Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
3.10.2015 | 08:12
Konur og aðrir sólbaðsstofunuddarar
Gamall og góður nemandi minn úr Menntaskólanum í Reykjavík fyrir hartnær hálfri öld, Jón Steinar Gunnlausson, lögmaður og fyrrum dómari við Hæstarétt Íslands, skrifar grein í Morgunblaðið 28. f.m. um, hvernig nú skuli skipa í Hæstarétt. Telur Jón Steinar marga álíta að þar ættu helst að sitja dómarar sem talist gætu einhvers konar þverskurður af fólkinu í landinu! Í öllu talinu felst einhvers konar grundvallarmisskilningur á starfsemi dómstóla.
Réttarfar í landinu er of mikilsverður þáttur nútímalýðræðis, þar sem gilda skal jafnrétti og jafnræði á öllum sviðum, til þess að lögfræðingar, lögmenn og hæstaréttardómarar fjalli einir um það mál. Af þeim sökum leyfi ég mér sem gamall kennari að leggja orð í belg.
Andstætt því sem Jón Steinar álítur grundvallarmisskilning - að krefjast þess að í Hæstarétti sitji dómarar sem talist gætu einhvers konar þverskurður af fólkinu í landinu, tel ég að einmitt þannig ætti það að vera, þ.e.a.s. að í Hæstarétti sitji karlar og konur, afkomendur iðnaðarmanna, verkamanna og sjómanna - og sólbaðstofunuddara, en ekki aðeins nemendur Menntaskólans í Reykjavík úr fyrstu stétt, aldir upp í Vesturbænum eða Hlíðunum.
Jón Steinar segir, að dómstólar eigi að leysa úr réttarágreiningi milli manna og beri að dæma einungis eftir lögum - nema hvað, enda sé það í reynd forsenda fyrir starfi dómstóla að hin lagalega rétta niðurstaða sé aðeins ein. Þar fór hins vegar í verra, Jón Steinar, vegna þess sem þú bendir réttilega á, að oft þarf á mikilli hæfni að halda því leitin er stundum ekki einföld og menn kann að greina á um niðurstöður hennar. Þetta er mergurinn málsins: Allt orkar tvímælis þá gert er, eins og haft er eftir lögvitringnum Njáli á Bergþórshvoli. Auk þess sjá augu betur en auga. Auk þess þarf að taka tillit til ólíkra viðhorfa þegar leyst er úr ágreiningi manna. Og þótt ekki væri nema af þeim sökum eiga í Hæstarétti að sitja dómarar sem talist gætu einhvers konar þverskurður af fólkinu í landinu.
Jón Steinar segir að í hópi þeirra sem kallast mega [takið eftir orðalaginu: kallast mega] lögfræðingar er margur misjafn sauðurinn. Við viljum ekki að aðrir en þeir hæfustu fái í hendur völd til að kveða upp dóma í málefnum fólksins í landinu. ... Í því efni skiptir kynferði dómara engu máli.
Öllum mun ljóst vera, að í hópi þeirra sem kallast mega lögfræðingar er margur misjafn sauðurinn og af þeim sökum viljum við að þeir hæfustu fái í hendur það mikilsverða þjónustuhlutverk - ekki völd - til að kveða upp dóma í málefnum fólksins í landinu. En í því efni skiptir kynferði dómara máli. Konur og karlar hafa nefnilega ólík viðhorf vegna kynferðis síns.
Krafa nútíma lýðræðis á Vesturlöndum er að konur komi alls staðar að málum þar sem velferð okkar og örlög eru ráðin. Og meðan sjónarmið á borð við skoðanir Jóns Steinars eru enn við lýði að bera saman lækna, iðnaðarmenn, verkamenn, veitingamenn og sólbaðstofunuddara annars vegar og konur hins vegar, er eina leiðin að alls staðar þar sem velferð okkar og örlög eru ráðin sé viðhafður kynjakvóti - og þá meðal annars og ekki síst í Hæstarétti Íslendinga. Nóg er til af hæfum konum í hópi þeirra sem kallast mega lögfræðingar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2015 | 00:31
Traust
Það er ef til vill að bera í bakkafullan lækinn að benda á allt það sem aflaga fer, enda verða margir til þess. Hitt gleymist að benda á það sem er vel gert á þessu voðalega landi - Íslandi.
En hvort heldur við klifum á því sem aflaga fer eða reynum að benda á það sem vel er gert, eigum við að reyna að skapa traust: meðal vina, á vinnustað, innan fjölskyldunnar - og í flokknum okkar, hver sem hann annars kann að vera.
16.6.2014 | 23:33
Þúsund ár á einni öld
Í dag er þjóðhátíðardagur Íslendinga, þessarar dvergþjóðar á mörkum hins byggilega heims, þjóðar sem fjölgaði ekkert í 900 ár meðan fólksfjöldi nágrannalandanna þrefaldaðist. Fyrir rúmri öld var Ísland amt í Danmörku. Fátækt var svo mikil að sjómenn frá Noregi, sem hingað komu til fiskveiða um aldamótin 1900, sögðu heimkomnir að fátækt á vesturströnd Noregs væri auðlegð í samanburði við kjör þurrabúðarmanna á Íslandi.
Menntunarstig
Fyrir 100 árum voru skólar fáir og fábreyttir. Nú er menntunarstig Íslendinga svipað og í öðrum löndum álfunnar. Í upphafi 20ustu aldar höfðu innan við þrjátíu Íslendingar lokið doktorsprófi. Síðan 1950 hafa á fjórða þúsund Íslendingar lokið doktorsprófi og nú ljúka um eitt hundrað Íslendingar doktorsprófi víðs vegar um lönd - og eru konur þar í meirihluta.
Efnahagur þjóðarinnar hefur aldrei verið betri. Verkmenning er sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndunum. Talandi tákn um framfarirnar er barnadauði, sem 1875 var hæstur hér á landi af öllum löndum Evrópu, en er nú lægstur í öllum heiminum.
Íslensk tunga
Íslensk tunga hefur aldrei staðið sterkar sem lifandi þjóðtunga en nú. Í upphafi 19du aldar var Reykjavík danskur bær þar sem töluð var danska á bæjarstjórnarfundum. Undanfarna hálfa öld hefur verið ritað á íslensku um flest þekkingarsvið nútímasamfélags. Skáldsagnagerð, leikritun, ljóðagerð og kvikmyndagerð stendur með blóma. Myndlist og tónlist þola samanburð við flest lönd Evrópu og til er orðin áður óþekkt íslensk fyndni, gamansögur og hnyttnir orðaleikir, ekki síst meðal ungs fólks, í stað skítabrandara, sjóðbúðatals og sagna af skrýtnu fólki. Atvinnulíf er fjölbreytt og fyrirtæki, stór og smá, sækja á ný mið og renna stoðum undir aukna velsæld og bætta afkomu. Þúsundir karla, kvenna og barna af erlendu bergi brotið hafa flust til Ísland til þess að setjast hér að og verða íslenskir ríkisborgarar og auðgað menningarlíf á Íslandi.
Hrapallegt ástand í stjórnmálum
En þótt Ísland hafi ferðast þúsund ár á einni öld og listir, menntun og atvinnulíf standi með blóma er enn margt ógert - og ýmsu er ábóta vant. Hrapallegast er ástandið í stjórnmálum þar sem borist er á banaspjót, innan flokka og utan, og Alþingi er skopmynd af löggjafarsamkomu. Stendur þessi ómenning mörgu fyrir þrifum.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að siðferði í stjórnmálum og staða, viðhorf og starfshættir fjölmiðla skipta sköpum fyrir málefnalega umræðu og frjálsa skoðanamyndun og farsælt stjórnarfar.
Vanmáttugir stjórnmálamenn
Samanburðarrannsóknir í Danmörku og Noregi annars vegar og á Íslandi hins vegar hafa leitt í ljós gríðarlegan mun á starfsháttum stjórnmálamanna og umræðuhefð. Brigsl og stóryrði, sem margir íslenskir stjórnmálamenn temja sér, er óhugsandi í Danmörku og Noregi, enda grafa þarlendir stjórnmálamenn sér gröf með slíku tali. Hér á landi telja margir stóryrði og brigsl tákn um djörfung og festu.
Þessi frumstæða umræðuhefð setur svip á störf Alþingis sem iðulega minnir meir á sjónleikahús en löggjafarsamkomu og eykur aukið tortryggni milli stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka og hindrar eðlilegt samstarf enda ber almenningur ekki virðingu fyrir Alþingi eða íslenskum stjórnmálamönnum. Má fullyrða að ein ástæðan fyrir erfiðleikum við lausn aðkallandi vandamála á rætur að rekja til sundurlyndis íslenskra stjórnmálamanna og frumstæðs stjórnmálasiðferðis og umræðuhefðar.
Hlutur fjölmiðla
Umfjöllun um ágreiningsmál í fjölmiðlum á Íslandi einkennist oft af yfirheyrsluaðferðinni þar sem spyrjandi reynir að gera viðmælanda sinn tortryggilegan - og fella yfir honum dóm. Við hlið dómstóls götunnar og skvaldursins í netheimum, hefur verið settur dómstóll íslenskra fjölmiðla. Í sjónvarpi í Danmörku og Noregi býr spyrjandi sig vel undir og leitar svara á hlutlægan hátt með yfirveguðum spurningum til þess að reyna að skýra málin - og fellir ekki persónulega dóma og tekur því síður sjálfur þátt í umræðunni. Vegna yfirheyrsluaðferðarinnar fást iðulega ekki svör við brennandi spurningum og almenningur situr eftir ringlaður með óbragð í munninum.
Ástæður frumstæðrar umræðuhefðar
Ástæður frumstæðrar umræðuhefðar á Íslandi eru vafalaust margar. Rótgróin borgmenning hefur enn ekki fest rætur á Íslandi með tillitssemi, yfirvegun og persónulegri fjarlægð sem slíka menningu einkennir. Fámenni hefur valdið því að allir þykjast þekkja alla og persónulegt návígi nálgast iðulega ofsóknir. Stéttskipting með sínum harða aga hefur verið með öðrum hætti en úti í hinum stóra heimi - með kostum sínum og göllum, og agaleysi Íslendinga er áberandi á flestum sviðum.
Eitt af því sem mjög er aðkallandi í þjóðfélaginu, er að bæta umræðumenningu, auka virðingu fyrir öðru fólki og skoðunum annarra - samfara því að koma á jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins.
14.12.2013 | 11:04
Ríkisútvarp - sem rís undir nafni
Ríkisútvarp - sem rís undir nafni - er ein mikilvægasta stofnun samfélagsins ásamt Alþingi, mennta- og rannsóknarstofnunum, heilbrigisstofnunum í margbreytilegum myndum sínum, menningarstofnunum, svo sem leikhúsum og tónlistarfélögum, og þjóðkirkju.
Eðlilegt er að skiptar skoðanir séu um slíkar stofnanir svo og aðrar stofnanir sem reknar eru fyrir skattpeninga almennings, enda eru umræður stöðugar og skoðanir skiptar. Auk þess er umræða nauðsynleg um stofnanir og fyrirtæki í eigu einstaklinga, en slík fyrirtæki hafa ekki síður áhrif á daglegt líf, velsæld og velferð almennings en opinberar stofnanir.
Lýðræðisland - sem rís undir nafni
Í lýðræðislandi - sem vill rísa undir nafni - þarf að vera vettvangur fyrir málefnalegar umræður um öll álitamál svo og gott aðgengi að traustum upplýsingum um þjóðfélagsmál. Til þess að stuðla að þessari umræðu og veita upplýsingar höfum við fjölmiðla: blöð og tímarit, útvarp, sjónvarp og ekki síst hið mikla undur tækninnar - veraldarvefinn.
Mikilsverðasti fjölmiðillinn hér á landi og í nágrannalöndum okkar er ríkisútvarp rekið í almannaþágu. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er öflugt ríkisútvarp með mörgum rásum hljóðvarps og sjónvarps auk skóla- og kennslusjónvarps og kennsluútvarps og sjónvarps um listir og menningu.
Umræða - sem rís undir nafni
Í fyrstu grein laga "um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu" segir, að markmið laganna sé að stuðla að lýðræðislegri umræðu og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.
Ráðherra - sem rís undir nafni
Þessi markmiðslýsing er skýr og metnaður af hálfu löggjafans mikill. Hins vegar eru ákvæði laganna um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu gölluð hvað varðar stjórn. Í þriðja kafla laganna segir að Ríkisútvarpið sé sjálfstætt opinbert hlutafélag í eigu íslenska ríkisins, ráðherra fari með eignarhlut ríkisins og stjórn skuli kosin á aðalfundi.
Þetta þýðir að ráðherra kýs einn stjórn á aðalfundi og getur einn ráðið öllu, sem hann hefur gert. Slíkt samrýmist illa fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu í lýðræðislandi þar sem valddreifing er fyrsta boðorðið. Fyrirkomulagið er að vísu svipað í Noregi. Þar er löggjafinn hins vegar ekki að breiða yfir einræðið heldur segir einfaldlega: Ráðherra er aðalfundur útvarpsins: Kirke- og kulturministeren er NRKs generalforsamling.
Danska ríkisútvarpinu, Danmarks radio, er stjórnað af ellefu manna stjórn sem ráðherra skipar eftir tilnefningu frá Folketinget sem tilnefnir sex fulltrúa og starfsfólk DR tvo. Sjálfur tilnefnir ráðherrann þrjá fulltrúa. Með þessu er reynt að gæta ólíkra hagsmuna og fagmennsku, enda eru Danir lengra komnir í lýðræðislegri hugsun en Íslendingar.
Lýðræðileg umræða og hlutlægar upplýsingar
Til þess að stýra málefnalegri umræðu og veita hlutlægar upplýsingar og koma á framfæri ólíkum sjónarmiður þarf sjálfstætt Ríkisútvarp laust úr viðjum flokkspólitískra valdhafa. Æskilegt væri að helstu stofnanir og samtök þjóðfélagsins, s.s. samtök atvinnulífs, launþega og listamanna, skólar, þjóðkirkjan og önnur trúfélög ættu fulltrúa í stjórn Ríkisútvarps sem risi undir nafni og lagt gæti grunninn að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi.
Þá hefðu mistök, sem nú hafa orðið í RÚV, ekki átt sér stað.
23.10.2012 | 09:03
Lifandi stjórnarskrá
Grundvöllur að mannlegu samstarfi og samskiptum er traust, hvort heldur er í fjölskyldu og hjónabandi, fyrirtæki, stofnunum eða samfélaginu sjálfu. Í samfélaginu er mikilsvert, að almenningur geti borið traust til grundvallar- stofnana ríkisins: Alþingis, framkvæmdavaldsins og dómstólanna.
Þessu er því miður ekki að heilsa í íslensku þjóðfélagi, þjóðfélagi sem státar sig af því að eiga elsta löggjafarþing í Evrópu og kom þegar á þjóðveldisöld á fót fullkomnara dómskerfi en nokkurt annað land. Framkvæmdavald var að vísu ekki til og eini embættismaður ríkisins var lögsögumaðurinn, sem sagði upp lögin og var í raun lifandi stjórnarskrá þjóðveldisins.
Frá stofnun lýðveldis hefur átt að endurskoða stjórnarskrána frá 1944, sem að meginstofni er þýðing á DANMARKS RIGES GRUNDLOV af 5. Juni 1915 med ændringer af 10. September 1920.
Við hrunið 2008, sem á sér enga hliðstæðu í sögu lýðveldisins, töldu margir að tími væri kominn til að endurskoða stjórnarskrána, ekki vegna þess að danska stjórnarskráin væri orsök hrunsins, heldur til að marka nýja stefnu móta nýtt Ísland eftir að í ljós kom glæpsamleg spilling í efnahagslífi og stjórnmálum landsins, spilling sem á sér enga hliðstæðu með nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum.
Sundurlyndi stjórnmálaflokka, sem eru sjálfum sér sundurþykkir, og augljós fyrirlitning stjórnmálamanna svo ekki sé sagt hatur þeirra hver á öðrum hefur kynt ófriðarbál sem enn brennur með þjóðinni og hefur tafið endurbætur á stjórnkerfi landsins.
Enn ríkir sundrung í þjóðfélaginu, tortryggni, reiði og vonbrigði. Frumstæð umræða á opinberum vettvangi ekki síst frumstæð og ómálefnaleg umræða á Alþingi gerir þinginu ókleift að ráða fram úr aðkallandi verkefnum. Með nýrri stjórnarskrá nýjum þjóðarsáttmáli má vænta þess að unnt verði að auka ábyrgð stjórnvalda, tryggja raunverulega þrískiptingu valds og endurreisa traust almennings á Alþingi, ríkisstjórn og dómstólum.
Þetta er eina von alþingismanna sem þeim gefst um langan tíma að efla traust almennings á Alþingi. Óskandi er að alþingismenn þekki sinn vitjunartíma, hætti að rífast og vindi sér í að ganga frá frumvarpi að nýrri stjórnarskrá fyrir nýtt Ísland sem borin yrði undir atkvæði við alþingiskosningar næsta vor.