Færsluflokkur: Bloggar
9.9.2015 | 20:15
Vi alene vide
Ofangreind orð - Vér einir vitum - er að finna í yfirlýsingar Friðriks sjötta Danakonungs [1768-1839] sem dagsett er 26. febrúar 1835, en yfirlýsingin var svar konungs við áskorun 600 manna um að hefta ekki prentfrelsi í Danmörku. Í yfirlýsingu konungs segir:
Ligesom Vor landsfaderlige Opmærksomhed stedse har været henvendt paa at bidrage Alt, hvad det stod i Vor kongelige Magt, til at virke for Statens og Folkets Vel, saaledes kan heller Ingen uden Vi alene være i Stand til at bedømme, hvad der er til Begges sande Gavn og Bedste.
Í íslenskri þýðingu hljóðar þetta þannig - í nafni forseta Íslands:
Eins og landföðurleg umhyggja vor hefur ávallt beinst að því að leggja allt það af mörkum sem í konunglegu valdi voru stendur til að vinna að velferð ríkisins og þjóðarinnar, þannig getur enginn nema vér einir færir um að dæma hvað er gagnlegast og best báðum til handa
Orð Friðriks konungs sjötta eru talin bera vitni um yfirlæti hins einvalda konunga gagnvart þegnum sínum, en konungur sat á valdastól meira en hálfa öld.
Þessi orð Friðriks konungs sjötta komu í huga mér þegar ég hlustaði á ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands í nær tvo áratugi við setningu Alþingis.
Enda þótt haldinn hafi verið þúsund manna þjóðfundur og Alþingi hafi skipað stjórnlagaráð - eftir að Hæstiréttur ógilti kosningar til stjórnlagaþings á röngum forsendum og af annarlegum ástæðum - og meiri hluti þjóðarinnar hafi samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu að setja nýja stjórnarskrá í samræmi við breytta heimsmynd, nýja hugsun og nýjar hugmyndir um lýðræði og þjóð segir Ólafur Ragnar Grímsson fimmti í ræðu sinni:
Um þessar mundir er hins vegar boðað í nafni nefndar, sem ræðir stjórnarskrána, að hið nýja þing þurfi á næstu vikum að breyta þessum hornsteini íslenskrar stjórnskipunar; tíminn sé naumur því nýta þurfi vegna sparsemi og hagræðis forsetakosningar á næsta vori.
Og Ólafur Ragnar Grímsson - forseti í upphafi 21. aldar - klikkir út með því að segja:
Því ítreka ég nú hin soÌmu varnaðarorð og við þingsetningu fyrir fjórum árum: að Alþingi tryggi að þjóðin viti með vissu hver staða forsetans sé í stjórnskipun landsins þegar hún gengur að kjörborðinu; annars gætu forsetakosningar orðið efni í óvissuferð.
... að þjóðin viti með vissu hver staða forsetans sé í stjórnskipun landsins. Vi alene vide.
Þjóðin veit og skilur með aukinni menntun, yfirsýn yfir sögu þjóðarinnar undir dönskum einvaldskonungum sex aldir og ekki síst vegna skilnings þjóðarinnar hvað lýðræði merkir.
Lýðræði er ekki Alþingi - og ekki forseti sem heldur at han alene vide.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.7.2015 | 10:21
"Óttaðist að svartir væru að taka yfir heiminn."
Orðasambandið að taka yfir er mikið notað. Í mbl.is síðst liðinn sunnudag gat að lesa eftirfarandi: Við vorum að teikna letur fyrir verkefni sem við vorum að gera og á endanum vorum við komnir með svo mörg letur að við ákváðum að stofna leturútgáfu og auka úrvalið. Það hefur síðan tekið yfir hægt og rólega, þrátt fyrir að hafa bara átt að vera hliðarverkefni í byrjun. Á visir.is í síðustu viku stóð þetta: Dylann Roof, sem sakaður er um að hafa skotið níu manns til bana í Bandaríkjunum, óttaðist að svartir væru að taka yfir heiminn. Fyrir nokkru var þetta ritað stórum stöfum á nutminn.is: Rúmlega 200 manns segjast ætla að hringja inn á Útvarp Sögu á föstudaginn og taka þannig yfir símatíma stöðvarinnar.
Orðasambandið taka yfir er ekki gamalt í íslensku, finnst t.a.m. ekki í Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands, og er notað í mismunandi merkingum. Orðasambandið er komið úr ensku: take over : taka við stjórn, taka við (nýju starfi), leggja undir sig (markað), tileikna sér (venjur), fara með á annan stað (fólk eða fénað). Orðasambandið hefur rutt út gömlum og góðum íslenskum orðasamböndum sem eiga betur við og segja skýrar við hvað átt er, s.s. taka við, taka að sér, taka í sínar hendur, ná yfirráðum.
Þegar ofvöxtur hleypur í notkun orða og orðasambanda verður merking þeirra oft óskýr og jafnvel merkingarlítil. Leturteiknarinn hefði t.a.m. getað sagt að leturútgáfan væri nú orðið meginverkefni þeirra enda þótt það hefði í upphafi átt að vera hliðarverkefni þeirra eða aukageta. Ógæfumaðurinn Dylann Roof óttaðist að svartir væru að ná yfirráðum í heiminum og fólkið sem ætlaði að hringja í Útvarp Sögu vildi væntanlega halda símatíma stöðvarinnar fyrir sig þannig að aðrir kæmust ekki að.
Enn og aftur skal minnt á að rangt er að segja: að fara *eitthvert. Rétt er að segja að fara eitthvað. Óákveðna fornafnið eitthvert er hliðstætt, eins og kallað er, þ.e.a.s. stendur með öðru fallorði eins og t.d.: Eitthvert barnanna færði mér þetta. Upprunalegra og réttara er því að segja: fara eitthvað langt út í heim eða: hún fór eitthvað, ég veit ekki hvert. Eflaust verður erfitt að vinna bug á ofnotkun orðtaksins taka yfir svo og að fá alla til þess að segja: Ég ætla að fara eitthvað langt út í heim. Að lokum legg ég til að allir hætti að nota dönsku sögnina kíkja og segi t.a.m.: líta í blöðin, horfa til himins, koma í heimsókn, skoða mynd.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.6.2015 | 13:29
"Fjölgun aldraðra áhyggjuefni"
Í Fréttablaðinu í dag er fyrirsögn á forsíðu sem hljóðar þannig í drottins nafni: Fjölgun aldraðra áhyggjuefni. Í fréttinni er að vísu talað um að fjölgun aldraðra í Garðabæ sé áhyggjuefni, en þessi orð vöktu einkennilegar kenndir hjá mér, öldruðum manninum.
Egill Thorarensen, kaupfélagsstjóri á Selfossi, sagði lengi að það ætti að drepa alla kalla og kellingar sem yrðu sextug. Svo varð hann sextugur sjálfur hinn 7. janúar 1957 og hélt hann upp á það með glæsibrag, eins og hans var von og vísa. Daginn eftir sagði hann við flokksbróður sinn og vin að það ætti að drepa alla kalla og kellingar sem yrðu sjötug. Egill Thorarensen lifði það ekki að verða sjötugur en dó í janúar 1961, aðeins sextíu og fjögurra ára gamall. Annars hefði hann sagt sjötugur: Það ætti að drepa alla kalla og kellingar sem verða sjötug.
Hins vegar sagði Oscar Wilde á sínum tíma: Nú á dögum getur maður lifað allt af nema dauðann. Þannig er það enn og dauðinn er í raun hluti af lífinu og ef við viljum ekki drepa alla kalla og kellingar - eða láta gamalt fólk ganga fyrir ætternisstapa, eins og gert var í miðölum, verðum við að búa sæmilega að öldruðu fólki sem skilað hefur löngu dagsverki og gert Íslands að því góða landi sem það er - burtséð frá Alþingi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
21.5.2015 | 20:39
Íslenskir stjórnmálamenn og hugræn atferlismeðferð
Það er sorgleg reynsla fyrir mig, gamlan organista að norðan, að hlusta á EuroVision lögin, sem í mínum eyrum eru öll eins og minna að því leyti á orðræður íslenskra alþingismanna sem allir syngja sama lagið, að vísu í dúr þegar þeir eru í stjórn, en í moll þegar þeir eru í stjórnarandstöðu, enda sagði gamall sjómaður að austan, að sami rassinn væri undir öllum íslenskum stjórnmálamönnum, þeir væru eins og slitin hljómplata, spiluðu A hliðina í stjórnarandstöðu og B hliðina í stjórn.
En að þessum dæmisögum slepptu, vekur það mér ekki síður undrun heldur ugg og kvíða, hvernig stjórnmál og stjórnmálaumræða er orðin Íslandi þar sem aldrei ætlar að vora. Ekki svo að skilja að úr háum söðli sé að detta, því að aumt var þetta - en aumara er það orðið. Margir hugsandi menn - karlar og konur - hafa spurt sig hvað veldur þessari heimsku og skammsýni, en enginn hefur fundið viðhlítandi svar. Einn talar um fámennið, aðrir um að þjóðin sé orðin svo rík á fáum árum, búi yfir svo miklum auæfum að hún hafi misst sjónar á því sem máli skiptir, og enn aðrir fara aftur á landnámsöld og víkingatímann, eins og aumingja gamli forsetinn gerði fyrir hrunið, og talar um víkingsinseðlið og gáfur fólksins sem ekki vildi una harðræði Harald konungs hárfagra og flutti með sér bókmenntarf sem engin þjóð önnur eigi.
Þetta er allt hugsanlegt - en ólíklegt. Hins vegar er í sálarfræði talað um afneitun þeirra sem gera sér ekki grein fyrir því, hvernig þeim líður, hvað skiptir máli í lífinu og yfirfæra neikvæð einkenni sín og afstöðu yfir á aðra og eiga erfitt með að viðurkenna mistök sín og finnst þeir vera betri en aðrir og hafa enga samúð og tilfinningar fyrir öðru fólki.
Í meðferðarsálarfræði - hugrænni atferlismeðferð - er reynt að fá þessa einstaklinga í afneitun til að verða hluti af heild, samfélagi, og þróa með sér virðingu, skilning, heiðarleika, traust og jafnvel kærleika til annarra. Ef til vill er eingin önnur leið í íslenskum stjórnmálum en senda allt heila liðið á Alþingi í hugræna atferlismeðferð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2015 | 11:15
Íslenska vorið og stjórnmál á Íslandi
Engar áhyggjur hef ég af íslenska vorinu - það kemur fyrr en varir. Hins vegar hef ég áhyggjur af stjórnmálum á Íslandi. Þar ætlar að vora óvanalega seint.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2015 | 10:42
KAUPMANNAHAFNARBÓKIN - Borgin við Sundið
KAUPMANNAHAFNARBÓKIN Borgin við Sundið, sem út kom fyrir hálfum öðrum áratug og er löngu uppseld, kemur út í haust endurskoðuð. Einn kafli bókarinnar er KAUPMANNAHAFNARORÐABÓKIN.
Þar er sagt frá persónum, sem hafa sett svip sinn á borgina, og kennileitum, strætum, torgum og sögufrægum byggingum fyrr og nú. Ein af sögufrægum byggingum sem frá er sagt í bókinni er Bláturn, Blåtårn, sem var hluti af gömlu konungshöllinni á Hallarhólma þar sem áður var borg Absalons biskups og stóð Bláturn þar sem nú er líkneskið af Friðriki VII [1808-1863] framan við Kristjánsborgarhöll. Í turninum var fangelsi sem þeir menn gistu sem brotið höfðu gegn konungi. Turnsins er fyrst getið árið 1494 er Hans konungur I [1455-1513] lét varpa rentuskrifara sínum í Bláturn. Síðan áttu margir kunnir Danir eftir að gista Bláturn allt til þess hann var rifinn 1731.
Tignasti fangi sem gisti Bláturn var Leonore Christine [1621-1698], eftirlætisdóttir Kristjáns konungs IV [1577-1648] sem sat í Bláturni frá því í ágúst 1663 þar til í maí 1685, tæp 22 ár, vegna landráða eiginmanns síns Corfitz Ulfeldt [1606-1664], eins sérkennilegasta manns í sögu Danmerkur, sem gengið hafði í lið með erkifjendum Dana - Svíum. Sat hún í klefa á fjórðu hæð og var hann sex sinnum sjö skref - um 30 m2 að flatarmáli. Þar skrifaði Leonore Christine æviminningar sínar Jammersminde, sem talið er eitt merkasta ritverk á danska tungu á 17du öld. Verkið var þó ekki gefið út í Danmörku fyrr en 1869 og kom út í íslenskri þýðingu Björns Th. Björnssonar árið 1986 undir heitinu Harmaminning.
Vitað er um nokkra Íslendinga sem gistu Bláturn. Jón Ólafsson Indíafari [1593-1679] gisti turninn í tvígang en fékk ekki bústað á við þann sem Leonore Christine hafði. Lýsir hann seinni komu sinni þannig í ævisögu sinni:
Turnvaktarinn Níels með stórri nauðgan og grátandi tárum lét mig ofan síga í Bláturn í mjóum línustreng. Var svo til háttað þar niðri að þar var eitt fjalagólf eður sem einn mikill pallur, en umkring fordjúp ræsi, sem ofan liggja í vatnsgröf þá sem slotið umhverfis liggur. En þessi Bláturn er skaptur sem egg innan svo öllum mönnum þaðan er ómögulegt að komast, en þó þrír menn hafi þaðan sloppið, hvað skeð hafði fyrir djöfulsins meðöl.
Annar Íslendingur gisti Bláturn einn vetur og sat þá uppi í turninum. Var það Guðmundur Andrésson [1615-1654], ættaður frá Bjargi í Miðfirði. Guðmundur hafði verið við nám í Hólaskóla en vikið úr skóla vegna kveðskapar síns. Hann varð þó djákni á Reynistað en misst hempuna vegna barneignarbrots. Samdi hann rit á latínu gegn Stóradómi, Discursus polemicus. Þar hélt hann því fram að fleirkvæni væri hvergi bannað í Biblíunni og væri guðs orð æðra lögum Danakonungs. Harkaleg ákvæði Stóridóms brytu því gegn Biblíunni. Sjálfur sagðist hann engan áhuga hafa á fleirkvæni. Hann hefði nóg með að gagnast einni konu. Henrik Bjælke, höfuðsmaður konungs, lét handtaka Guðmund á Kaldadal 1649 og flutti hann til Kaupmannahafnar. Var Guðmundur lokaður inni í Bláturni en vann sér það til frægðar um veturinn að hrapa niður úr turninum þegar hann var að skyggnast út um vindaugað eftir gangi stjarna og himintungla. Komst hann inn í konungshöllina, sem var áföst turninum, og heilsaði upp á kóngafólkið, sem brá í brún. Var Guðmundi komið aftur fyrir á sínum stað. Um vorið var Guðmundur Andrésson sýknaður af öllum ákærum en var bannað að hverfa aftur til Íslands. Innritaðist hann um haustið í Kaupmannahafnarháskóla og lagði stund á fornfræði. Þýddi hann Völuspá og Hávamál á latínu fyrir kennara sinn Ole Worm [1588-1654] og samdi íslensk-latneska orðabók, Lexicon Islandicum, sem út kom að honum látnum 1683 og aftur árið 1990. Guðmundur lést úr pestinni árið 1654.
Af gömlum lýsingum, málverkum og teikningum er nokkurn veginn vitað hvernig Bláturn leit út sem hluti af gömlu konungshöllinni á Hallarhólmanum og gnæfði yfir inngangi hallarinnar. Um 1600 var turninn endurgerður og sett á hann sveigþak með turnspíru og bogagangi, karnap. Gamla konungshöllin og Bláturn voru rifin 1731 til að rýma fyrir annarri höll, Kristjánsborgarhöll hinni fyrstu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.5.2015 | 20:36
Misskipting launa - auðvald heimsins
Tekjuskipting á Íslandi hefur breyst til aukinnar misskiptingar undanfarin ár. Samkvæmt þjóðhagsreikningum Hagstofu Ísland hefur hlutfall launa annars vegar og fjármagnstekna hins vegar breyst verulega. Hlutfall launa árin fyrir 2006 var um 63% en er nú um 60%. Þetta þýðir, að laun eru nú þrjú til fjórum prósentum lægri en þau voru fyrir 10 árum. Með öðrum orðum eru 50 til 70 milljarðar króna minna til skiptanna til þeirra sem byggja framfæri sitt á launatekjum - en verið hefði að óbreyttu hlutfalli.
Fjármagnstekjur, sem orðnar eru stærri hluti tekna í þjóðfélaginu, renna til stöðugt minni hluta þjóðarinnar, auk þess sem misskipting launa hefur aukist. Að auki hafa stjórnvöld stóraukið áhrif þessarar launaþróunar með stefnu sinni í skattamálum.
Breytingar á lögum um skatta undanfarinna ára hafa - allar - verið til hagsbóta hóps, sem - fyrir einhverjar sakir hefur sífellt öðlast stærri hluta þjóðartekna. Nema þessar skattalækkanir tugum milljarða króna. Þá eru veiðigjöld 20 til 30 milljörðum króna lægri en þau hefðu verið að óbreyttum lögum - þessarar ríkisstjórnar - og afnám auðlegðarskatts lækkaði skattgreiðslur forréttandahópsins um 10 til 15 milljarða króna, auk lækkunar tekjuskatts á sjálfstætt starfandi aðila. Öllu þessu til viðbótar hafa skattar á orkusölu til stóriðju verið felldir niður og stjórnvöld hafa horft aðgerðarlaus á að hagnaður af raforkuvinnslu er fluttur úr landi. Þetta er óskiljanlegt venjulegu fólki eins og mér - sveitadreng austan af landi.
Ástæður þessara óskapa eru margar, bæði hagfræðilegar, stjórnmálalegar - og hugmyndafræðilegar, en hugmyndir um lífið, tilveruna og réttlæti - vega án nokkurs vafa þyngst. Í fyrsta lagi má nefna, að íslensk stjórnvöld vinna ekki í þágu almennings, heldur í þágu þeirra sem meira mega sín - hinna ríku og þeirra sem hafa völd. Í öðru lagi hefur hið alþjóðlega auðvald um árabil gert kröfu um 15 til 25% arð af fjármagni sínu, sem ógerningur er að ná - nema því aðeins að skerða hlut almennings - launþega, enda hefur auðvaldið haslað sér völl meðal fátækra þjóða heims sem berjast fyrir lífi sínu og hafa framleitt þar vöru sína og náð á þann hátt auknum arði af fjármagni. Á þetta að nokkru við um álframleiðslu á Íslandi.
Í þriðja lagi eru málsvarar launþegasamtaka á Íslandi veikir og sjálfum sér sundurþykkir. Ráðið gegn þessari sundurþykkju launþegasamtaka er hugsanlega að launþegahópar semji hver á sínum vinnustað, eins og nú hillir undir.
Í fjórða lagi eru stjórnmálaflokkar á Íslandi, sem áður börðust fyrir samvinnu og jafnrétti, annaðhvort gegnir á máli hjá auðvaldinu eða forystulausir, sundraðir og veikir. Í fimmta lagi eru sjálfstæðir, hlutlægir fjölmiðlar, sem gætu haft bolmagn til þess að greina á hlutlægan hátt stöðu mála fáir og fátækir - auk þess sem Fréttastofa Ríkisútvarpsins, sem lengi hefur verið öflugasta fréttastofnun landsins, í spennutreyju auðvaldsins.
Er þá eina leiðin virkilega bylting öreiganna á Íslandi, hugmynd sem er hundrað ára gömlu, en við Íslendingar erum að vísu hundrað árum á eftir nágrannaþjóðunum í umræðum um lýðræði og réttlæti.
Að kvöldi 1. maí 2015
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2015 | 09:41
Auðlærð er ill enska.
Áhrif erlendra tungumála á íslensku hafa verið mikil frá upphafi, að vísu mismikil eftir tímabilum. Með auknum kristnum áhrifum á 10du öld bast fjöldi nýrra orða í málið. Mörg komu úr fornensku, s.s. bjalla, guðspjall, hringja, kirkja, sál, sálmur - og orðið sunnudagur. Önnur orð bárust úr lágþýsku, s.s. altari, djöfull, kór, krans, paradís, prestur, synd, trú og vers, þótt upphafs orðanna sé að leita í latínu, heimsmáli þess tíma. Beint úr latínu munu hafa komið orð eins og bréf (breve scriptum: stutt skrif), klausa (clausula), persóna (persona) og punktur (punktum). Öll þessi orð hafa unnið sér þegnrétt í málinu.
Á danska tímanum - frá siðaskiptum til 1918 - voru áhrif dönsku mikil, enda svo komið um miðja 19du öld, að umræður í bæjarstjórn Reykjavíkur fóru fram á dönsku og í barnaskóla þeim, sem starfræktur var í Reykjavík 1830 til 1848, var að miklu leyti kennt á dönsku. Stefán Gunnlaugsson bæjarfógeti sá sig því tilneyddan til þess árið 1848 að láta festa upp svohljóðandi auglýsingu: Íslensk tunga á best við í íslenskum kaupstað, hvað allir athugi." Hann mælti einnig fyrir um, að næturvörðurinn skyldi hrópa á íslenskri tungu við hvert hús. Því var sagt: Auðlærð er ill danska. Á danska tímanum bárust í málið orð eins og altan, fortó, kamína, kakkalofn og maskína - sem horfin eru úr daglegu máli - og orðasambönd eins og reikna með, til að byrja með, koma inn á, koma til með að gera, vera í farvatninu - að ógleymdri sögninni kíkja, sem er að drekkja íslenskum sögnum um sömu athöfn.
Síðustu áratugi hefur íslenska einkum orðið fyrir áhrifum frá ensku. Þykir fínt að sletta ensku á svipaðan hátt og fólki á 19du öld þótti fínt að sletta dönsku. Nýlegt dæmi um ensk áhrif á íslensku eru sagnasamböndin stíga fram og stíga til hliðar, en þetta eru þýðingarlán úr ensku: to step forward og to step aside, og margir tala um consept þegar við sveitamenn að norðan látum okkur nægja að nota orðið hugmynd.
Á dögunum urðu umræður um nafngiftir á veitingastöðum á Íslandi. Ýmsir málverndarmenn báðu guð sér til hjálpar vegna þess að notuð væru erlend nöfn á veitingastaði. Alllengi hefur tíðkast að nefna hótel og veitingastaði á Íslandi erlendum nöfnum, s.s. Apotek rastaurant, Café Paris, Castello Pizzeria, Center Hotels, Domino's Pizza, Grand Hotel Reykjvík, Hotel Reykjavkí Centrum, Hilton Reykjavík Nordica, Icelandair Hotels, Kentucy Fried Chicken, Nauthóll bistro, Nings, Radison BLU, Saffran og The Capital Inn.
Þótt nokkrum fyrirtækjum í verslun, iðnaði og ferðaþjónustu séu gefin erlend nöfn, er það eitt og sér engin ógn við íslenska tungu. Hættan liggur annars staðar. Þegar fólk veit ekki lengur hvenær það slettir og vill frekar nota erlend orð en íslensk eða þekkir ekki íslensk orð um hluti og hugtök ellegar notar orðatiltæki ranglega, er hættan orðin meiri. Hins vegar talar flest fólk gott mál, skólar vinna gott verk og skáld og rithöfundar efla málvitund fólks, auk þess sem stjórnvöld skulu lögum samkvæmt tryggja að unnt verði að nota íslenska tungu á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. En Auðlærð er ill enska.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2015 | 21:19
Gott veður og vont veður
Umræður um vorkomuna á Íslandi eftir harðan vetur endast okkur um sinn. Eðlilegt er að margur maðurinn sé orðinn leiður á veðurfarinu eftir versta vetur í áratug. En öll él birtir upp um síðir og íslenska vorið kemur - vorið sem Snorri Hjartarson lýsir í einu af mörgum hrífandi ljóðum sínum:
Þrátt fyrir nepju
og nýfallin snjó í hlíðum
kvakar lóan dátt
í dapurlegu holtinu.
Enn skal fagna
ungu vori og nýjum söng
í öllum þessum kulda,
fyrirheitinu
hvernig sem það rætist.
Fyrir aldarþriðjungi hitti ég sendiherra Norðmanna á Íslandi í höfuðborg hins bjarta norðurs - Akureyri - í logni, sólskini og 14 stiga hita. Þá sagði sendiherrann: Når det blir fjorten grader på Island, så blir det varmt.
Nokkrum árum síðar hitti ég konu frá sólskinslandinu Slóveníu, tengdamóður Vilhjálms Inga íþróttakennara við Menntaskólann á Akureyri. Hún hafði komið til landsins kuldasumarið 1979 að heimsækja dóttur sína og tengdason og fór eftir tvo daga og sagðist aldrei koma aftur til þessa voðalega lands. Þegar barnabörnin fóru að fæðast kom hún norður í blíðuveðri og sagði: Þegar veður er gott á Íslandi, þá verður það svo gott.
Hvergi hefur okkur Grétu orðið kaldara á ævinni en í fjögurra stiga hita í Kaupmannahöfn í janúar 1979, og vorum við þó klædd í síðar mokkakápur frá Iðunni með gæruskinnshúfur á höfði. Í febrúar 1988 vorum við svo í Helsinki í sömu mokkakápunum frá Iðunni með gæruskinnshúfur á höfði. Þá var þar 40 stiga frost en stilla. Gengum við um miðborgina okkur til ánægju í frostinu og var hlýtt.
Sumarið 1993 dvöldumst við í Kóngsins Kaupmannahöfn og bjuggum á Kagså Kollegiet i Herlev. Fyrstu vikurnar var dumbungsveður, eins og stundum á Sjálandi á sumrin. Danmarks Meteorologiske Institut sagði þá dag eftir dag: Det bliver fortsat køligt, atten, nitten grader.
Jón Árni Jónsson, latínukennari við Menntaskólann á Akureyri, sagði frá því að versta veður sem hann hefði lent í um ævina hafi verið þegar hann var í Pompei: Fjörutíu stiga hiti, glampandi sólskin og stillilogn.
Hvað veður er gott og hvaða veður er vont?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2015 | 12:52
Sumardagurinn fyrsti er ekki fyrsti sumardagur á Íslandi hinu kalda
Fréttastofa RÚV klifar á því dag eftir dag að þótt komið sé sumar sé enn vetrarveður á Íslandi. Mikill misskilningu liggur að baki þessum orðum. Að vísu hefur almanaksárinu frá fornu fari verið skipt upp í tvö misseri, vetur og sumar, og fyrsti dagur sumarmisseris lengi af talinn fyrsti fimmtudagur eftir 8. apríl, en með nýja stíl árið 1700 var fyrsti dagur sumarmisseris talinn fyrsti fimmtudagur eftir 18. apríl.
Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefur fyrsti dagur sumarmisseris hins forna misseristals lengi verið talinn 14. apríl. Hins vegar skilgreina frændur okkar fyrsta sumardag þann dag þegar hitinn hefur náð 10°C fimm daga í röð.
Það ætti því engan að undra að enn sé vetrarveður á Íslandi þótt að fornu misseristali sé komið sumar. En sumarið kemur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)