Þekking og réttsýni

Gaman er að verða vitni að því í spurningakeppni framhaldsskólanna í "sjónvarpi allra landsmanna" hversu margt skólanemendur vita um einskisverða hluti. Það bókstaflega stendur upp úr þeim bunan.

Forðum daga var sagt, að stúdent væri sá sem vissi ekkert um allt, en fræðimaður sá sem vissi allt um ekkert. Þetta hefur sannast í spurningakeppni framhaldsskólanna og í umræðum undanfarinna mánaða. Almenningur virðist vita allt um ekkert og ráðgjafar þjóðarinnar virðast vita allt um ekkert - en enginn virðist vita muninn á réttu og röngu.

Hins vegar sýnist mér sem gömlum skólameistara, gömlum stúdent og starfandi fræðimanni, að þörf sé á því að fræðimenn, stúdentar og almenningur læri að þekkja hvað er rétt og rangt. Því held ég sjónvarpið og skólar landsmanna - frá leikskólum til háskóla - ættu að hætta spurningarugli um einskisverða hluti og taka upp fræðslu, greiningu og beina kennslu um muninn á réttu og röngu. Þegar öllu er á botninn hvolft er það sú þekking sem máli skiptir. Ef þjóðin hefði vitað mun á réttu og röngu, stæðum við ekki frammi fyrir svikum og blekkingum sem við megum nú horfa upp á og er því miður enn ekki lokið.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Als

Sæll kæri Tryggvi,

það er þetta með muninn á réttu og röngu. Mér hefur þótt margur maðurinn verða æði heilagur í þeirri umræðu, sérstaklega þegar vikið er að pólitískri spillingu en einnig þegar rætt er um græðgina. Í einfeldni minni þá hef ég litið svo á fáir menn séu undanþegnir þeim mannlega eiginleika að vilja maka krókinn. Því þykir mér mest um vert að við smíðum sem sanngjarnastar leikreglur um hegðun okkar en reynum ekki um of að breyta eðlinu, enda eru slíkar tilraunir dæmdar til þess að mistakast - alla vega að mestu.

Lærðu að þekkja sjálfan þig er gott vegarnesti fyrir hvert og eitt okkar. Veit reyndar ekki hvort þjóðir geti þekkt mun á réttu og röngu, tel það fremur liggja í hefðum og siðum, sem við erum misjafnlega sátt við. Þeim getum við breytt með tíð og tíma. Ég held að nú ríði á að sættast um nýjar leikreglur, sem taki mið af þessu eðli okkar og sérkennum þjóðar en jafnframt hefti ekki viljann. Eins og gefur að skilja er þetta vandaverk en farsæld þjóðar er í húfi. Því miður virðist stjórnmálastéttin enn ekki hafa áttað sig á þessu.

Kveðja,

Ólafur Als, 14.3.2010 kl. 14:30

2 identicon

Já, það er rétt, gamli nemandi, að lengi hafa menn velt fyrir sér muninum á réttu og röngu, að ekki sé talað um, hvað sé sannleikur, sbr. orð Pontíusar Pílatusar. Hins vegar eru býsna mörg grundvallaratriði í mannlegum samskiptum - í þjóðfélaginu og í skamskiptum þjóða í millum - sem eru rétt og önnur sem eru röng og þurfa menn ekki að vera neitt sérstaklega heilagir til þess að átta sig á því.

Hins vegar er einfeldni þín furðu mikil, þegar þú segir að "fáir menn séu undanþegnir þeim mannlega eiginleika að vilja maka krókinn" því að fæstir vilja "maka krókinn", þ.e. að komast yfir verðmæti með blekkingum, svikum eða á annan óheiðarlegan hátt. Svo undarlega sem það kann að hljóma í eyrum þínum er flest fólk bæði gott og heiðarlegt og virðir grunngildi mannlegs samfélags, s.s. að stela ekki, ljúga ekki og myrða ekki - og gerir sé fulla grein fyrir glæpsamlegu athæfi. En það þarf að efla þessa vitund frá blautu barnsbeini og styrkja alla í því að gagnrýna það sem er rangt og veita þeim aðhald sem ætla að stela, ljúga og myrða - og hegna þeim sem það gera. Svo einfalt er það, eins og nú er sagt.

Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 14.3.2010 kl. 16:30

3 Smámynd: Árni Gunnarsson

Það er mikill og vaxandi fjöldi fólks sem veit svona nokkurn veginn muninn á heiðarleika og óheiðarleika. En svo eigum við gott og gilt máltæki sem segir að eftir höfðinu dansi limirnir og það þarf ekki að útskýra fyrir þér.

Þessi fjöldi sem ég minntist á er fólkið sem biður um leikreglur í viðskiptum. Leikreglur sem eru eðlilegar, skynsamlegar og siðlegar. Ég tel mig sjá flest merki siðrænnar úrkynjunar hjá valdamuklum hópum í samfélagi okkar. Eðli samkvæmt er úrkynjun af hverjum toga afleiðing ástands sem varað hefur lengi.

Það þarf nokkurt átak til að snúa þróun við. Embættismannakerfið er spillt, stjórnmálamenn eru spilltir og margir hverjir tengdir hagsmunahópum sem verða því aðeins sterkir og valdamiklir að þeir hafi pólitísk ítök.

Og öll vitum við þann einfalda sannleik að spilling á rætur í hagsmunum.

Íslenskt samfélag er í eðli sínu gott samfélag. En fjölmenni þess samfélags er veikburða í baráttunni við fámennisamfélag fjármuna og valda.

Hafi löggjafinn sem hefur aðsetur á Alþingi, ekki siðferðilegan kjark til að setja þessu litla samfélagi vingjarnlegar og réttlátar leikreglur með lögum þá er fólkið bjargarvana.

Árni Gunnarsson, 14.3.2010 kl. 22:33

4 Smámynd: Ólafur Als

Sæll á ný,

ætli okkur greini þá ekki á um mannlegt eðli, því samfara hinu góða og heiðarlega, sem býr í flestum mönnum, tel ég að búi einnig myrkari hlið. Til þess höfum við m.a. lög og reglur, að verja okkur gegn, eins og þú réttilega bendir á. E.t.v. var þetta með að maka krókinn ekki nægilega vel að orði komist, átti aðallega við að maðurinn er eigingjarn og gengur stundum langt í því að verja hagsmuni sína og sinna, án þess endilega að sýna það í formi blekkinga, svika eða óheiðarleika.

Þessu gerðu frelsispostular átjándu og nítjándu aldar sér vel grein fyrir og vildu setja einfaldar en ákveðnar reglur utanum samskipti manna - ekki síst um bankastarfsemi. Í skilningi þeirra bjó sú viska, m.a., að menn eru á stundum reiðubúnir til þess að ganga æði langt í að verja hagsmuni sína og ef þeim eru fengin í hendur of mikil völd, er hætta á misbeitingu. Í reynd má segja, að ef ekkert væri að óttast af hálfu okkar mannlega eðlis, þá væri lítil þörf á þeirri lagaumgjörð sem er ætlað að verja samfélagsumgjörðina og forða okkur frá háttum frumskógarins þar sem hinn sterki gleypir hinn veika.

Þegar mér þykir heilagleikinn umvefja menn og málefni, þá er í mínum huga mikilsvert að átta sig á því að gallinn felst ekki í manninum sjálfum - heldur þeim kringumstæðum sem leysa úr læðingi ýmsa óæskilega hegðun. Ég lít ekki svo á að þeir einstaklingar, sem hafa orðið spillingu að bráð - eða tileinkað sér slíka hegðun - séu í raun frábrugðnir mér og þér. Er ekki einmitt sagt að leiðin til glötunar sé vörðuð góðum ásetningi?

Árni bendir á tengingu hagsmuna og spillingar. Því til viðbótar vil ég segja, að vald spillir. Það er einnig gömul saga og ný. Valddreifing er því eitt mikilvægasta atriðið sem mætti hafa í huga, þegar við hefjumst handa við að smíða hið "nýja Ísland". Valddreifing er ein sterkasta vörn litla mannsins gagnvart sterkum hagsmunum, ofríki meirihlutans og fjármálavalds. Því þrátt fyrir allt snýst þetta um að verja rétt einstaklingsins; litla mannsins, til orðs og æðis.

Þetta er nú einfeldni mín, kæri meistari, en vitanlega væri hægt að hafa um þetta mikið lengra mál.

Ólafur Als, 14.3.2010 kl. 23:55

5 identicon

thanks for your good topic

mbt shoes (IP-tala skráð) 26.3.2010 kl. 07:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband