27.9.2012 | 22:41
Heimsþorpið, Ísland og íslensk tunga
Á einni öld hefur íslenskt þjóðfélag breyst úr einföldu, einangruðu þjóðfélagi bænda og sjómanna í ógagnsætt og margskipt þjóðfélag í stöðugum tengslum við umheiminn. Fyrir 100 árum var einn framhaldsskóli á landinu með 100 nemendur og fámennur, vanbúinn háskóli að stíga sín fyrstu spor. Nú eru framhaldsskólar 37 með um 30 þúsund nemendur og sjö háskólar og nemendur nær 20 þúsund.
Fyrir einni öld höfðu innan við 30 Íslendingar lokið doktorsprófi. Nú skipta íslenskir doktorar nær fjórum þúsundum. Verkkunnátta, sem breyttist lítið í 1100 ár, er orðin svipuð og annars staðar í Evrópu og grunnrannsóknir stundaðar á fjölmörgum sviðum. Menntun Íslendinga hefur því aukist mikið á einni öld og er sambærileg menntun nágrannaþjóðanna. Það e.t.v. segir þó mest um breytingar á samfélaginu, er sú staðreynd, að fyrir einni öld var barnadauði mestur á Íslandi allra Evrópulanda. Nú er hann minnstur á Íslandi í öllum heiminum.
Því má segja að íslenskt samfélag hafi ferðast þúsund ár á einni öld og breyst meira en flest önnur samfélög í Evrópu. Hins vegar hefur íslensk tunga breyst minna en aðrar tungur. En hvers vegna hefur íslenska breyst minna en önnur tungumál þegar íslenskt samfélag hefur breyst meira en önnur samfélög í Evrópu? Viðhorf samfélagsins ræður miklu um breytingar á tungumáli, þótt fleira komi til, s.s. lega lands og gerð þjóðfélagsins. Þá hefur samhengi í bókmenntum áhrif á tungumál, en styrkur íslenskunnar er m.a. fólgin í því að við getum lesið bókmenntir þjóðarinnar í þúsund ár og það gerir engin önnur þjóð í Evrópu. Sterk vitund um þjóðerni hefur einnig einkennt Íslendinga og þótt ekki sé í tísku að gerast formælandi þjóðernisvitundar, verður því ekki móti mælt, að vitundin um upphaf sitt er ein sterkasta kennd mannsins og á lítið skylt við þjóðernisstefnu öfgamanna.
Nú virðist breyting vera að verða á viðhorfi til tungumálsins og til vitundarinnar um upphaf sitt. Ákveðinn hópur fólks talar gjarna um heimsþorpið og hið alþjóðalega samfélag, þótt átök, yfirgangur og ofbeldi einkenni flest lönd og þjóðir berist á banaspjót. Hugtakið heimsþorp er því nokkurt öfugmæli. Þessi hópur "heimsborgara" leggur litla áherslu á vandað mál, ræður jafnvel illa við flóknar beygingar, föst orðasambönd og orðatiltæki, en slettir erlendum orðum einkum enskum orðum. Þá er minni áhersla lögð á málrækt og málvöndun af hálfu hins opinbera, m.a. í Ríkisútvarpinu, þar sem þrístrikaðar villur koma fyrir á hverjum degi og enginn þáttur um daglegt mál eða íslenskt mál hefur verið á dagskrá í þessu musteri íslenskrar tungu um árabil. Einnig má nefna að gerð er minni krafa um íslenskukunnáttu kennara sem er áhyggjuefni, því að allir kennarar eru íslenskukennarar.
Þegar allt kemur í einn stað, er því sennilegt, að á næstu áratugum breytist íslenska verulega og til verði stéttamállýskur annars vegar mál þeirra sem vilja og geta vandað mál sitt og hins vegar mál þeirra sem hvorki vilja það né geta.
Athugasemdir
Er ekki öllu til kostað að koma fjölmenningarsamfélaginu á koppinn sem fyrst?
Það er undarlegt hversu illa mér gengur að sætta mig við að verða vitni að því að tekið sé viðtal á ensku við innflytjanda sem búið hefur hjá okkur í 8 ár og starfað úti á vinnumarkaðnum.
En við sem leyfum okkur að tala upphátt um þessi efni megum eiga von á að verða tekin í gegn.
Á Íslandi leyfist ekki nema ein skoðun í málefnum innflytjenda og er hvorki þeim til þægðar né okkur til sóma.
Árni Gunnarsson, 28.9.2012 kl. 12:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.