna á sviði viðskipta og fjármála verði, þeim mun mikilsverðari verði hver einstaklingur. Þá telur hann að ný upplýsingatækni leysi alþjóðlega gjaldmiðla af hólmi og þýðingarvélar styrki einstakar þjóðtungur af því að alþjóðleg samskiptamál verði óþörf með þýðingarvélum. Um tungumálin segir John Naisbitt:

Því samtvinnaðra sem efnahagslíf heimsins verður, því fleira í umhverfi okkar verður alþjóðlegra. Það sem eftir stendur af þjóðlegum verðmætum verður hins vegar þeim mun mikilsverðara. Því alþjóðlegri, sem starfsumhverfi manna verður, því þjóðlegri verða menn í hugsun. Lítil málsamfélög í Evrópu hafa fengið nýja stöðu og aukinn styrk vegna þess að fólk leggur meiri rækt við menningarlega arfleifð sína til mótvægis við sameignlegan markað Evrópu.

John Naisbitt minnist sérstaklega á Íslendinga og íslensku og bendir á, að á Íslandi tali allir ensku og jafnvel önnur tungumál. Engu að síður varðveiti Íslendingar hreinleika íslenskunnar (“purity of the Icelandic language”) og byggi á gamalli lýðræðis- og bókmenntahefðhefð 

Íslensk málstefna

Íslensk tunga mun áfram vega þyngst í varðveislu sjálfstæðrar menningar og stjórnarfarslegs fullveldis þjóðarinnar. Landfræðileg og menningarleg einangrun landsins, sem áður varð til þess að tungan hélt velli, dugar ekki lengur. Íslenskt þjóðfélag hefur ekki sömu sérstöðu og áður og alþjóðahyggja mótar viðhorf Íslendinga – ekki síst viðhorf ungs fólks sem eru meiri heimsborgarar og óbundnari heimahögum en fyrri kynslóðir, enda stundum talað um „hinn nýja Íslending” sem láti sér í léttu rúmi liggja hvar hann er búsettur og hvaða mál hann talar, aðeins ef hann hefur starf og laun við hæfi og getur lifað því lífi sem hann kýs.

Enginn vafi leikur á að margvíslega hætta steðjar að íslenskri tungu. Því þurfa stjórnvöld undir leiðsögn Mennta- og menningarmálaráðuneytisins að móta opinbera málstefnu sem víðtækt samkomulag yrði um. Til þess verður að efna til umræðu um íslenskt mál og íslenska málstefnu og þurfa sem flestir að taka þátt í þeirri umræðu auk stjórnvalda: rithöfundar og skáld, kennarar og skólayfirvöld, málvísindamenn, sagnfræðingar, bókmenntafræðingar og félagsfræðingar, læknar og lögfræðingar svo og fulltrúar atvinnulífs og viðskipta, enda hafa mörg fyrirtæki sýnt íslenskri málrækt áhuga og skilning. Auk þess er sjálfsagt að efla máltækni fyrir íslenska tungu. Máltækni sker hins vegar ekki úr um líf nokkurrar þjóðtungu.


Dauði íslenskrar tungu - og máltækni

Formælendur máltækni draga upp ófagra mynd af stöðu íslenskrar tungu og fullyrða, að ef ekkert verði að gert, sé íslensk tunga í bráðri lífshættu og verði ekki notuð í tómstundastarfi, framhaldsnámi og störfum tengdum ferðamönnum, eins og þeir orða þetta. Einn formælenda þessa hræðsluáróðurs segir á heimasíðu sinni:

Ég tel að íslenskan sé “dauð” ef við gerum ekkert. En dauðastríð hennar mun taka áratugi, og svipa til andláts latínu … Það er fyrirsjáanlegt að breytingar á notkun íslenskunnar munu gerast hratt og fljótlega gæti verið of seint að grípa í taumana - enda lifa yngstu kynslóðirnar í allt öðruvísu málumhverfi nú en bara fyrir áratug síðan. Þannig að það má með sanni segja að íslenskan geti átt stutt eftir.

Satt er og rétt að málumhverfi ungs fólks er annað en fyrir áratug, að ekki sé talað um fyrir hálfri öld eða 100 árum. En þjóðmálin hafa lagað sig að breyttum aðstæðum - breyttu málumhverfi, auk þess sem það er mikill misskilningur sérfræðinga í máltækni, að latína sé dautt mál. Latína lifir meðal þúsunda fólks, þótt hún sé ekki lengur mál nokkurs þjóðfélags eða lingva franca, sameiginlegt mál lærða manna um allan heim. 

Þessi hræðsluáróður fulltrúa máltækni nær einnig til annarra landa, því að í greinargerð, sem Menntamálaráðuneytið birtir á heimasíðu sinni þar sem segir, að „rannsókn fremstu máltæknisérfræðinga Evrópu bendi til þess að flest Evrópumál séu í útrýningarhættu á stafrænni öld” - hvað sem „stafræn öld” kann að merkja. Þessi rannsókn er sögð unnin af meira en 200 sérfræðingum í máltækni og niðurstöður birtar í röð META-NET, 30 binda ritsafni sem bæði kemur út á prenti og er að finna á netinu, eins og þar segir. Minna má nú ekki gagn gera. Þegar hagsmunasamtök „fremstu máltæknisérfræðinga Evrópu” tala á þennan hátt, vakna sterkar grunsemdir.

Fulltrúar máltækni segja, að uppvaxandi kynslóð á Íslandi sé tvítyngd og hafi náð góðum tökum á ensku áður en þetta unga fólk er fullfært í íslensku. Þetta er víðs fjarri nokkrum sanni, sem flestir tungumálakennarar í grunnskólum og framhaldsskólum staðfesta. Uppvaxandi kynslóð er ekki tvítyngd. Nokkur hluti ungs fólks (einkum drengir á kynþroskaaldri) bregður fyrir sig ensku, en getur ekki tjáð sig nema á takmörkuðum sviðum mannlegs samfélags á því góða heimsmáli.

Haft eftir danska teiknaranum og heimspekingnum Storm P: "Det er svært at spå, især om fremtiden." Sannarlega er erfitt að spá um framtíðina, en á grundvelli þess, að íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga í margskiptu þjóðfélagi en nú, leyfi ég mér að spá því, að máltækni verði dauð, gleymd og grafin innan fárra ára, en íslenska og önnur Evrópumál muni lifa um ófyrisjáanlega framtíð. Leiðir til þess tala við farsímann sinn, bílinn, eldavélina, ískápinn og brauðristina verða heldur aldrei nema brot af málnotkun samfélagsins. Það þurfa postular máltækni - hvar sem þá er að finna - að átta sig á og þó einkum þurfa þeir að hugsa áður en þeir tala.


Sundrungarvald

Enn einu sinni hefur Ólafur Ragnar Grímsson þjónað eigin lund í stað þess að þjóna grundvallarhlutverki forsetaembættisins: að vera sameiningartákn allrar þjóðarinnar og hógvær og friðflytjandi sem talar af reynslu og þekkingu.

Með því að láta orð falla í þá veru, að mesta ógn okkar tíma sé öfgafullt íslam og vandinn verði ekki leystur með barnalegri einfeldni vekur hann sundrungu og tortryggni og hefur þá gleymt fyrri orðum sínum: að hlýnun jarðar væri mesta ógn mannkyns, eins og hann sagði í sumar leið.

Ólafur Ragnar Grímsson hlýtur einnig að tala gegn betri vitund sem gamall prófessor í stjórnmálafræði, að ekki sé minnst á þekkingu sem hann á að hafa hlotið með stjórnmálastarfi sínu: í miðstjórn Framsóknarflokksins, formaður framkvæmdastjórnar Samtaka frjálslyndra og vinstri manna, formaður framkvæmdastjórnar og formaður Alþýðubandalagsins, fulltrúi á þingi Evrópuráðsins, ritstjóri Þjóðviljans og forseti alþjóðlegu þingmannasamtakanna Parliamentarians for Global Action, svo eitthvað sé nefnt.

Á grundvelli þessarar þekkingar ætti Ólafur Ragnar Grímsson og sem gamall jafnaðarmaður að vita að mesta ógn heimsins er misrétti, mismunun, fátækt og umkomuleysi milljóna manna og auðsöfnun í skjóli hervalds.

Fyrir áratug var gerð athugun á fjölda múslíma í Danmörku. Í ljós kom að um 200 þúsund múslímar væru búsettir í landinu. Þar af voru um 20 þúsund taldir trúaðir múslímar, þ.e.a.s. iðkuðu daglega trúarathafnir múslíma, en um 2000 - tvö þúsund - sem kalla mætti rétttrúaða múslíma - fúndamentalista. Af þessum 2000 væru innan við eitt hundrað sem talist gætu ofstækisfullir múslímar.

Ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar um múslíma eru því röng á saman hátt og ef sagt væri að mesta ógn okkar tíma sé öfgafull trú kristinna manna. Vandi heimsins verður sannarlega ekki leystur með barnalegri einfeldni og því síður með heimskulegum ummælum, óvarlegum orðum og sundrungartali.


Myndin af Jónasi Hallgrímssyni

Höfuð Jónasar í gulu

Dagur íslenskrar tungu er tengdur nafni Jónasar Hallgrímssonar, listaskáldsins góða, fyrsta nútímaskálds Íslendinga sem fann fegurð íslenskrar náttúru og sameinaði íslenska ljóðhefð og erlenda kveðskaparlist.

 

Jónas Hallgrímsson dó 26. maí 1845 á Friðriksspítala í Kaupmannahöfn. Árið eftir birtist í Nýjum félagsritum kvæði, níu erindi undir ferskeyttum hætti, eftir Grím Thomsen frá Bessastöðum á Álftanesi. Kvæðið nefndi Grímur einfaldlega Jónas Hallgrímsson. Tvö lokaerindi kvæðisins hljóða þannig: 

 

 

 

 

 

 

Íslands varstu óskabarn,

úr þess faðmi tekinn,

og út á lífsins eyðihjarn

örlagasvipum rekinn. 

 

Langt frá þinni feðra fold,

fóstru þinna ljóða,

ertu nú lagður lágt í mold,

listaskáldið góða.

Talið var að engin mynd hefði verið gerð af Jónasi Hallgrímssyni í lifanda lífi. Sú mynd sem notast er við, er vangamynd sem birtist framan við Ljóðmæli og önnur rit eptir Jónas Hallgrímsson sem Hið íslenska bókmenntafélag gaf út í Kaupmannahöfn 1883. Myndin er steinprent gerð af ónefndum starfsmanni í prentverki Hoffensberg & Traps Etablissement, þar sem ljóðmælin voru prentuð.

Steinprentið er hins vegar gert eftir ljósmynd af teikningu sem Sigurður málari dró upp árið 1860 og varðveitt er í Ljósmyndasafni Íslands. Myndina gerði Sigurður eftir blýantsteikningu, vangamynd, sem séra Helgi Sigurðsson á Melum i Melasveit dró upp af Jónasi þar sem hann lá á líkbörum á Friðriksspítala í maí 1845.

Frá blýantsteikningu séra Helga til steinprentsins frá árinu 1883 er því löng leið og milliliðir tveir: teikning Sigurðar málara og ljósmynd af þeirri teikningu. Þess er því varla að vænta að myndin, sem við höfum fyrir augunum, sé lík manninum Jónasi Hallgrímsyni eins og hann var í lifanda lífi, enda sögðu frændur hans í Eyjafirði steinprentið framan við ljóðmælin 1883 minna lítið á hann og „verið á móti myndinni”.

En til er önnur teikning eftir séra Helga af Jónasi sem gerð er með myndvarpa þess tíma, Camera lucida sem notuð var sem ljósmyndavél, enda séra Helgi fyrsti menntaði ljósmyndari Íslendinga. Myndin er sennilega gerð daginn áður en Jónas lést og ljóst að hún ber svipmót lifandi manns - er af lifandi manni.

Það er því kominn tími til á 170. ártíð Jónasar Hallgrímssonar að farið sé að nota myndina sem gerð var af honum lifandi til þess að sýna að hann lifir enn.

 


Tímarnir breytast og tungumálin með

„Tímarnir breytast og mennirnir með,” segir gamall málsháttur. Hér í þessum þætti færi betur á því að segja að tungumálin breytist og mennirnir með - eða ef til vill öllu heldur: tímarnir breytast og tungumálin með.

Undanfarið hafa orðið umræður í fjölmiðlum um uppruna og stöðu íslenskrar tungu. Uppruni málsins er ljós. Íslenska er upphaflega tungumál norskra landnámsmanna og fram um 1300 var lítill sem enginn munur á máli því, sem talað var á Íslandi, og því sem talað var í Noregi, enda benda heimildir til að íbúar þessara landa hafi notað málið í samskiptum sín á milli, jafnvel fram um 1600.

Í formála Heimskringlu kallar Snorri Sturluson málið, sem talað var á Norðurlöndum, danska tungu. Síðar á miðöldum var það nefnt norræna. Nú kalla Norðmenn gamla málið sitt gammel norsk á bókmáli eða gamal norsk á nýnorsku, sem er hitt opinbera málið í Noregi. Íslendingar kalla mál Norðmanna fornnorsku og á enskri tungu er þetta mál kallað Old Norse, svo kært barn hefur mörg nöfn. Uppruninn er því ljós svo og þróun málanna gegnum tíðina.

Nokkur ágreiningur og óvissa ríkir hins vegar um stöðu íslenskrar tungu og framtíð hennar. Í þessum þáttum hefur því verið haldið fram að íslenskt tunga hafi aldrei staðið sterkar en nú, enda þótt íslenska hafi breyst í tímans rás, því að tímarnir breytast og tungumálin með. Aðrir telja að tungan sé í hættu vegna nýrrar samskiptatækni þar sem allt fer fram á ensku.

Síðast liðinn vetur lagði ég könnun fyrir nemendur í nokkrum grunnskólum og nokkrum framhaldsskólum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Þar var m.a. spurt um afstöðu nemenda til málræktar og málverndar. Svör nemendanna benda til þess að munur sé á afstöðunni eftir skólum og mikill munur á afstöðu grunnskólanemenda annars vegar og nemenda í framhaldsskólunum hins vegar til málræktar og málverndar. Nemendur viðast öðlast aukinn skilning og fá meiri áhuga á stöðu tungumálsins og mikilvægi málræktar eftir því sem þeir verða eldri, sem af ýmsum ástæðum verður að teljast eðlilegt. Auk þess kom fram mikill munur á skilningi og afstöðu nemenda eftir áhugamálum, sem um var spurt í könnuninni.

Á grundvelli þessarar könnunar svo og viðræðum við ungt fólk virðist mega ráða að skil séu á afstöðu "tölvukynslóðarinnar" og fyrri kynslóða til tungumálsins, enda ekki óeðlilegt að börn og unglingar, sem nota ensku daglega í tölvuleikjum og í samskiptum sínum, hafi aðra afstöðu til íslenskrar málræktar - að ekki sé tala um afstöðu til íslenskrar málverndar. 

Ástæða væri því til að kanna betur afstöðu mismunandi aldurshópa til tungumálsins - og þá ekki síst til málræktar og málverndar. Ef vel ætti að vera þyrfti að kanna þetta hjá börnum og unglingum og hjá nemendum á öllum skólastigum svo og í aldurshópum miðaldra og eldra fólks, því að enda þótt íslensk tunga standi enn traustum fótum kann það að breytast með breyttum samfélagsháttum, breyttri þekkingu og breyttri menntun þar sem gætir síaukinna áhrifa frá ensku, ekki síst í nýrri samskiptatækni sem mun gera sig gildandi á öllum sviðum þjóðfélagsins.

 

Vikudagur 5. nóvember 2015

Íslenskt mál 201. þáttur


Fjögur orð

Flest tungumál nota AIDS eða HIV það sem á íslensku er nefnt alnæmi eða eyðni. Í færeysku er þó notað orðið eyðkvæmi ásamt orðinu AIDS. AIDS er skammstöfun á ensku orðunum Acquired Immune Deficiency Syndrome, sem þýða mætti 'áunnið heilkenni ónæmis'.

Flest tungumál nota orðið bibliotek um 'bókasafn', þótt í ensku muni oftast notað latneska orðið library af liber 'bók'. Orðið bókasafn er þýðing á gríska orðinu bibliotek sem myndað er úr biblos, 'bók', og théke, 'geymsla'. Orðið kemur fyrst fyrir í ævisögu Hannesar biskups Finnssonar [1739-1796] „upplesin vid Hans Jardarfør ad Skálholti þann 23ia Augúst 1796”, eins og stendur í útgáfunni frá1797. Hugsanlegt er að hinn lærði biskup hafi sjálfur þýtt orðið úr grísku.

Flest tungumál nota orðið autograf um það sem nefnt er eiginhandaráritun á íslensku. Orðið autograf er myndað af grísku orðunum αὐτÏŒς, autós, sem merkir 'sjálfur', og γράφ, graf, dregið af sögninni γράφειν, gráphein, 'skrifa'. Orðstofnarnir koma einnig fyrir í tökuorðum eins og átómat, 'sjálfsali', eða átómatískur, 'sjálfvirkur', graf, 'línurit', grafík, 'svartlist' og graffittí, 'veggjakrot'.

Flest tungumál nota telefon um það sem nefnt er sími á íslensku. Orðið telefon á sér langa sögu, þótt fyrirbærið ekki ýkja gamalt en vakti undrun þegar Alexander Graham Bell tókst að flytja mannsrödd um koparvír um 1870. Þegar framleiðsla tækisins hófst fáum árum síðar, var í ensku notað orðið telephone um þetta tækniundur. Orðið er myndað af grísku orðunum τῆλε, tÄ“le, 'fjarlægur', og φωνή, phōnÄ“, 'rödd' sem mætti þýða með orðinu firðtal. Eins og lesendur þekkja hefur firðtal breyst í tímans rás. Í stað talþráða hefur orðið til raunverulegt firðtal, þráðlausir símar sem nefndir eru farsímar eða gemsar, en gemsi er hljóðlíkingarorð eftir ensku skammstöfuninni GSM, Global System for Mobile Communications.

Í fornu máli kemur fyrir hvorugkynsorðið síma í merkingunni 'þráður' eða 'þráður úr gulli' og karlkynsorðið sími í samsetta orðinu varrsími, sem merkir 'kjölrák'. Þegar Íslendingum bárust frásagnir af fyrirbærinu telefon um 1870, var talað um telefón. Seinna komu fram tillögur eins og firðtal (1875), hljómþráður (1877), hljóðberi (1879), hljóðþráður (1888) og talþráður (1891). Í Ný danskri orðabók með íslenzkum þýðingum eftir Jónas Jónsson frá Hrafnagili frá árinu 1896 er að finna orðið sími í samsetningunum talsími og ritsími og sögnin talsíma. Árið eftir kemur orðið sími fyrir í tímaritinu Sunnanfara. Síðan hefur orðið verið einrátt í íslensku.

Og þá kemur rúsínan í pysluendanum. Í svahílí er notað orðið simu um 'telefon'. Svahílí er talað af 150 milljónum manna í Austur Afríku og er opinbert mál í Tansaníu, Kenía, Úganda, á Kómóróeyjum og í Kongó. Orðið simu í svahílí er komið af persneska orðinu sim, سیم, sem merkir 'þráður'm - jafnvel 'silfurþráður', og er orðið sim, سیم, notað í persnesku bæði um síma og farsíma. Persneska er indóevrópskt mál eins og íslenska og hafa liðlega 100 milljónir manna persnesku að móðurmáli: í Íran, Afganistan, Tatsekistan, Úsbekistan, Tyrklandi, Írak, Katar, Ísrael, Kúveit, Barein og Óman. Rót íslenska orðsins sími og persneska orðsins sim er hin sama, þ.e. *sêi-, og merkir 'binda', sbr. orðið seil, sem merkir 'band', og orðið sili: 'lykkja á bandi'. Til þess að reka smiðshöggið á furðusögu tungumálanna má geta þess að saga Persa hinna fornu heitir á Iran saga. Vegir tungumálanna eru því furðulegir, ekki órannsakanlegir eins og vegir guðs.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband