11.7.2013 | 23:10
Fumlaus handtaka - eða ofbeldi
Undarlegt - svo ég segi ekki ógnvekjandi - er að heyra ummæli lögreglumanns um fumlausa handtöku, þegar lögreglumaður réðst á ósjálfsbjarga konu í Reykjavík á dögunum, og vitnar til þess, að lögregla á Norðurlöndum sé heimsþekkt fyrir að vera umburðarlynda lögregla í heiminum. Það kann rétt að vera- en þetta atvik sýndi ekki umburðarlyndi.
Enginn - með óbrjálaða dómgreind - fer í grafgötur um, að við handtöku konunnar var beitt ofbeldi og allt ofbeldi - hvar sem er og hvernig sem er - skal vera ólíðandi í lýðfrjálsu landi. Lögreglan er ekki aðeins til þess að handtaka óeirðafólk og skakka ójafnan leik, heldur til þess að hjálpa þeim sem hjálpar er þurfi og leiðbeina þeim sem þurfa leiðbeininga við.
Konan ósjálfbjarga þurfti á leiðbeiningum, aðstoð og hjálp að halda - ekki ofbeldi og misþyrmingu - og það er skýlaus krafa borgara í lýðfrjálsu landi, að fólk sé öruggt um að fá hjálp frá lögreglu - eins og oftast er sem betur fer. En þegar lögreglumenn verja augljóst ofbeldi, er illt í efni. Borgarar í lýðfrjálsu landi verða að fá að vita, við hverju þeir mega búast af lögreglunni, laganna vörðum - laganna vörðum - laganna vörðum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.