"Óttaðist að svartir væru að taka yfir heiminn."

Orðasambandið að taka yfir er mikið notað. Í mbl.is síðst liðinn sunnudag gat að lesa eftirfarandi: „Við vorum að teikna letur fyrir verkefni sem við vorum að gera og á endanum vorum við komnir með svo mörg letur að við ákváðum að stofna leturútgáfu og auka úrvalið. Það hefur síðan tekið yfir hægt og rólega, þrátt fyrir að hafa bara átt að vera hliðarverkefni í byrjun.“ Á visir.is í síðustu viku stóð þetta: „Dylann Roof, sem sakaður er um að hafa skotið níu manns til bana í Bandaríkjunum, óttaðist að svartir væru að taka yfir heiminn.” Fyrir nokkru var þetta ritað stórum stöfum á nutminn.is: „Rúmlega 200 manns segjast ætla að hringja inn á Útvarp Sögu á föstudaginn og taka þannig yfir símatíma stöðvarinnar.”

Orðasambandið taka yfir er ekki gamalt í íslensku, finnst t.a.m. ekki í Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands, og er notað í mismunandi merkingum. Orðasambandið er komið úr ensku: take over : taka við stjórn, taka við (nýju starfi), leggja undir sig (markað), tileikna sér (venjur), fara með á annan stað (fólk eða fénað). Orðasambandið hefur rutt út gömlum og góðum íslenskum orðasamböndum sem eiga betur við og segja skýrar við hvað átt er, s.s. taka við, taka að sér, taka í sínar hendur, ná yfirráðum.

Þegar ofvöxtur hleypur í notkun orða og orðasambanda verður merking þeirra oft óskýr og jafnvel merkingarlítil. Leturteiknarinn hefði t.a.m. getað sagt að leturútgáfan væri nú orðið meginverkefni þeirra enda þótt það hefði í upphafi átt að vera hliðarverkefni þeirra eða aukageta. Ógæfumaðurinn Dylann Roof óttaðist að svartir væru að ná yfirráðum í heiminum og fólkið sem ætlaði að hringja í Útvarp Sögu vildi væntanlega halda símatíma stöðvarinnar fyrir sig þannig að aðrir kæmust ekki að.

Enn og aftur skal minnt á að rangt er að segja: að fara *eitthvert. Rétt er að segja að fara eitthvað. Óákveðna fornafnið eitthvert er hliðstætt, eins og kallað er, þ.e.a.s. stendur með öðru fallorði eins og t.d.: Eitthvert barnanna færði mér þetta. Upprunalegra og réttara er því að segja: fara eitthvað langt út í heim eða: hún fór eitthvað, ég veit ekki hvert. Eflaust verður erfitt að vinna bug á ofnotkun orðtaksins taka yfir svo og að fá alla til þess að segja: Ég ætla að fara eitthvað langt út í heim. Að lokum legg ég til að allir hætti að nota dönsku sögnina kíkja og segi t.a.m.: líta í blöðin, horfa til himins, koma í heimsókn, skoða mynd.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband