Lifandi stjórnarskrá

Grundvöllur að mannlegu samstarfi og samskiptum er traust, hvort heldur er í fjölskyldu og hjónabandi, fyrirtæki, stofnunum eða samfélaginu sjálfu. Í samfélaginu er mikilsvert, að almenningur geti borið traust til grundvallar- stofnana ríkisins: Alþingis, framkvæmdavaldsins og dómstólanna.

Þessu er því miður ekki að heilsa í íslensku þjóðfélagi, þjóðfélagi sem státar sig af því að eiga elsta löggjafarþing í Evrópu og kom þegar á þjóðveldisöld á fót fullkomnara dómskerfi en nokkurt annað land. Framkvæmdavald var að vísu ekki til og eini embættismaður ríkisins var lögsögumaðurinn, sem „sagði upp lögin” og var í raun lifandi stjórnarskrá þjóðveldisins.

Frá stofnun lýðveldis hefur átt að endurskoða stjórnarskrána frá 1944, sem að meginstofni er þýðing á DANMARKS RIGES GRUNDLOV af 5. Juni 1915 med ændringer af 10. September 1920.

Við hrunið 2008, sem á sér enga hliðstæðu í sögu lýðveldisins, töldu margir að tími væri kominn til að endurskoða stjórnarskrána, ekki vegna þess að “danska” stjórnarskráin væri orsök hrunsins, heldur til að marka nýja stefnu – móta nýtt Ísland – eftir að í ljós kom glæpsamleg spilling í efnahagslífi og stjórnmálum landsins, spilling sem á sér enga hliðstæðu með nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum.

Sundurlyndi stjórnmálaflokka, sem eru sjálfum sér sundurþykkir, og augljós fyrirlitning stjórnmálamanna – svo ekki sé sagt hatur þeirra hver á öðrum – hefur kynt ófriðarbál sem enn brennur með þjóðinni og hefur tafið endurbætur á stjórnkerfi landsins.

Enn ríkir sundrung í þjóðfélaginu, tortryggni, reiði og vonbrigði. Frumstæð umræða á opinberum vettvangi – ekki síst frumstæð og ómálefnaleg umræða á Alþingi – gerir þinginu ókleift að ráða fram úr aðkallandi verkefnum. Með nýrri stjórnarskrá – nýjum þjóðarsáttmáli – má vænta þess að unnt verði að auka ábyrgð stjórnvalda, tryggja raunverulega þrískiptingu valds og endurreisa traust almennings á Alþingi, ríkisstjórn og dómstólum.

Þetta er eina von alþingismanna sem þeim gefst um langan tíma að efla traust almennings á Alþingi. Óskandi er að alþingismenn þekki sinn vitjunartíma, hætti að rífast og vindi sér í að ganga frá frumvarpi að nýrri stjórnarskrá fyrir nýtt Ísland sem borin yrði undir atkvæði við alþingiskosningar næsta vor.


Bloggfærslur 23. október 2012

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband