1.2.2011 | 16:09
Valdið kemur frá þjóðinni
Eitt sinn var sagt: "Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja." Margir virtust einnig hafa verið búnir að mynda sér skoðun, áður en öll rök komu fram í kærumáli vegna stjórnlagaþingskosninganna. Ábendingar og rök fyrrverandi formanns Landskjörstjórnar, Ástráðs Haraldssonar, og Gunnars Eydals, fyrrum skrifstofustjóra Reykjavíkurborgar, sýna þetta og gera úrskurð Hæstaréttar tortryggilegan. En sjáandi sáu þeir ekki og heyrandi heyrðu þeir ekki né skildu.
Ég - ef mig skyldi kalla - bauð ég mig fram til stjórnlagaþings til þess að koma á virku lýðræði í landinu, ekki endalausum formreglum sem lögfræðingar einir þykjast skilja og þykjast mega túlka eða geta túlkað. Þetta er skrifræði hinna nýju skriftlærðu - svo ég segi ekki farísea, bersyndugra og tollheimtumanna. Lýðræði er hugsun - ekki aðeins form. Lýðræðislega hugsun skortir meðal margra málsmetandi manna, ekki síst þeirra sem hafa haft tögl og hagldir undanfarin 20 ár, enda hefur einræði meirihlutans og foringjaræði einkennt íslensk stjórnmál allt þetta tímabil.
Afstaða Davíðs Oddsonar kemur ekki á óvart. Einræðishneigð og einsýni hans er öllum ljós - nema honum sjálfum og Hannesi Hólmsteini. Hins vegar kom mér á óvart, hvernig Þorsteinn Pálsson skrifaði um þetta viðkvæma mál í Fréttablaðinu á laugardag, þar sem hann segir: "viðbrögðin verri en ógildingin" og "feli í sér að dómsmálaráðherra hafi sniðgengið lagaákvæði um leynilegar kosningar".
Lengi batt ég vonir við, að Þorsteinn Pálsson sem margreyndur blaðamaður, ritstjóri, alþingismaður, ráðherra, sendiherra og formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins gæti - sem dálkahöfundur á efri árum - hafið sig yfir lágkúru íslenskrar stjórnmálaumræðu. En hann er fallinn í sama forarpyttinn.
Ef vil vill var tíminn fyrir stjórnlagaþing nú ekki vel valinn. Verkefni stjórnvalda eru ærin, þótt þjóðinni sé ekki einnig sundrað með þessum hætti. Af þeim sökum kemur til greina að fresta frekari umræðu um endurskoðun stjórnarskrárinnar, ef það gæti orðið til þess að þjóðin - og ekki síst stjórnmálamenn sameinuðust um aðgerðir til þess að bjarga fjölskyldunum í landinu sem eru hornsteinn samfélagsins.
Hins vegar má Sjálfstæðisflokkurinn í öllu sínu veldi ekki til þess hugsa að leggja stjórnarskrármálið í hendur almennings - hvað sem veldur. Klifað er á, að það sé hlutverk Alþingis að setja stjórnarskrá. Alþingi hefur hins vegar í tvo mannsaldra ekki megnað að setja landinu nýja stjórnarskrá - og nú er Alþingi sjálfu sér sundurþykkt og nánast óstarfhæft vegna sundurlyndis.
Alþingi getur því ekki sett lýðveldinu Íslandi nýja stjórnarskrá nú - né heldur meðan sundurlyndisfjandinn ræður þar ríkjum. En þó svo Alþingi væri þess megnugt - sem ekki er - gleymist mörgum, og þá m.a. núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, að Alþingi hlýtur vald sitt frá þjóðinni - og hjá þjóðinni á valdið að vera - líka valdið til þess að setja lýðveldinu Íslandi nýja lýðræðislega stjórnarskrá.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.