Völd Sjálfstæðisflokksins

Hvað veldur að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki aðeins verið öflugasti stjórnarmálaflokkur á Íslandi frá því Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust 1929 og stefnuskrá hins nýja flokks birtist í Morgunblaðinu og Vísi undir fyrirsögninni „Ísland fyrir Íslendinga”, heldur hefur enginn stjórnmálaflokkur á Vesturlöndum haft sama kjörfylgi og völd og Sjálfstæðisflokkurinn í samanlagðri Kristni.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins í alþingiskosningum hefur lengst af verið um 40%, ef undan eru skildar kosningarnar 1987, þegar Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar fékk 10.9% atkvæða, og kosningarnar 2009, þegar flokkurinn fékk 23.7% fylgi í kjölfar Hrunsins sem margir rekja til einkavæðingarstefnu flokksins undir stjórn Davíðs Oddsonar á einkavæðingartímabilinu á árunum 1995 til 2004.

Þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn setið í ríkisstjórn 50 ár á 67 árum lýðveldistímans eða 8 af hverjum tíu árum – eða með öðrum orðum 80% lýðveldistímans. Enginn flokkur á Vesturlöndum hefur því átt viðlíka fylgi og völdum að fagna og enginn annar flokkur hefur setið lengur í ríkisstjórn í lýðræðislandi.

Hvað veldur

Vafalítið eru fjölmargar skýringar á þessu fylgi og völdum áhrifum Sjálfstæðisflokksins og fleiri en hér er unnt að rekja. En fyrst ber að nefna nafn flokksins: Sjálfstæðisflokkur. Íslendingar hafa viljað – og vilja vera sjálfstæðir menn, sjálfstæðismenn. Þetta viðhorf virðist okkur í blóð borið sem fátækri og hrakinni smáþjóð á hjara veraldar en fram á síðustu öld voru Íslendingar fátækasta þjóð í Evrópu, en efaðist aldrei um eigið ágæti vegna elstu tungu Evrópu og einstakra bókmennta allt frá miðöldum til Bókamessunnar í Frankfurt í október. Nafnið eitt vegur því þungt.

Í öðru lagi hefur skipulag Sjálfstæðisflokksins verið betra en hjá öðrum íslenskum stjórnmálaflokkum allt frá því á fjórða áratugnum þegar sjálfstæðirmenn kynntust skipulagi stjórnmálaflokka í Þýskalandi,, eins og landsfundurinn 2011 bar vitni um. Flokkurinn hefur einn allra flokka stöðugt haldið uppi stjórnmálaskólum víðs vegar um land og komið sér fyrir í flestum launþegasamtökum, frjálsum samtökum almennings og landssamtökum á sviði íþrótta- og ræktunarmála. Skipulag og flokksagi hafa því skipti miklu.

Í þriðja lagi hafa miklir hæfileikamenn lengst af veitt flokknum forystu. Má nefna Jón Þorláksson, Ólaf Thors og Davíð Oddsson – allir svipmiklir foringjar, orðvísir ræðumenn sem kunnu að tala til fólksins, fá fólk á sitt band og móta skýra stefnu með einföldum slagorðum.

Í fjórða lagi hefur vagga flokksins, höfuðstöðvar og meginfylgi verið í Reykjavík, höfuðborg lýðveldisins, þar sem völd og auður hafa grafið um sig alla tíð, lengst af í höndum nokkurra ríkra og voldugra ætta embættis- og athafnamanna. Hefur margur ungur maðurinn, karl og kona, séð sér hag í að ganga til fylgis við flokkinn til þess að hefjast til frægðar og frama í embættis- og dómskerfi landsins svo og í viðskiptalífinu – og verkin sýna merkin.

Í fimmta lagi hefur flokkurinn breyst í takt við tímann – þróast – frá því að vera íhaldssamur flokkur embættismanna, heildsala og stórbænda til þess að sinna félagslegum kröfum um jafnrétti. Hefur flokkurinn færst inn á miðjuna og öðrum þræði orðið sósíaldemókratískur flokkur. En flokkurinn hefur hins vegar aldrei gleymt því „að gæði landsins væru til afnota fyrir landsmenn eina” og „vinna að þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum”, eins og segir í stefnuskrá flokksins, „flokks allra stétta”, sem er eitt snjallasta slagorð flokksins í átta áratuga sögu hans.

Framtíðin

Úrslit síðustu alþingiskosninganna kunna að boða breytta tíma fyrir Sjálfstæðisflokkinn, voldugasta stjórnmálaflokks á Vesturlöndum í 70 ár. Til þess benda atkvæðatölur 2009, en auk þess kann fleira að koma til. Ungt fólk víða um lönd hefur mótmælt misskiptingu auðs og valda lýst andúð á völdum auðvaldsins og víðtækum áhrifum peningamanna og krefst jafnréttis, tryggrar atvinnu og félagslegs öryggis. Afstaða Sjálfstæðisflokksins til þessara mála ræður því miklu um áhrif og völd flokksins í framtíðinni.

Þá fer umræða um þjóðmál og stjórnmál fram á ólíkan hátt en áður og á öðrum vettvangi. Bæði þau dagblöð, sem nú koma út á Íslandi – Morgunblaðið og Fréttablaðið – eru í höndum aðila sem, styðja stefnu Sjálfstæðisflokksins, þótt nokkuð beri á milli og tónninn sé ólíkur. Ungt fólk les nú síður prentmiðla og heldur netmiðla af ýmsu tagi upplýsingar berast fólki á Netinu, óháð prentuðum flokksfjölmiðlum, enda er Netið orðið stærsta fræðslu- og upplýsingastofnun heims – stærsti skóli í heimi. Stjórnmálaumræða framtíðarinnar mun því fara fram þar – ekki innan um minningargreinar Morgunblaðsins. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Tryggvi. Takk fyrir góða raunsæis-samantekt á sögu Sjálfstæðisflokksins. Þú hefur visku, (sem er þekking og reynsla) og raunsæi, sem ég hef veitt athygli í þínum skrifum á síðustu misserum, og lært margt af.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 22.11.2011 kl. 20:13

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Fimmta atriðið, sem þú telur upp, gæti falið í sér svar við vandanum sem þú bendir á í næstsíðustu efnisgrein, nefnilega breytta tíma fyrir voldugasta stjórnmálaflokkinn.

Sá flokkur sem hefur sveiflast frá því að vera stjórnmálaarmur útgerðar og kaupmanna yfir í hálf-sósíaldemókratískan miðjuflokk, er ekki á vonarvöl, eða hvað?

Flosi Kristjánsson, 23.11.2011 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband