Færsluflokkur: Bloggar

Listin að deyja

Í gær sótti ég rástefnuna LISTIN AÐ DEYJA í Háskóla Íslands. Dauðinn hefur lengi verið tabú á Íslandi og mörg virðumst við halda við séu ódauðleg - það eru bara aðrir sem deyja.

Ráðstefna var fróðleg - og tímabær. Aðalerindi flutti breskur sálfræðiprófessor, Peter Fenwick, sem kannað hefur viðbrögð fólks sem liggur fyrir dauðanum. Nefndi hann erindið “The importance of end of life experience - for living and dying”

Tvennt er efst í huga mér eftir ráðstefnuna: að dauðinn er hluti af lífinu og að samtal milli fólks leysir margan vanda og léttir marga þraut.

Að ráðstefnunni stóðu Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Háskóli Íslands, Hollvinasamtök líknarþjónustu, Krabbameinsfélagið, Landspítali, Lífið - samtök um líknarmeðferð, Læknafélag Íslands, Ný dögun - samtök um sorg og sorgarviðburði, og Þjóðkirkjan. Um 400 mann sóttu ráðstefnuna sem vonandi er upphaf að öðrum og meira.


Einelti og áhrif uppeldis

Einelti - sem áður var kallað stríðni - hefur lengi viðgengist í íslenskum skólum og raunar einnig á íslenskum vinnustöðum. Ástæður eru margar og ferlið flókið.

Víða í skólum er unnið markvisst gegn einelti. En einelti sér hins vegar oftast rætur á heimilunum - því viðmóti sem þar ríkir. Þar sem ekki ríkir virðing, tillitssemi og traust er hætta á einelti og hafa ber í huga að áhrif bernskunnar endast margar kynslóðir.

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, vinnur að doktorsritgerð um einelti í skólum, en sérsvið hennar er tómstundir og félagsmál, frítími, börn - og einelti. Í síðustu viku var viðtal við Vöndu í Ríkisútvarpinu þar sem hún sagði frá verkefni sínu. Telur hún ekki hafi verið nóg gert í skólumi varðandi þetta vandamál. Gera þurfi betur og þá m.a. að ná til barna miklu fyrr og til allra barna og til allra foreldra, ekki aðeins foreldra barna sem lögð eru í einelti og foreldra barna sem leggja önnur börn í einelti. Fróðlegt verður að sjá niðurstöður rannsókna Vöndu Sigurgeirsdóttur á einelti.


Beint lýðræði - aukið traust

Skömmu fyrir páska horfði ég á beina útsendingu frá Alþingi. Það var sorgleg sjón og raunalegt á að heyra. Ráðherrann, sem sat fyrir svörum, grúfði sig yfir smátölvu, leit sjaldan upp en kallaði fram í fyrir ræðumönnum sem þuldu yfir honum skammir og kröfðu hann sagna, en fengu ekkert svar og lítið var um málefnalegar umræður.

Clement Attlee, forsætisráðherra Breta, sagði að lýðræði væri stjórnarform sem reist væri á umræðu. Nehru, forsætisráðherra Indlands, sagði að lýðræði væri leið að marki, ekki markmiðið sjálft og Þorbjörn Broddason prófessor lét svo um mælt í umræðuþætti í RÚV 1997, að lýðræði án upplýsingar væri verra en ekkert lýðræði.

Á Íslandi er lýðræðisleg - málefnaleg umræða af skornum skammti. Ráðandi stjórnmálamenn gera sér litla grein fyrir, að lýðræði er leið að marki og að upplýsingar eru grundvallaratriði. Forsætisráðherra leitast við að sundra þjóðinni með aðgerðum sínum og ummælum og fjármálaráðherra svarar aðfinnslum stjórnarandstöðunnar með því að benda á, að núverandi stjórnarflokkar hafi meirihluta á Alþingi - og ráði því málum.

Þjóðfundur var haldinn í Reykjavík í nóvember 2010 um nýja stjórnarskrá. Fundinn sátu nær þúsund manns á öllum aldri og kynjaskipting var nánast jöfn. Fundurinn komst að niðurstöðum, sem vonir stóðu til að nýtast mundu við vinnu að nýrri stjórnarskrá, sem enn hefur ekki orðið - en verða mun eftir næstu alþingiskosningar.

Eitt grundvallaratriði í niðurstöðum fundarins var, að almenningur fengi aukna aðkomu að þjóðmálum í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem rafræn tækni yrði notuð, sem á eftir að knýja fram lýðræðislegar umbætur og stuðla að beinu lýðræði, leysa af hólmi úrelt viðhorf og úrelt vinnubrögð og auka gagnsæi, lýðræði - og traust.


Staða íslenskrar tungu

Íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Þessi staðhæfing er reist á þeirri staðreynt, að undanfarna áratugi hefur verið ritað um fleiri þekkingarsvið á íslensku en nokkru sinni áður.

Bókmenntir af ýmsu tagi, skáldsagnagerð, ljóðagerð og leikritun, kvikmyndagerð auk marksvíslegra útvarps- og sjónvarpsþátta að ekki sé talað um ritun fræðirita af ýmsu tagi svo og önnur „orðsins list”, hefur aldrei verið öflugri. 

Fleiri njóta nú kennslu í íslensku máli og málnotkun á ýmsum stigum en nokkru sinni áður og nýyrðasmíð er öflug. Auglýsingagerð þar sem orðvísi og nýgervingar hafa auðgað tunguna og síðustu áratugi hefur orðið til ný íslensk fyndni og orðaleikir, sem áður voru óþekktir í málinu. 

Þótt dagblöð - málgögn stjórnmálaflokka - séu færri en áður, eru gefin út vikublöð, tímarit og sérfræðirit af ýmsu tagi - að ekki sé talað um blessað Netið þar sem þúsundir láta skoðanir sínar í ljós, að vísu mjög sundurleitar skoðanir og á misjöfnu máli, en að mestu á íslensku.

Íslensk tunga hefur því verið sveigð að nýjum þáttum í menningu og listum og nýjum viðfangsefnum sem voru óþekkt fyrir einum mannsaldri.

Flest virðist því benda til þess að íslensk tunga, þetta forna beygingarmál, gegni enn hlutverki sínu sem félagslegt tjáningartæki í fjölþættu samfélagi nútímans. Fólk upp og ofan hefur verið einhuga um að standa vörð um íslenskt mál og almenningur og stjórnvöld hafa verið samtaka um að efla íslenska tungu sem undirstöðu þjóðlegs sjálfstæðis

En íslensk þjóð og íslensk menning standa á tímamótum. Breyttir þjóðfélagshættir, alþjóðahyggja og nýjar hugmyndir um sjálfstæði, fullveldi og þegnrétt svo og bylting í samskiptatækni hafa skapað nýja heimsmynd þar sem ný tjáningarform og ný tjáningartækni hafa komið fram á sjónarsviðið og hafa áhrif mál og málnotkun, ekki síst fámenn tungumál.

Einhæf áhrif frá engilsaxneskum menningarsvæðum, einkum Bandaríkjunum, hafa auk þess sett mark sitt á lífsviðhorf fólks, hugmyndir og málfar. Þá er komin fram enn eitt nýtt tækniundur sem krefst þess að skipanir séu munnlegar og gæti breytt stöðu íslenskrar tungu.

Þegar fólk vill í framtíðinni kveikja á sjónvarpinu sínu eða setja bílinn sinn í gang ellegar senda smáskilaboð í símanum eða smátölvunni talar það við þessi tæki og tól - og eina málið, sem tækin og tólin skilja, er enska. Málrækt fámennrar tungu á hjara veraldar verður erfiðari og meiri og þá vaknar spurningin: Hver verður staða íslenskrar tungu þegar ný máltækni er orðin alls ráðandi? Vandi er um slíkt að spá - en sennilega verður erfitt að uppfylla fyrstu tvær greinar núgildandi laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls:

  • íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi og sameiginlegt mál landsmanna
  • stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.

Ofstæki, ofbeldi og mannfyrirlitning

Ástæða er til að fordæma morð og ofbeldi íslamista hvar sem er í heiminum, svo og allt annað ofbeldi, ofstæki og mannfyrirlitningu. Miskunnarleysi íslamskra ofstækismanna gagnvart börnum og konum og öðru saklausu fólki er óskiljanleg mannvonska og mannfyrirlitning og þyngri en tárum taki. Sorglegt er að horfa upp á að “alþjóðasamfélagið” er vanmáttugt gagnvart þessu ofbeldi - eins og mörgu öðru ofbeldi.

Enda þótt miskunnarleysi, mannvonska og ofbeldi séu ekki ný af nálinni og hafi fylgt manninum frá því sögur hófust og mörg tímabil mannkynssögunnar séu drifin morðblóði, virðist samtíminn ekki ætla að reynast betri en önnur blóðug tímabil sögunnar, þrátt fyrir aukna menntun, sem svo er kölluð, aukna víðsýni, sem talað er um, og aukið alþjóðlegt samstarf. Vegna aukins alþjóðlegs samstarfs eru ýmsir farnir að tala um jörðina sem “heimsþorpið”, sem er algert öfugmæli.

Í “þorpinu” þekkja allir alla, skilningur og samhjálp eru þar fyrir hendi og góðvild. Þetta þekki ég úr þorpinu þar sem ég ólst upp, þótt ýmislegt mætti þar betur fara. Í “heimsþorpinu” er skipulega ýtt undir mismunun og misrétti og æðsta markmið margra valdhafa virðist vera aukin völd, aukinn aður af fjármagni og aukin hagsæld fárra - ekki frelsi allra, jafnrétti allra, bræðralag allra og vesæld allra.

Mistök hins vestræna heims - lýðræðisríkjanna, sem svo nefna sig - eru mikil og margvísleg, að mínum dómi. Eftir morð íslamskra ofbeldismanna á starfsfólki skopmyndablaðsins CHARLIE HEBDO á dögunum, sameinuðust margir þjóðarleiðtogar - og allur almenningur á Vesturlöndum að fordæma þessi ódæði. En hvers vegna heggur blaðið CHARLIE HEBDO áfram í sama knérunn - heldur áfram skopi sínu og háðsglósum um spámann Múhameðstrúarmanna? Það er mér óskiljanlegt.

Hvað liggur hér að baki? Er ekki ástæða til þess að hugsa sitt ráð - hugsa sig tvisvar um, læra af reynslunni? Það virðist hið gamla blað mitt Jyllandsposten hafa gert. Eru líka ekki önnur svið mannlífsins og samfélags mann sem mætti fjalla um á skoplegan hátt til þess að fá fólk til þess að hugsa - eða er þetta skop ef til vill eitthvað annað en skop? Hvað svo sem því líður, er þetta er ekki leiðin til sátta og aukins skilnings í "heimsþorpinu" - ef menn vilja þá leita sátta.

Framkoma af þessu tagi er ekki í anda leiðtoga kristinna manna sem boðaði kærleika, sátt, umburðarlyndi og fyrirgefningu sem margar vestrænar lýðræðisþjóðir telja sig fylgja. En skopmyndablaðið CHARLIE HEBDO mun ekki vera að útbreiða kristinn boðskap um sátt og fyrirgefningu heldur segist blaðið vera að standa vörð um tjáningarfrelsið, sem svo er kallað, en tjáningarfrelsi felst ekki í því að sverta annað fólk, skoðanir þess eða trú.


Piparsveinn

Elstu heimildir um orðið piparsveinn eru úr skjölum frá árinu 1542. Á svipuðum tíma koma fyrir í nágrannamálum okkar orðin pebersvend í dönsku, peppersvenn í norsku og í sænsku orðin pepparsven, pepparkadett og pepparsäck. Öll eru orðin þýðingarlán þýska orðsins Pfeffersack, gamanyrði sem upphaflega var notað um ókvænta verslunarþjóna Hansaverslana í Þýskalandi. Í verslunum Hansakaupmanna í Evrópu var seldur ýmiss konar smávarningur og kryddvörur, þar á meðal pipar. Af verslunarþjónunum var því sérstök lykt - af kryddvöru og pipar. Var því farið að kalla þá piparsveina. Framan af gerðu Hansaverslanirnar kröfu um að verslunarþjónar þeirra væru ókvæntir. Af þeim sökum tengdist orðið piparsveinn snemma ókvæntum karlmönnum.

Danska ævintýraskáldið Hans Christian Andersen, sem sjálfur var piparsveinn, skrifaði árið 1858 áhrifamikið og sorglegt ævintýri sem hann nefndi Pebersvendens nathue þar sem hann skýrir uppruna orðsins á þennan hátt:

De rige Kjøbmænd i Bremen og Lübeck dreve Handelen i Kjøbenhavn; selv kom de ikke herop, de sendte deres Svende, og de boede i Træboderne i "Smaahusenes Gade" og holdt Udsalget af Øl og Kryderi. Det var nu saa deiligt det tydske Øl, og der var saa mange Slags, Bremer-, Prysing-, Emser-Øl - ja Braunschweiger-Mumme, og saa alle de Kryderier, saadanne som Safran, Anis, Ingefær og især Peber; ja det var nu det Betydeligste her og derfor fik de tydske Svende i Danmark Navnet: Pebersvende, og det var en Forpligtelse de maatte indgaae hjemme, at de her oppe ikke turde gifte sig; mange af dem bleve saa gamle; selv maatte de sørge for sig, pusle om sig, selv slukke deres Ild, om de havde nogen; nogle bleve saadanne eenlige, gamle Karle, med egne Tanker og egne Vaner; efter dem kalder man nu hver ugift Mandsperson, der er kommet i nogenlunde sat Alder, en "Pebersvend"; alt det maa man vide for at forstaae Historien.

Geta góðfúsir lesendur spreytt sig á því að lesa þennan texta ævintýraskáldsins á því góða máli dönsku.

Á Íslandi var orðið piparsveinn fyrst notað um ókvænta karlmenn sem voru í lausamennsku, sem kallað var, andstætt þeim sem voru í húsmennsku, heimilsfastir á bæ og höfðu fasta búsetu. Ekkert neikvætt eða niðrandi fólst upphaflega í orðinu piparsveinn og enn hefur orðið jákvæða merkingu og er notað um ungan, eftirsóttan - og ókvæntan karlmann, þótt orðið sé einnig á stundum notað um eldri menn.

Orðið piparmey, sem fengið er að láni úr dönsku, pebermø, er miklu yngra í málinu, sennilega frá síðara hluta 19du aldar. Orðið hefur verið notað í niðrandi merkingu um eldri, ógifta konu. Sama er að segja um piparjómfrú sem er álíka gamalt og einnig komið úr dönsku, peberjomfru. Orðin piparkerling og piparkarl koma svo fyrir í íslensku í byrjun 20ustu aldar, bæði notuð í niðrandi merkingu. Það er því ekkert að því að vera piparsveinn, verra að vera piparmey - að ekki sé talað um piparkerling. Má minnast þess sem sagt var um gleðimann og gleðikonu í síðasta þætti.


Ísland er land þitt

Ísland er land þitt

Landanámabók segir frá því að Flóki Vilgerðarson, víkingur mikill, fór af Rogalandi að leita Snælands. Sigldi hann frá Noregi þar sem mætast Hörðaland og Rogaland. Þeir komu austan að Horni og sigldu fyrir sunnan landið og vestur um Reykjanes, fyrir Snæfellsnes og vestur yfir Breiðafjörð og tóku land þar sem heitir Vatnsfjörður við Barðaströnd. „Fjörðurinn allur var fullur af veiðiskap og gáðu þeir eigi fyrir veiðunum að fá heyjanna og dó allt kvikfé þeirra um veturinn. Var vor heldur kalt. Þá gekk Flóki norður á fjöll og sá fjörð einn fullan af hafísum. Því kölluðu þeir landið Ísland.”

Um sumarið sigldu Flóki til Noregs. Lastaði hann landið mjög, en einn af mönnum hans, Herjólfur, sagði kost og löst á landinu, og annar manna Flóka, Þórólfur, „kvað drjúpa smjör af hverju strái” og var því kallaður Þórólfur smjör”, segir í Landnámu.

Landnámabók hefur að geyma margvíslegan fróðleik, sögur, sagnir - og viðhorf. Fáir telja hins vegar lengur heimildagildi Landnámabókar mikið. En Landnámabók er mikilsverð heimild um örnefni, enda er frásögnin augljóslega víða byggð á örnefnum.

Nafngiftin Ísland vekur til umhugsunar, ekki síst í ljósi þess að samtíðarmenn höfunda Landnámabókar gerðu sér grein fyrir mikilvægi nafna og nafngifta, þar á meðal örnefna. Ari fróði segir frá því í Íslendingabók, sem er nokkru eldri en Landnámabók, að „land það, er kallað er Grænland, fannst og byggðist af Íslandi. Eiríkur hinn rauði hét maður breiðfirskur, er fór út héðan þangað og nam þar land, er síðan er kallaður Eiríksfjörður. Hann gaf landinu nafn og kallaði Grænland og kvað menn það mundu fýsa þangað farar, að landið ætti nafn gott.” Takið eftir: „að landið ætti nafn gott”.

Í Grænlendingasögu kemur fram sama viðhorf í nafngiftum. Þar segir frá því að Leifur heppni, sonur Eiríks rauða, fann lönd í vesturheimi. Hið fyrsta kallaði hann Helluland, en þar voru jöklar miklir hið efra og sem ein hella allt til jöklanna frá sjónum og þar óx ekki gras. Þeir fundu annað land, slétt og skógi vaxið og voru sandar víða hvítir og ósæbratt og kölluðu Markland, þ.e. „skógarland“. Enn komu þeir í land þar sem þeir höfðu vetursetu. Þar var meira jafndægri en á Grænlandi eða Íslandi, eins og stendur í Grænlendingasögu, þ.e.a.s minni munur á nóttu og degi. Í þessu landi fundu þeir vínvíð og vínber. Þegar voraði sigldi Leifur aftur til Grænlands. Gaf hann landinu nafn eftir landkostum - og kallaði Vínland.

Í upphafi kvæðis Margrétar Jónsdóttur „Ísland er land þitt“ - segir:

Ísland er land þitt, og ávallt þú geymir

Ísland í huga þér hvar sem þú ferð.

Ísland er landið, sem ungan þig dreymir,

Ísland í vonanna birtu þú sérð.

Ísland í sumarsins algræna skrúði,

Ísland með blikandi norðljósatraf,

Ísland er feðranna afrekum hlúði,

Ísland er foldin, sem lífið þér gaf.

Ísland er kuldalegt nafn, gefið af manni sem lastaði landið mjög, eins og sumir menn gera enn í dag. Herjólfur sagði kost og löst á landinu, eins og eðlilegt er að gera, og „Ísland er land þitt“.


Á Glæsivöllum

Samdóma álit flestra sem kynnst hafa stjórnmálaumræðu á Norðurlöndum, er að umræðuhefð á Íslandi sé afar frumstæð. Þegar við frumstæða umræðuhefð bætist, að fjölmiðlar eru vanmegnugir - og sumir hlutdrægir - er ekki við því að búast að stjórnvöldum sé veitt það aðhald sem nauðsynlegt er, enda helst íslenskum stjórnmálamönnum uppi málróf og blekkingar sem líðast ekki í nágrannalöndunum.  Þarf naumast að nefna dæmi - svo mörg sem þau eru frá umliðnum dögum.

Nokkrir pistlahöfundar dagblaðanna skera sig nokkuð úr, ekki síst Styrmir Gunnarsson, reyndasti blaðamaður á Íslandi. Í dag - laugardag - skrifar hann grein í Morgunblaðið sem öllu hugsandi fólki er vert að lesa. Greinina nefnir hann Af Glæsivöllum samtímans. Vitnar hann í kvæði Gríms Thomsen Á Glæsivöllum, kvæði sem eigi ekki síður við nú en þegar það var ort. Í kvæðinu segir m.a.:

 

Á Glæsivöllum aldrei

með ýtum er fátt,

allt er kátt og dátt,

en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,

í góðsemi vegur þar hver annan. 

  Í upphafi greinarinnar segir Styrmir:

Í kjölfar hrunsins töldu margir að sá atburður mundi hafa grundvallaráhrif til breytingar á hugarfari fólksins í landinu, verðmætamat okkar og afstöðu til þess hvað skiptir máli í lífinu. Það var ekki fráleitt að ætla að það gæti gerzt. Örlagaríkis atburðir í lífi einstaklinga hafa slík áhrif eins og margir þekkja af sjálfum sér. Ótímabær andlát og alvarleg veikindi breyta afstöðu fólks til umhverfis síns.

Náttúruhamfarir geta haft sömu áhrif. Eldgosið í Vestmannaeyjum hefur haft varanleg áhrif á líf fólksins sem þar bjó og varð að yfirgefa heimili sín í flýti þá nótt og mun marka líf fólks sem þar býr nú og eftirkomenda þeirra um langa framtíð. Hið sama má segja um snjóflóðin á Flateyri og í Súðavík.

Tvær heimsstyrjaldir á 20. öldinni hafa haft varanleg áhrif á sálarlíf Þjóðverja. Þeir fara fram af varkárni og eru tregir til þátttöku í hernaðaraðgerðum og leita enn svara við þeirri spurningu, hvernig hámenntuð menningarþjóð gat komið fram við gyðinga á þann veg, sem gert var.

Kannski er oft snemmt að staðhæfa nokkuð hvor og þá hvaða áhrif hrunið hefur haft á sálarlíf okkar Íslendinga. Það er ljóst að við sem þjóð misstum sjálfstraustið um skeið, það sjálfstraust sem, sem veitti okkur kjark  til að stofna eigið lýðveldi og vilja til að standa á eigin fótum. Sumir töldu ráðlegt að hlaupa í skjól Evrópusambandsins. Kannski verður tímabært að gera þetta upp á 10 ára afmæli hrunsins 2018, þegar við höldum up á 100 ára afmælis fullveldisins, sem við fögnum 1. desember 2018.

En getur það verið að það sjáist vísbendingar um að við séum að ganga of hratt um gleðinnar dyr á nýjan leik?

Í lok greinar sinnar segir Styrmir Gunnarsson:

Það er hægt að bregðast við hruninu haustið 2008  með því að vinna markvisst að því að endurreisa það samfélag sem hér var orðið til 2007, byggja hvert stórhýsið á fætur öðru, selja allt sem hægt er að selja og hylla stórfyrirtækin, sem birta gífurlegar hagnaðartölur, sem lítil innistæða reynist að vísu að vera fyrir, þegar upp var staðið.

En það er líka hægt að læra af reynslu annarra þjóða, sem hafa orðið fyrir miklum áföllum og dregið rétta lærdóma af þeim.

Þessi orð Styrmis Gunnarssonar eru umhugsunarverð. Stóra spurningin er því:  Á að endurtaka Hrunadansinn frá 2007 - eða á að reisa nýtt Ísland.

 

            


Something is rotten in the state of Iceland

Hvers vegna í ósköpunum - svo ég sem gamall sjómaður að austan segi ekki: hvers vegna í andskotanum þarf að vera þessi vafi um heiðarleika íslenskra útgerðarmanna? Sem sonur útgerðarmanns fyrir austan segi ég: Hvers vegna í andskotanum hefur skammaryrðið sægreifi leyst orðið útgerðarmaður af hólmi?

Íslendingar hafa ekki efni á óheiðarlegum útgerðarmönnum - óheiðarlegum sægreifum - sem taldir eru „ganga ekki glæpaveg en götuna meðfram honum“. „For den sags skyld“ höfum við heldur ekki efni á óheiðarlegum kaupmönnum, óheiðarlegum verktökum, óheiðarlegum dómurum - að ég sem gamall fréttamaður undir stjórn hins heiðarlega Jóns Magnússonar fréttastjóra Fréttastofu Ríkisútvarpsins tali nú ekki um óheiðarlega fréttamenn.

Íslendingar - þessi voðalega þjóð - er aðeins til vegna þess, að í þúsund ár hefur þjóðin búið við fengsælustu fiskimið á Atlantshafi.  Ísland er raunar eins konar skuttogari á miðjum fiskimiðum á mörkum Atlantshafs og Norður Íshafs.

Sem málfræðingur leyfi ég mér að nefna, að Íslendingar eiga elsta tungumál í Evrópu og geta af þeim sökum lesið þúsund ára gamlar bókmenntir, sem engir önnur þjóð í Evrópu getur.  Þessi ummæli mín eru í augum sumra vafalaust talin þjóðernishroki eða þjóðernisstefna - nationalismus a la Hitler - þótt skoðun okkar sé sú, að allar þjóðir - jafnvel fólks sem játar múslímstrú eða telur sig með öllu trúlaust - eigi rétt á að hrósa sér af menningu og viðhorfum sínum, meðan það gætir þess að virða mannréttindi og jafnrétti allra á öllum sviðum - og ekki að fremja morð. Móses gamli sagði fyrir fimm þúsund árum: „Þú skalt ekki morð fremja.“ Það er í raun boðorð númmer eitt.

Shakespeare, sem að vísu var ekki eins gamall og Móses, lætur Marcellus segja við Hamlet í leikritinu Hamlet Prince of Denmark: „Something is rotten in the state of Denmark.” Höfundur þessara orða, þ.e.a.s ég - ef mig skyldi kalla - segi við Sigmund Davíð, Ólaf Ragnar og aðra svo kallaða áhrifamenn: „Something is rotten in the state of Iceland.”

 

 

 


Gamanleikari og stjórnmálamaður

Þegar gamanleikarinn Jón Gnarr bauð sig fram til borgarstjórnar og varð borgarstjóri Reykjavíkur fyrir fjórum árum, undraðist ég uppátækið og hneykslaðist yfir framferðinu og taldi að nú væru endalokin framundan.

Síðan hef ég orðið að endurskoða álit mitt, orð mín og ummæli. Með góðum samstarfsmönnum hefur hann unnið ágætt starf í höfuðborg allra landsmanna, friður hefur ríkt auk þess sem umræðan í borgarstjórn skemmtilegri en löngum og glaðværð ríkt.

En hvað veldur því að gamanleikarinn Jón Gnarr hefur staðið sig með svo miklum ágætum og öðlast virðingu og traust flestra? Það sem mestu veldur er einlægni hans og heiðarleiki og fágæt gamansemi sem hann beitir á sjálfan sig en ekki gegn öðrum. Eftir þessu hefur þjóðin beðið lengi og Þjóðfundurinn 2009 setti heiðaleika efst á óskalistann

Heiðarleiki og einlægni Jóns Gnarr kemur nú síðast fram í færslu hans á bloggsíðu sinni í dag þar sem hann segir:

„Nú langar mig til að mennta mig meira. Mig langar til að læra taugalíffræði, heimspeki og mannfræði til að geta skilið mannfólkið betur. Mig langar til að læra um loftslagsbreytingar svo við getum gert eitthvað í því. Hvernig get ég lagt mitt að mörkum? Ég vil læra um mannréttindi svo ég geti varið þau. Ég vil læra betri ensku svo ég geti talað þannig að fólk heyri til mín.“

Stjórnmálamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, ættu að læra af gamanleikaranum sem tók hlutverk sitt sem stjórnmálamaður alvarlega.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband