30.12.2010 | 17:48
Sá sem hugsar skýrt, talar skýrt
Viðtal FRÉTTATÍMANS í dag við Þráin Bertelsson, alþingismann og rithöfund, ættu allir að lesa, a.m.k þeir sem hugsa um og hafa áhuga á stjórnmálum og þjóðmálum. Þráinn Bertelsson er hnyttnari í tilsvörum og samlíkingum en flestir aðrir, og svo segir hann það sem hann meinar og meinar það sem hann segir. Það er mikill kostur.
Austurríski heimspekingurinn Ludwig Wittgenstein segir á einum stað, að þeir sem hugsi skýrt, tali skýrt. Þetta gerir Þráinn Bertelsson í viðtalinu í dag. Mættu fleiri, bæði alþingismenn, bloggarar og aðrir góðir menn, karlar og konur, taka upp: reyna að hugsa skýrt og tala skýrt. Þá liði bullöld Íslendinga undir lok og við tæki ný gullöld Íslendinga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.12.2010 | 01:12
Íslands ógæfu verður allt að vopni
Frá Hvíta-Rússlandi berast ógnvekjandi fréttir. Í evrópsku "lýðræðislandi" með þúsund ára menningu og "lýðræðislega" kjörna stjórn er saklausu fólki misþyrmt. Í löndum lengra burtu leika stjórnvöld gamlan stríðsleik og skirrast ekki við að drepa fólk, varnarlausar konur, börn og gamalmenni.
Frá Danmörku berast fréttir um, að einn af fremstu stjórnmálamönnum Norðurlanda, Bertil Haarder, sem ég kynntist fyrir aldarfjórðungi sem gáfuðum heiðursmanni, hafi misst stjórn á sér í viðtali við fréttamenn í viðræðum um þjóðfélagslegt misrétti.
Þetta ástand vekur mér umhugsun og veldur mér áhyggjum. Þó hef ég meiri áhyggjur af því sem er mér nær - og ég þekki betur - ástandinu á Íslandi. Hér ríkir velsæld, þótt misrétti sé áberandi og sumir hafi jafnvel ekki í sig og á. En ofbeldi og yfirgangur varðar hér við lög og brotamenn eru leiddir fyrir dóm.
Fyrir 100 árum sagði orðhvatur stjórnmálamaður, að Íslands ógæfu yrði allt að vopni. Þessi orð neyðist ég til að endurtaka: Íslands ógæfu verður allt að vopni. Eftir hrun og glæpi fjárglæframanna, sem bíða dóms, er hver höndin uppi á móti annarri. Jafnvel innan stjórnarflokkananna er barist á banaspjótum með stóryrðum og brigslmælgi og stjórnarandstaðan leggur lítið gott til.
Þjóðin lifir svo áfram í vellystingum og hlustar ekki á ráðleggingar um hófsemi og aðhald, enda allir löngu hættir að trúa stjórnmálamönnum. Seðlabankinn er ríki í ríkinu með hrokafulla afstöðu sína og að baki þrumir svartagallsraus og dómsdagsspá afdankaðra stjórnmálamanna.
Hvað getur orðið til bjargar yngstu þjóð Evrópu með elsta mál heimsins?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2010 | 12:45
Íslensk umræðuhefð
Halldór Laxness segir, að því hafi verið haldið fram að Íslendingar beygi sig lítt fyrir skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur og enn síður fyrir rökum trúar, en leysi vanda sinn með því að stunda orðhengilshátt og deila um tittlingaskít sem ekki kemur málinu við en verði skelfingu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna málsins.
Þessi orð voru skrifuð fyrir 30 árum, en eiga ekki síður við nú, því að umræðuhefð Íslendinga hefur lítið breyst. Því má ef til vill halda fram, að ýmiss vandi í íslenskum stjórnmálum, þjóðmálum, almennum samskiptum, fræðslu og upplýsingum eigi rætur að rekja til umræðuhefðar okkar Íslendinga.
Samræður í fjölmiðlum minna meira á kappræður en umræður. Hver talar upp í annan, gripið er fram í fyrir ræðumanni og er stjórnandi oft verstur allra. Áhersla er lögð á að gera lítið úr viðmælanda og litið á hann sem hættulegan andstæðing.
Yfirheyrslur íslenskra fréttamanna skjóta skökku við orðræður fréttamanna á Norðurlöndum og í Bretlandi. Þar sýna spyrlar viðmælendum virðingu, eru vel undir búnir og ná fram upplýsingum án persónulegra árása. Margir íslenskir fréttamenn virðast hins vegar hafa að markmiði að sanna að viðmælandinn hafi rangt fyrir sér, dragi eitthvað undan eða hafi brotið stórlega af sér.
Þetta kalla sumir forstöðumenn fjölmiðla að "sýna harðfylgni", "sauma að mönnum" og "veita viðmælanda hressilega viðtökur". Í föstum umræðuþáttum er sífellt sama fólkið kallað til. Konur eru í miklum minnihluta og fólk utan af landi sést aldrei í slíkum þáttum.
Það er því mikið verk að vinna fyrir skóla og samtök launþega og atvinnurekenda og ef til vill ætti Endurmenntum Háskóla Íslands að bjóða upp á kennslu í rökræðum, ræðumennsku og hlutlægum málflutningi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.12.2010 | 20:12
Nöldur og þref Helga Seljans
Enn sinu sinni verð ég vitni að því að Helgi Selja fréttamaður RÚV er ófær um að rökræða við gesti sína. Í kvöld ræddi hann við Lilju Mósesdóttur í Kastljósi með geðillskulegum frammítökum, fór með staðlausa stafi, sneri út úr og gerði viðmælanda upp skoðanir.
Með þessu bregst RÚV skyldu sinni að veita víðtæka, áreiðanlega og hlutlæga fréttaþjónustu, vera vettvangur mismunandi skoðana á málum og gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn og túlkun, eins og segir í lögum um Ríkisútvarpið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.12.2010 | 10:56
Vellíðan og lífsgæði
Margt gott er gert í þessu fámenna þjóðfélagi hér á hjara veraldar. Því miður er hins vegar margt sem betur má fara, þótt það séu smámunir hjá öllum skelfingunum úti í hinum stóra heimi.
Meginverkefni næstu ára er að auka jafnrétti hér á landi - og annars staðar - m.a. að jafna lífskjör fólks og bæta á þann hátt lífsgæði allra, því það er illt að búa í samfélagi þar sem mikill munur er á lífskjörum og mörgum líður ekki vel fyrr öllum líður vel en engum illa.
Matargjafir til þeirra, sem ekki hafa í sig og á, er óþolandi í velsældarsamféagi. Þetta er ölmusa og það er illt að vera ölmusumaður. Bætt kjör þeirra sem minnst mega sín er brýnasta verkefni okkar og stjórnvalda að leysa. Burt með fátækt og ölmusur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.12.2010 | 10:39
Mikilsvert stjórnlagaþing
Komið er í ljós, hverjir sitja stjórnlagaþing 2011. Að mínum dómi hefur valið tekist mjög vel. Óska ég þingfulltrúum og þjóðinni allri til hamingju með þetta val.
Þótt búast hefði mátt við betri kjörsókn, er meira um vert, að 83.500 kjósendur nýttu sér atkvæðisrétt sinn í þessum mikilsverðu kosningum. Betra er, að hinn skapandi minnihluti velur 25 fulltrúa á stjórnlagaþing en sundurleitt Alþingi hefði kosið 12 vildarvini sína til þess að fjalla um drög að nýjum grundvallarlögum fyrir lýðveldið Ísland.
Fulltrúarnir 25 búa yfir mikilli þekkingu og mikilli reynslu, þeir hafa brennandi áhuga á þessu mikilsverða máli, hafa fjölbreytileg tengsl út í samfélagið og eru ekki fulltrúar stjórnmálaflokka. Þetta er mikils virði og mun gagnast vel.
Þjóðin mun fylgjast með störfum stjórnlagaþings og meðferð Alþingis á tillögum þingsins. Umræðan, sem staðið hefur undanfarin ár um lýðræði og jafnrétti, mun halda áfram og lýðræðis- og réttlætisvitund þjóðarinnar á eftir að eflast af þeim sökum.
Mikilsvert er að skólar landsins taki fræðslu um lýðræði, jafnrétti - og mannvirðingu skipulega í námsskrár sínar, því að lýðræði er hugsun.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.11.2010 | 12:39
Ný stjórnarskrá - ný hugsun - lýðræðisleg hugsun
Eitt meginmarkmið með endurskoðun gildandi stjórnarskrár er að gera lýðum ljóst, að uppruni valdsins er hjá þjóðinni, almenningi, kjósendum ekki forseta og því síður hjá ráðherrum og ríkisstjórn. Í skólum landsins ber að kenna að lýðræði er hugsun - ekki aðeins form. Lýðræðisleg hugsun byggist á virðingu fyrir öllum, jafnrétti og frelsi fyrir til orða og athafna. Lýðræðisleg hugsun kristallast í orðinu mannvirðing.
Annað markmið með endurskoðun stjórnarskrár er að tryggja skýra og algera skiptingu löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdavaldsvalds og kveða á um eðli og takmörk fjórða valdsins - fjölmiðlanna, og fimmta valdsins, fjármagnsins eða auðvaldsins.
Fækka á þingmönnum og bjóða fram í tvímenningskjördæmum með jöfnu vægi atkvæði. Með því er ábyrgð alþingismanna aukin, þekking þeirra á hagsmunum fólks verður meiri, tengsl við kjósendur nánari og meiri athygli beinist að hverjum og einum þingmanni. Þekking, persónuleg kynni og ábyrgð eru krafa í upplýstu fulltrúalýðræði.
Komið skal á þriðja stjórnsýslustiginu, fjórðungunum, til þess að efla sveitarstjórnir og veita ríkisvaldinu aðhald og tryggja búsetu í landinu öllu. Fámenni og dreifðar byggðir - sveitirnar - hafa miklu hlutverki að gegna og eru hluti af menningarsögu þjóðarinnar.
Ný stjórnskráin á einungis að geyma grundvallarlög meginreglur samfélagsins - og þessum grundvallarlögum á Alþingi ekki að geta breytt heldur sérstakt stjórnlagaþing.
Í nýrri stjórnarskrá þarf að tryggja réttindi minnihluta á Alþingi svo og minnihluta kjósenda. Á Íslandi ríkir meirahlutaræði þar sem meirihlutinn hefur komist upp með að virða skoðanir minnihlutans að vettugi.
Skýr ákvæði þarf í nýja stjórnarskrá um þjóðaratkvæði þannig að ljóst sé hvenær kjörnir fulltrúar eiga einir að taka ákvörðun og hvenær almenningur. Tryggja að fleiri en forseti geti lagt mál í hendur þjóðinni, bæði minnihluti þingmanna og ákveðinn hluti kjósenda. Slík ákvæði um þjóðaratkvæði yrðu til þess að veita meirihlutanum aðhald.
Í stórmálum á þjóðin að geta staðfest ákvörðun meirihluta Alþingis í þjóðaratkvæði, svo sem þegar um er að ræða nýtingu náttúruauðlinda og samninga við erlend ríki. Þá ber að afnema það ákvæði gildandi stjórnarskrár að forseti eða réttara sagt ríkisstjórn geti leyst Alþingi upp - eða með öðrum orðum: Alþingi á að sitja út hvert kjörtímabil. Með því læra þingmenn að starfa saman, leysa vandann sameiginlega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2010 | 10:54
Ný stjórnarskrá
Brýna nauðsyn ber til þess að móta nýja stjórnarskrá nú. Til þess leggja margar ástæður. Í fyrsta lagi er núverandi stjórnarskrá úrelt og gamaldags og tákn um liðinn tíma. Uppbygging og skipulag hennar, orðalag og efnistök svara ekki kalli tímans. Stjórnskrá á að vera stuttorð, gagnorð og auðskilin og hún á að tryggja á borði enn ekki aðeins í orði þrískiptingu valds, jafnrétti á öllum sviðum, frelsi til orða og athafna, en um leið ábyrgð einstaklinga, félaga og stofnana, lýðræðisleg réttindi og félagslegt öryggi.
Í öðru lagi er það krafa þjóðarinnar að setja ný grundvallarlög. Hrunið varð þess valdandi að viðhorf til stjórnmálamanna hefur breyst. Nú er krafan að stjórnmálamenn sýni heiðarleika og gangist við ábyrgð og allar stjórnarathafnir séu gagnsæjar. Ný stjórnarskrá á að stuðla að trausti milli kjósenda og stjórnmálamanna í upplýstu fulltrúalýðræði.
Í þriðja lagi er sundrung í þjóðfélaginu, vartraust á Alþingi, reiði og vonleysi. Gildi nýrrar stjórnarskrár felst í því að sameina þjóðina, lægja öldur, vekja von og efla traust á Alþingi, efla traust á stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Í upplýstu fulltrúalýðræði komumst við ekki af án stjórnmálaflokka, en við verðum að geta treyst stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Ný stjórnarskrá á að veða samfélagssáttmáli.
Stjórnskrá á aðeins að geyma grundvallarlög meginreglur samfélagsins. Þessum grundvallarlögum á Alþingi ekki að geta breytt - heldur stjórnlagaþing sem kjörið er af almenningi með landið allt sem eitt kjördæmi. Fyrsti kafli stjórnarskrárinnar á að fjalla um mannréttindi og heiðarleika, sem er krafa þjóðfundar. Fyrsta setning stjórnarskrárinnar á að vera: Virðing fyrir sérhverjum einstaklingi er ófrávíkjanleg og algild.
Fækka á þingmönnum í 36 og bjóða fram í 18 tvímenningskjördæmum með jöfnu vægi atkvæði. Með þessu verður ábyrgð þingmanna meiri og þekking þeirra á hagsmunum fólksins meiri og tengsl þingmanna við kjósendur meiri - og meiri athygli beinist að hverjum og einum þingmanni. Þekking og persónuleg kynni eru nauðsynleg í upplýstu fulltrúalýðræði.
Stjórnarskrá skal reist traustri siðvitund og stuðla að virðingu fyrir sögu Íslands og hefðum íslenskrar tungu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
19.11.2010 | 22:29
Upphafin umræða
Þorsteinn Pálsson lét svo um mælt á dögunum, að umræðan um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá hefði að sumu leyti verið upphafin og það skilaði ekki árangri. Sjálfur vildi hann horfa á þetta frá praktískari sjónarmiðum, því að ekki þurfi að stofna nýtt ríki, gera byltingu, þótt okkur hafi mistekist. Stjórnarskráin væri ekki orsök hrunsins og hefði ekki leitt til stjórnskipulegra árekstra.
Þorsteinn Pálsson er lögfræðingur og gamalreyndur stjórnmálamaður með kalt höfuð og kalt hjarta og gerir sér ekki grein fyrir því, hversu mikilsvert það er, að almenningur sýni endurskoðun stjórnarskrárinnar lifandi áhuga, auk þess sem óbreyttur almúginn vill bæta samfélagið og endurreisa lýðveldið eftir mesta áfall í 65 ára sögu þess, eins og glögglega hefur komið fram á tveimur þjóðfundum.
Andstætt því sem Þorsteinn Pálsson segir, tel ég mikilsvert, að umræðan um stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá sé upphafin sett til virðingar eins og merkingin að baki orðinu upphafinn segir til um. Umræðan verður að koma frá heitu hjarta því að "maður sér ekki vel nema með hjartanu - það mikilvægasta er ósýnilegt augunum", eins og segir í bókinni Litli prinsinn eftir franska skáldið Antoine de Saint-Exupéry. Heitt hjarta er líklegra til að bæta böl en kaldur hugur, svo ég segi ekki kaldhyggja stjórnmálamanna og gamalla lögfræðinga.
Þorsteinn Pálsson segir, að ekki þurfi að gera byltingu og stofna nýtt ríki, þótt okkur hafi mistekist. Mergurinn málsins er hins vegar sá, að bylting var gerð í samfélaginu fyrir tveimur áratugum með því að gefa glæframönnum nýfrjálshyggju lausan tauminn. Okkur mistókst ekki, heldur siðblindum athafnamönnum og ófyrirleitnum útrásarvíkingum. Kjarklitlir og jafnvel getulitlir stjórnmálamenn létu svo praktísk sjónarmið ráða og horfðu aðgerðarlausir á.
Meirihluti þjóðarinnar vill breyta stjórnarskránni á komandi stjórnlagaþingi til þess að gera grundvallarreglur þjóðfélagsins skýrar og breyta þeirri hugsun og þeirri afstöðu sem ríkt hefur. En stjórnlagaþingi bíður mikill vandi meiri vandi en öllum samkomum og þingum sem haldin hafa verið á Íslandi frá upphafi og meiri vandi en Alþingi hefur staðið frammi fyrir í sögu lýðveldisins. Allir menn, karlar og konur, ungir og gamlir til sjávar og sveita verða því að sameinast um að sýna kosningu til stjórnlagaþings áhuga og virðingu meiri virðingu en Alþingi nýtur nú. Þá er von til þess að virðing Alþingis aukist einnig.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.11.2010 | 14:18
Burt með ofbeldi, jafnari lífskjör – betra líf
Íslenskt þjóðfélag hefur fengið miklu áorkað undanfarna öld. Fyrir einni öld áttu Íslendingar einn lærðan skóla, voru fátækasta þjóð í Evrópu og barnadauði mestur allra landa. Nú eru Íslendingar með ríkustu þjóðum, lægstan barnadauða í öllum heiminum og menntun okkar sambærileg menntun annarra þjóða í Evrópu.
Margt gott er enn verið að gera og þjóðin sækir fram til betra mannlífs, ekki bættra lífskjara heldur jafnari lífskjara - og þó einkum til aukinna lífsgæða. Orðið lífsgæðakapphlaup fékk á sig neikvæðan stimpil þótt orðið lífsgæði sé jákvætt og merkir einfaldlega gott líf - þýðing á danska orðinu livskvalitet.
Þrennt er það þó einkum sem mér þykir afar aðkallandi nú, þegar þjóðin er að rísa á fætur eftir hrunið og sækir fram til betra lífs. Í fyrsta lagi að hjálpa fíklum og þeim sem hafa ánetjast eitri. Í öðru lagi finna viðunandi leiðir fyrir þá sem veikst hafa af geðsjúkdómum - og í þriðja lagi að vinna gegn hvers konar ofbeldi, einkum ofbeldi á konum og börnum og ekki síst kynferðislegu ofbeldi.
Fréttir um hörmulegar afleiðingar af notkun fíkniefna og ofbeldi af ýmsu tagi eru óhugnanlegar. Fyrir aldarfjórðungi heyrðist ekki minnst á kynferðislegt ofbeldi, ekki vegna þess að það væri ekki fyrir hendi, heldur vegna þess að við vildum ekki vita af því og lokuðum augunum, þögguðum það niður. Og ofbeldi virðist sífellt að aukast.
Viðtal við konu í sjónvarpsþættinum Návígi 16. nóvember 2010 var sorglegt dæmi um ofbeldi og misrétti af versta tagi. Slíkt framferði, sem hún lýsti með varfærnislegum orðum og með sorg í augum, tók mjög á mig og má ekki - og á ekki að eiga sér stað.
Ríkisvaldið og almenningur og hvers konar góð samtök verða að taka höndum saman og koma í veg fyrir slíkt og þvílíkt. Ríki og sveitarfélög verða að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi, því að fjölskyldur fíkla, fjölskyldur þeirra sem veikjast af geðsjúkdómum, fjölskyldur ofbeldismanna og fjölskyldur þeirra sem verða fyrir ofbeldi megna ekki að hjálpa þeim sem eru hjálpar þurfi. Með slíkri hjálp gerum við lífið betra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)