Heimspeki - skýr hugsun

Í kvöld, mánudagskvöld, hlustaði ég á upptöku á Silfri Egils frá því á sunnudag. M.a. hlustaði ég á Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Bifröst. Framsetning hans og tal var að mínum dómi öfgafullt og mótsagnakennt svo nokkrum undrum sætir af hans hálfu. Er mér illskiljanlegt hvers vegna heimspekingur flytur mál sitt með þessum hætti, en heimspekingar eiga að mínum dómi að vera yfirvegaðir og tala skýrt - af því að þeir hugsa skýrt.

Heimspekingurinn gerði m.a. lítið úr andófi gegn því óréttlæti sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar telja að felist í kröfu um að íslenskur almenningur skuli greiða Bretum og Hollendingum útlagðan kostnað vegna ICESAVE. Kallaði hann þetta andóf þjóðvarnarhyggju eða þjóðvörn sem bæri vott um einangrunarhyggju, vorkunnsemi og undarlegan grátkór. Í næsta orði segir hann svo að einangrunarhyggja Íslendinga væri skiljanleg og vel kynni að vera að Íslendingar hefðu verið hlunnfarnir og illa með þá farið. Má þá ekki mótmæla þeirri meðferð! 

Þá talaði hann um gildishlaðna umræðu, sem hefði verið horfin úr þjóðfélaginu, fjandskaparumræðu, þar sem því væri m.a. haldið fram að viss öfl í þjóðfélaginu væru meðvitað að vinna gegna hagsmunum þjóðarinnar. Með þessu væri verið að saka fólk um mjög alvarlega hluti.

Í næsta orði segir heimspekingurinn svo, að það valdi sér vonbrigðum og áhyggjum þegar öfl lengst til vinstri og lengst til hægri læsi sig saman og berjist fyrir sameiginlegu máli. Þá sé eitthvað undarlegt á ferðinni. Með þessu er heimspekingurinn að saka fólk - lengst til hægri og lengst til vinstri - um alvarlega hluti. Það vekur einnig nokkra furðu að heimspekingurinn skulu ekki þekkja dæmi um það úr sögu þjóðarinnar eða heimssögunni, sem hann vitnaði gjarna til, að andstæð öfl hafa staðið saman þegar ógn eða hætta steðjaði að. 

Til þess að taka þriðja dæmið um mótsögn í málflutningi Jóns Ólafssonar, má nefna að hann líkti þjóðaratkvæðagreiðslunni við kosningar í einræðisríkjum þar sem aðeins væri um einn flokk að velja, þjóðaratkvæðagreiðslan hefði ekki verið lýðræðisleg auk þess sem hún skýrði ekki neitt. Þessi orð heimspekingsins hljóma að vísu undarlega líkt og orð fjármálaráðherra á dögunum um hina sömu þjóðaratkvæðagreiðslu.

En það verð ég að segja þessum tveimur góðu drengjum, að sjaldan hefur verið skýrara í kosningum á Íslandi, að um tvo ólíka kosti var að velja: láta lög halda gildi sínu eða fella þau úr gildi - og að þjóðaratkvæðagreiðslan leysti margan vanda. Það má svo hugsanlega velta því fyrir sér á heimspekilegan, hlutlægan og yfirvegaðan hátt, hvers vegna tveir þriðju hlutar þjóðarinnar sögðu nei. En ef þjóðaratkvæðagreiðsla, sem á sér stoð í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, er orðin ólýðræðisleg, er farið að snúa flestum hlutum á haus og menn ættu að reyna að rétta sig af.

Í lok máls síns sagði Jón Ólafsson, að "heimspeki væri andóf gegn ríkjandi öflum" og þá heimspeki vildi hann stunda. Með þeim rökum hans má segja að þjóðvörn eða þjóðvarnarhyggjan, sem m.a. kom fram í afstöðu almennings í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sé heimspeki - einmitt sú heimspeki sem hann vill stunda. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek undir með þér Tryggvi.  Mér var ekki skemmt að hlusta á hvað sonur Ólafs Jónssonar, sem tilheyrði því sem Indriði G. kallaði "sænsku ra mafíuna", fylgir mjög upprunanum. 

Heimspeki Jóns Ólafssonar og viðlíkra stofnanavæddra rænuleysingja, er ekkert annað en sleikjuháttur við ríkjandi öfl og valdastofnanir þeirra, settur fram af annarlegum hvötum og alls kyns "nýmóðins" hugtökum sem forn-grískir heimspekingar hefðu vægast sagt furðað sig mjög á og Díogenes hefði í leit sinni að heiðarlegum manni vafningalaust beðið Jón Ólafsson um að hypja sig burt, víkja frá sér hið snarasta.  Amk. er víst að ekki leitar Jón Ólafsson sannleikans, ekki viskunnar,  heldur bara þess sem fellur best undir botn hans sjálfs.

Pétur Örn Björnsson (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 02:38

2 Smámynd: Jón Valur Jensson

Mikið hjartanlega er ég þér sammála, Tryggvi Gíslason, einu sinni enn!

Já, mikils hef ég metið þína góðu pistla um Icesave-málið. Bið þig bara að afsaka það við mig að hafa verið á hlaupum og ekki gefið mér tíma sem vert var til að þakka þér.

Fyrst og fremst hafa þó vinstri mennirnir gott af að lesa þig og kannski ekki vert að ég sé að trufla þá í lestrinum.

En þetta áhlaup Jóns Ólafssonar sýndist mér gróflega vel skipulögð tilraun til hugmyndafræðilegrar réttlætingar á þrákelkni og þrásetu Jóhönnu þrátt fyrir mesta afhroð sem stjórnarfrumvarp hefur beðið í allri þingsögunni.

Tókuð þið líka eftir því, hvernig þeir Egill þögðu hvor öðrum fastar um þá staðreynd, að nær 60% aðspurðra í skoðanakönnun MMR, birtri 8. marz, sögðu að okkur bæri ekki að ábyrgjast Icesave-greiðslurnar?

Þjóðin lætur ekki að sér hæða. Það eru aðrir sem fá að bera kinnroðann.

Jón Valur Jensson, 16.3.2010 kl. 03:35

3 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Tek undir þetta. Með kveðju að norðan.

Svavar Alfreð Jónsson, 16.3.2010 kl. 07:35

4 identicon

Populismi er það þegar stjórnmálamenn höfða til tilfinninga fólks til að vinna fylgi og til að drepa niður vitræna umræðu þegar málstaður þeirra er slæmur. Þeim er sama um hvort málflutningur þeirra þjóni almannahagsmunum svo lengi sem þeir ná markmiði sínu um að dreifa umræðunni og afla sjálfum sér fylgis.

Þetta hefur tekist vel í Icesave málinu.

Stjórnmálamenn sem ekki kasta sér í drullupollinn með hinum popúlistunum eru þeir sem þora að standa með sínum skoðunum og segja kjósendum sannleikann. það eru slíkir stjórmálamenn sem íslensk þjóð þarf á að halda í dag.

En það eru engir slíki stjórnmálamenn á Íslandi og þess vegna er hugmyndin um Ísland sem sjálfstæða þjóð dauð.

thrainn.kristinsson@gmail.com (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 08:21

5 Smámynd: Gísli Gíslason

Góður pistill og sammála að það er margt mótsagnarkennt í því sem heimspekingurinn sagði.  Trúlega er engin tilviljun að þessi heimspekingur var þarna en ekki aðrir með aðra sýn á hlutina.  

Ég er þó nokkuð sammála heimspekingnum að umræðan í fjölmiðlum er oft "fjandskaparumræða" enda finnst fjölmiðlar stilla sér upp í ákveðnu liði sem styður "sinn málsstað" frekar en að vera gagnrýninn samfélagsrýnir.  Fréttamiðlar og fréttamenn sem flytja fréttir til að gagnast sinni skoðun eða skoðun eigenda sinna er málgagn frekar en fréttamiðill.  Því miður eru flestir fréttamiðlar hér á landi  málgögn frekar en fréttamiðlar og það er alvarlegt þjóðfélagsmein.

Gísli Gíslason, 16.3.2010 kl. 09:07

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þessi Þráinn Kristinsson tekur risaskref í sjálfgefnum forsendum sínum, hverri á fætur annarri, og stekkur þó lengst með lokaályktun sinni, sem er jafndjörf og hún er léttvæg og veikburða.

Jón Valur Jensson, 16.3.2010 kl. 09:19

7 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Góðir pistill sem ég get tekið undir. Hvað varðar orð heimspekingsins um fjandskaparumræðu má öllum vera ljóst í dag að ríkisstjórnin lét algjörlega undir höfuð leggjast að kynna málstað eða verja hagsmuni þjóðarinnar og ríkistjórn Íslands tilbúin að samþykkja allar kröfur Hollendinga og Breta og láta þjóðina undirgangast hóprefsingu í þeim pólitíska tilgangi að minna kjósendur á að "kjósa rétt".  

Ég hef gert nokkrar tilraunir til að fá Egil Helgason til að fylgja eftir "skúbbi" sínu um umfjöllun leiðarahöfundar Berlingske Tidende á Icesave með því að fjalla um svargrein mína sem Berlingske birti í síðustu viku. Það hefur ekki tekist enn.

Sveinn Tryggvason, 16.3.2010 kl. 09:26

8 Smámynd: Gísli Gíslason

Ég er alveg sammála að ríkisstjórnin lét algjörlega undir höfuð leggjast að kynna málstað og verja hagsmuni þjóðarinnar.   Það breytir ekki því að fjölmiðlar okkar eru málgögn frekar en sjálfstæðir fjölmiðlar.

Það Egill Helgason fjallar ekki um grein Sveins styður það að fjölmiðla menn eru ekki hið gagnrýna auga í leit að sannleika og kryfja málin.  Það hentar betur Agli að fá menn eins og heimspekinginn sem eru nær honum sjálfum í skoðunum, frekar en að fjalla um svar Sveins í Berlinske.   Í svona einhliða fréttamennsku er fjandskapar umræðan að menn leita að viðmælendum sem eru sammála skoðunum viðkomandi  fjölmiðils/fjölmiðlamanns eða flytja fréttir sem eru þóknanlegar skoðun viðkomandi fjölmiðils/fjölmiðlamanns.

Gísli Gíslason, 16.3.2010 kl. 10:04

9 identicon

Fjandskaparumræða er í þjóðfélaginu og hefur lengi verið. Gildishlaðin umræða var heldur alls ekki horfin úr þjóðfélaginu, eins og Jón Ólafsson sagði í Silfri Egils. Er þar komið að íslenski umræðuhefð og fjölmiðlum á Íslandi, sem hefur verið sérstakt áhugaefni mitt hálfa öld.

Að mínum dómi eigum við ónýta fjölmiðla þar sem sýndarmennska, þekkingarleysi, hlutdrægni og áróður ríða röftum, auk þess sem í blaðamannastétt er hópur manna sem leggur metnað sínn í að selja fréttir og skúbba og miklast svo af óhæfuverkum sínum.

Eini fjölmiðillinn, sem stenst mál að mínum dómi, er Fréttastofa RÚV og þó einkum Spegillinn. En Fréttastofan er að síga í áróðursdjúpið svo að bráðum stendur ekkert upp úr. Silfur Egils er á stundum þokkalegur þáttur, en stjórnandinn er mistækur, þótt hann búi yfir þekkingu á mörgum sviðum og vilji vafalaust vel.

Tryggvi Gíslason (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 10:09

10 Smámynd: Gísli Gíslason

Kvitta undir hvert orð sem Tryggvi segir. 

Gísli Gíslason, 16.3.2010 kl. 10:21

11 identicon

Dapurt hvað menn eru hér sammála um að gera lítið úr góðri túlkun Jóns Ólafssonar á Icesave málinu í Silfri Egils. Jafnvel presturinn leggur blessun sína á populistiskar skoðanir. Atkvæðagreiðslan var merkingarlaus með öllu. Eiginlega frekja að bjóða fólki upp á svona theater. 5. Mars var yfirskriftin hjá NZZ (Neue Zürcher Zeitung), eitt besta blað álfunnar þessi; Das Icesave-Referendum wird zur Farce. Island stimmt über einen überholten Gesetzesvorschlag ab. Þetta sjá útlendingar, en Íslendingar hlusta ekki á raddir þeirra. Þeir sem reyna að koma vitinu fyrir fáráðlingana á skerinum, þeim er sagt að fara í endurmenntun. Arrogance pure. Milljón króna mennirnir í InDefence og hortugur milljarðaerfingi Kögunnar + forsetanefnan, drógu stóran hluta þjóðarinna á asnaeyrunum í Icesave málini. Kannski engin furða, þegar kannanir sýna að 1/3 þjóðarinnar ætli að halda áfram að kjósa hrunflokkana, sem rústuðu landinu. Vonandi gleymir Svavar Alfreð ekki að biðja skaparann að blessa skerið og þá sem búa þar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 16.3.2010 kl. 10:50

12 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Haukur Kristinsson: Þú færi eingöngu fram 'ad hominem' rök sem þú kryddar með uppnefnum. Þessu er erfitt að svara og getur ekki verið grundvöllur málefnalegrar umræðu.

Ég gerði tilraun til að svara einum erlendum fjölmiðli, Berlingske Tidende, með rökum sem ég tel að þú hefðir ágætt af því að lesa.

Sveinn Tryggvason, 16.3.2010 kl. 11:25

13 Smámynd: Jón Valur Jensson

Haukur Kristinsson, þú átt eftir að sjá enn sterkari málstað Íslands en þú hefur séð til þessa. Loftur Þorsteinsson, varaformaður okkar í Þjóðarheiðri – samtökum gegn Icesave, er með tímamótamarkandi grein, sem bíður birtingar í Morgunblaðinu. Landsbankinn átti fullt tilkall til þess, að bætur til innistæðueigenda hans yrðu goldnar úr brezka tryggingasjóðnum, FSCS. – Popúlarísk skrif þýzks blaðs breyta engu um það, og er ég þó ekkert að gera lítið úr gæðum þess blaðs yfirleitt, en blaðamenn þess virðist skorta hér skilning á rökum máls.

Jón Valur Jensson, 16.3.2010 kl. 12:09

14 Smámynd: Elle_

Já, og ´heimspekingurinn´sakaði fólk líka ranglega um vott af einangrunarhyggju fyrir að vilja ekki sættast á kúgun og ofbeldi kol-ólöglegs ICESAVE, sem bresk, hollensk og íslensk stjórnvöld ætla að þvinga yfir börn, foreldra þeirra og gamalmenni þessa lands, með öllum bolabrögðum og óskiljanlega einbeittum brotavilja.  Og gegn öllum lögum og dómi.  Í hvaða holu býr Jón Ólafsson?

Elle_, 16.3.2010 kl. 12:50

15 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það vita allir sem hugsa 1% eða meira að nefnd "þjóðaratkvæðagreiðsla" var skrípaleikur frá a-ö og íslandi til skammar og niðurlægingar.

Hugmyndin um að senda mál slíks eðlis í þjóðaartkvæðagreislu er ennfremur bananísk svo af ber og engu siðmenntuðu landi dettur slíkur fáránleki í hug.

Enda er núna hlegið glóbalt yfir fábjánahætti  og siðleysi sumra ísl. og ekkert fréttist af "alheimsbyltingunni"

Næst verður eftirfarandi sent í þjóðaratkvæðagreiðslu og prelátar ýmsir og strumpar allrahanda munu samansankast í því tilefni:

http://www.visir.is/article/20100316/FRETTIR01/982728983

Ómar Bjarki Kristjánsson, 16.3.2010 kl. 13:51

16 Smámynd: Svavar Alfreð Jónsson

Ómar og Haukur: Lesið endilega hvað þessum fimm þýsku stórblöðum finnst um þjóðaratkvæðagreiðsluna:

http://www.spiegel.de/international/europe/0,1518,682346,00.html

Svavar Alfreð Jónsson, 16.3.2010 kl. 14:17

17 Smámynd: Elle_

Forsetinn bjargaði okkur frá ofbeldi og það er ekkert hlægilegt við það.   Leyfum þeim 2 að ofan að hlæja, enginn viti borinn maður hlær með þeim.  

Elle_, 16.3.2010 kl. 15:15

18 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Áhugaverður hlekkur, Alfreð. Þar er m.a. vitnað í skrif Die Tageszeitung:

Demanding the lost money from every single Icelander goes against the logic of market capitalism.

Þetta eru orð að sönnu. Nú eru auðvitað sumir sem vilja frekar verja "pilsfaldskapítalismann" eða innleiða hreinan sósíalisma.

Sveinn Tryggvason, 16.3.2010 kl. 16:53

19 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ómar Bjarki er yfirgengilega hneykslanlegur í innleggi sínu hér – það stóð til að ég svaraði honum, en var kallaður í annað. Læt nægja (á hlaupum) fordæmingu mína á slíkum málflutningi gegn valdi og fullveldi þjóðarinnar.

Jón Valur Jensson, 16.3.2010 kl. 18:16

20 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tek heils hugar undir með pistilhöfundi

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.3.2010 kl. 12:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband