8.2.2014 | 20:34
Nýr Landspítali
Forsenda þess að unnt sé sinna nútímalækningum og líknarþjónustu á Íslandi er traustur Landspítali - spítali allra landsmanna, miðstöð lækninga, líknarþjónustu og rannsókna. Ljóst er að núverandi húsnæði Landspítalans við Hringbraut er úrelt, dýrt í rekstri og fælir frá starfsfólk. Þótt mörg önnur aðkallandi verkefni séu á sviði heilbrigðismála, má það ekki verða til þess að stjórnvöld sitji lengur með hendur í skauti. Nýr Landspítali þolir enga bið. Hönnunarforsendur að nýjum spítala liggja fyrir og finna þarf leið til fjármögnunar þar sem ríki, einstaklingar og samtök almennings koma að málum.
Endurskipulagning og nýtt húsnæði
Mikill árangur hefur orðið af endurskipulagningu á þjónustu Landspítalans undanfarin ár. Í greinargerð sérfræðinga sem fyrir liggur er á það bent að tvær meginleiðir séu til þess að hafa veruleg áhrif á rekstrarkostnað sjúkrahúsa til lengri tíma, annars vegar endurskipulagning þjónustu og hins vegar endurnýjun á húsnæði. Ábati af endurskipulagningu er fullnýttur. Frekari hagræðing verður því að byggjast á endurnýjun húsnæðis.
Fjölgun aldraðra - aukinn kostnaður
Ljóst er að kostnaður við rekstur Landspítalans vex á næstu árum. Tvennt vegur þyngst: aukin tíðni langvinnra sjúkdóma - og öldrun þjóðarinnar. Rannsóknir sýna að um 65% kostnaðar við heilbrigðisþjónustu á rætur að rekja til langvinnra sjúkdóma, s.s. hjartasjúkdóma, stoðkerfissjúkdóma, krabbameins, sykursýki, offitu og lungnasjúkdóma. Meðal aldraðra er þetta hlutfall um 95%, enda þjást langflestir aldraðir af einum eða fleiri langvinnum sjúkdómi.
Samkvæmt spá Hagstofu fjölgar Íslendingum 65 ára og eldri um 50% fram til ársins 2025. Þessi aldurshópur nýtir mest þjónustu Landspítala og tekur þegar til sín 45% af legudögum, þótt hópurinn sé einungis 14 % af heildaríbúafjölda landsins. Ljóst er að sjúkrahúsið ekki annað þessari auknu eftirspurn miðað við núverandi aðstæður þar sem legurými eru fullnýtt. Þetta eru helstu rökin fyrir nauðsyn þess að bæta húsakost Landspítala og sameina alla bráðastarfsemi á einn stað.
Hagkvæmniathugun
Norska ráðgjafarfyrirtækið Hospitalitet AS bar saman fjárhagslegan ávinning af tveimur valkostum, annars vegar að vera áfram í núverandi húsnæði og sinna nauðsynlegum endurbótum á byggingum sem fyrir eru - ellegar hins vegar að reisa nýbyggingu fyrir bráðaþjónustu spítalans við Hringbraut sem í dag er rekin á tveimur meginstarfsstöðum, þ.e. við Hringbraut og í Fossvogi. Með því að nýta sér það hagræði, sem nýtt og sérhæft húsnæði hefur í för með sér, má draga úr kostnaðarhækkun.
Fyrri valkosturinn felur í sér endurbætur og viðhald núverandi húsnæðis auk 15.000 m2 nýbyggingar sem tækniframfarir og aukin starfsemi kallar á og núverandi byggingar duga ekki til. Kostnaður af þessu er metinn á 41 milljarð króna fram til ársins 2050. Hin valkosturinn felur í sér nýbyggingar fyrir bráðastarfsemi spítalans og endurbætur og viðhald á húsnæðinu við Hringbraut. Kostnaður af þessu er metinn á 61 milljarð króna fram til ársins 2050.
Athuganir sýna að nýtt sérhannað húsnæði dregur mjög úr sýkingum sem eru kostnaðarsamar og eykur öryggi sjúklinga. Allir þessir þættir stuðla auk þess að styttri legu sjúklinga, aukinni framleiðni og þar með lægri rekstrarkostnaði.
Hagnaður af nýjum Landspítala
Greining norska ráðgjafafyrirtækisins sýnir að síðari valkosturinn skilar árlegri rekstrarhagræðingu sem nemur 2.6 milljörðum króna miðað við fyrri valkostinn. Gerð var núvirðisgreining til að bera saman áhrif valkostanna tveggja til ársins 2050. Niðurstaðan var sú að síðari leiðin hefur mun hagstæðara núvirði en fyrri kosturinn. Munurinn var frá 6,8 milljörðum upp í 27,6 milljarða eftir vaxtastigi. Rekstrarhagræðing af síðari leiðinni er því nægileg til að standa straum af verkefninu ásamt fjármagnskostnaði að teknu tilliti til þeirrar hækkunar á rekstrarkostnaði húsnæðis sem fylgir breytingunum og rekstrarábati byrjar að skila sér sama ár og nýtt hús er tekið í notkun og annað húsnæði lagt af.
Síðari valkosturinn eykur framleiðni og dregur úr áhrifum af hugsanlegum skorti á heilbrigðisstarfsfólki þar sem hver starfsmaður afkastar meiru í nýju húsnæði, auk þess sem nýtt húsnæði er líklegra til að draga að hæft starfsfólk. Það er því bæði brýnt og hagkvæmt að reisa nýjan Landspítala strax.
Athugasemdir
Hvað stendur mikið af núverandi húsnæði, ónotað?
Hvaða dauðans della rekur fólk áfram í því að telja tíu sinnum stærra HÚSNÆÐI reddi öllu?
Það er ekki einu sinni hægt að reka núverandi kerfi í 50% af því húsnæði sem það býr yfir.
Og þessir stvinnulausu........
Ojá.
Halldór Egill Guðnason, 9.2.2014 kl. 03:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.