17.2.2011 | 11:15
ICESAVE er ekki lokið - nú er ballið að byrja
Sagt er að ICESAVE sé lokið. Það er þjóðlygi. ICESAVE er að byrja. Hingað til hafa menn - karlar og konur - rætt um málið oftast af lítilli þekingu. Nú fá menn - karlar og konur að sjá alvöru lífsins, þegar ríkissjóður greiðir 26 milljarða í vexti af höfuðstól sem talinn er 600 milljarðar. Og svo er verið að skera niður graut í skólum og fella niður kennslu í lífsleikni.
Undarlegt er að ekki skuli hafa vrið beðið eftir því, hver niðurstaða verður í uppgjöri á eignasafni Landsbankans þ.e.a.s. hvað stendur eftir þegar tekin hefur verið afstaða til krafna einstaklinga, félaga og stofnana í Bretlandi og Hollandi sem lagðar hafa verið fram.
Þegar fyrir liggur, hvers virði eignasafn Landabankans er, kæmi til greina að ríkisstjórn í skjóli Alþingis (sem þiggur vald sitt frá þjóðinni) gengi til samninga við bresk og hollensk yfirvöld. Hins vegar var fásinna að ganga nú til samninga. Vonandi vita og skilja alþingismenn og ráðherrar hvað þeir voru að gera í gær. Ég skil það ekki.
Ein rökin eru þau, að íslenskur almenningur beri ábyrgð á því að almenningur í Bretlandi og Hollandi var svikinn. Þarna er öllu snúið á haus. Almenningur, hvar sem er í heiminum, má ekki og á ekki að bera ábyrgð á glæfrum einkafyrirtækja. Þá er ekki um einkafyrirtæki að ræða heldur einkavæddan gróða og ríkistryggt tap.
Önnur rök eru þau, að Íslendingar eigi að lifa í sátt við aðrar þjóðir, virða alþjóðleg lög og samninga. Það er rétt. Hins vegar stendur hvergi í alþjóðlegum lögum að almenningur eigi að borga fyrir óreiðumenn enda tíðkast það ekki úti í hinum stóra heimi. Það á aðeins að gilda fyrir okkar litla íslenska heim. Við erum svo litlir.
Þriðju rökin eru þau, að Íslendingar einangrist á fjármálamarkaði, fái ekki lán og enginn kaupi íslenska vöru. Þetta er rangt, enda hefur það ekki verið. Fjármagnið auðvaldið leitar eftir hagstæðum viðskiptum og eftirsóttri vöru. Við eigum vöru sem auðveld er að selja: hreina matvöru, hreint land og hreina orku. Við skulum því halda okkur hreinum. Og þjóðin á að fá að taka afstöðu til ólaganna frá því í gær.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
13.2.2011 | 16:35
Íslendingar eru enn bestir
Orð forseta Íslands í Silfri Egils í dag urðu mér umhugsunarefni. Þar sannaðist það sem franski stjórnmálarefurinn de Talleyrand sagði fyrir tveimur öldum, að málið væri gefið manninum til að leyna hugsun sinni, La parole a été donnée à lomme pour désguiser sa pensé.
Vont var að heyra ummæli forsetans um stjórnlagaþing og endurskoðun á stjórnarskránni. Þingið væri sorgarsaga og gamla stjórnarskráin ágæt. Verra var að heyra dóma hans um fyrri forseta sem lent hefðu í ólgusjó vegna afstöðu til viðkvæmra mála - og væri of mikið gert úr vinsældum þeirra.
Verst var þó að hlusta á ummæli hans um ágæti Íslendinga, ummæli sem minntu á ræður hans í upphafi aldar um ágæti útrásarinnar. Íslendingar eru enn fremstir og bestir og geta leitt aðrar þjóðir á veg skynsemi og réttlætis. Gamli keppnisandinn er því ekki horfinn.
Orð forsetans í dag verður ef til vill að sjá í ljósi þess, að hann langar ljóslega til að verða forseti fimmta kjörtímabilið og slá þar með öll fyrri met, enda þjóðin á næsta ári stödd í miðri á, óljóst um allt og illt að skipta um hest í miðri á. Stundum er vont að vera of mælskur og gleyma sér í málrófi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.2.2011 | 13:47
Stjórnmál er barátta um hagsmuni og völd
Stjórnmál er barátta um hagsmuni og völd. Þannig hefur það verið og þannig verður það. Gamli Karl Marx hafði rétt fyrir sér. Stéttabaráttan heldur áfram í nýjum myndum og stétt manna ræðst af menntun, stöðu, hagsmunum og völdum.
En miklu skiptir, hvernig þessi barátta er háð. Á Íslandi hafa átökin oft verið hörð, þó ekki harðari en á öðrum Norðurlöndum. Hins vegar eru aðferðirnar, sem beitt er, og hugsunin, sem að baki býr, mjög ólík því sem er annars staðar á Norðurlöndum.
Við Íslendingar erum harðskeyttir, duttlungafullir og óvægnir, eins og íslensk náttúra, og tillitslausir - við höggvum menn sem standa vel við höggi. En einkum erum við agalaus þjóð. Það kemur fram fram í baráttunni og umræðunni um stöðu, hagsmuni og völd .
Gríski heimspekingurinn Epíkúros sagði um 300 árum f. Kr., að ef menn vildu njóta ánægju í lífinu, skyldu þeir ekki skipta sér af stjórnmálum en njóta lífsins með yfirvegum. Þessi kenning á ekki upp á pallborðið hjá okkur sem enn lifum Sturlungaöld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2011 | 21:01
Lögspekin
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.2.2011 | 09:00
"Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða"
Er ekki eitthvað bogið við lögin, kennslu í lögfræði eða lögfræðilega hugsun á þessu kalda landi Íslandi, þegar Robert Spano, forseti lagadeildar HÍ, segir svart það sem Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður segir hvítt og Jón Steinar hæstaréttardómari segir svo, að Hæstiréttur dæmi eftir lögunum og hæstaréttardómarar eigi þá ósk heitasta að dæma rétt. Hvað er rétt og hvað er rangt, þegar hægt er að böggla lögin eins og roð fyrir brjósti okkar?
Einu sinni var sagt: "Með lögum skal land byggja en með ólögum eyða" og Þorgeir Ljósvetningagoði breiddi feld sinn á sig og hvíldi þann dag allan og nóttina eftir og kvað ekki orð fyrr en hann kallaði menn til Lögbergs og sagði, að honum þætti þá komið hag manna í ónýtt efni, ef menn skyldu ekki hafa ein lög á landi hér. Og Ljósvetningagoði bætti við: "Það mun verða satt: ef vér slítum lögin, að vér munum einnig slíta friðinn."
Er ekki kominn til að hafa aftur ein lög í landinu og semja frið?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.2.2011 | 16:09
Valdið kemur frá þjóðinni
Eitt sinn var sagt: "Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja." Margir virtust einnig hafa verið búnir að mynda sér skoðun, áður en öll rök komu fram í kærumáli vegna stjórnlagaþingskosninganna. Ábendingar og rök fyrrverandi formanns Landskjörstjórnar, Ástráðs Haraldssonar, og Gunnars Eydals, fyrrum skrifstofustjóra Reykjavíkurborgar, sýna þetta og gera úrskurð Hæstaréttar tortryggilegan. En sjáandi sáu þeir ekki og heyrandi heyrðu þeir ekki né skildu.
Ég - ef mig skyldi kalla - bauð ég mig fram til stjórnlagaþings til þess að koma á virku lýðræði í landinu, ekki endalausum formreglum sem lögfræðingar einir þykjast skilja og þykjast mega túlka eða geta túlkað. Þetta er skrifræði hinna nýju skriftlærðu - svo ég segi ekki farísea, bersyndugra og tollheimtumanna. Lýðræði er hugsun - ekki aðeins form. Lýðræðislega hugsun skortir meðal margra málsmetandi manna, ekki síst þeirra sem hafa haft tögl og hagldir undanfarin 20 ár, enda hefur einræði meirihlutans og foringjaræði einkennt íslensk stjórnmál allt þetta tímabil.
Afstaða Davíðs Oddsonar kemur ekki á óvart. Einræðishneigð og einsýni hans er öllum ljós - nema honum sjálfum og Hannesi Hólmsteini. Hins vegar kom mér á óvart, hvernig Þorsteinn Pálsson skrifaði um þetta viðkvæma mál í Fréttablaðinu á laugardag, þar sem hann segir: "viðbrögðin verri en ógildingin" og "feli í sér að dómsmálaráðherra hafi sniðgengið lagaákvæði um leynilegar kosningar".
Lengi batt ég vonir við, að Þorsteinn Pálsson sem margreyndur blaðamaður, ritstjóri, alþingismaður, ráðherra, sendiherra og formaður stærsta stjórnmálaflokks landsins gæti - sem dálkahöfundur á efri árum - hafið sig yfir lágkúru íslenskrar stjórnmálaumræðu. En hann er fallinn í sama forarpyttinn.
Ef vil vill var tíminn fyrir stjórnlagaþing nú ekki vel valinn. Verkefni stjórnvalda eru ærin, þótt þjóðinni sé ekki einnig sundrað með þessum hætti. Af þeim sökum kemur til greina að fresta frekari umræðu um endurskoðun stjórnarskrárinnar, ef það gæti orðið til þess að þjóðin - og ekki síst stjórnmálamenn sameinuðust um aðgerðir til þess að bjarga fjölskyldunum í landinu sem eru hornsteinn samfélagsins.
Hins vegar má Sjálfstæðisflokkurinn í öllu sínu veldi ekki til þess hugsa að leggja stjórnarskrármálið í hendur almennings - hvað sem veldur. Klifað er á, að það sé hlutverk Alþingis að setja stjórnarskrá. Alþingi hefur hins vegar í tvo mannsaldra ekki megnað að setja landinu nýja stjórnarskrá - og nú er Alþingi sjálfu sér sundurþykkt og nánast óstarfhæft vegna sundurlyndis.
Alþingi getur því ekki sett lýðveldinu Íslandi nýja stjórnarskrá nú - né heldur meðan sundurlyndisfjandinn ræður þar ríkjum. En þó svo Alþingi væri þess megnugt - sem ekki er - gleymist mörgum, og þá m.a. núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, að Alþingi hlýtur vald sitt frá þjóðinni - og hjá þjóðinni á valdið að vera - líka valdið til þess að setja lýðveldinu Íslandi nýja lýðræðislega stjórnarskrá.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2011 | 00:18
Mistök Hæstaréttar
Sjaldan hef ég hlustað á skýrari málflutning en málflutning Ástráðs Haraldssonar hæstaréttarlögmanns, fyrrum formanns Landskjörstjórnar í Kastljósi í kvöld. Þá var fróðlegt að hlusta á Gunnar Eydal hæstaréttarlögmann í Speglinum, en Gunnar hefur áratuga reynslu af kosningum í Reykjavík.
Báðir bentu á mistúlkun réttarins á þremur meginatriðum úrskurðarins: merkingu kjörseðla, gerð kjörklefa og læsingu kjörkassa. Báðir tölu ábendingar Hæstaréttar ónógar til þess að ógilda kosningarnar. Bætast þessir tveir mætu menn í þann stóra hóp sem er ósáttur við úrskurðinn þar sem minni hagsmunir voru teknir fram yfir meiri hagsmuni.
Ýmsir halda því fram, að enginn megi efast um óskeikulleika Hæstaréttar eða láta í það skína, að Hæstarétti geti orðið á mistök í úrskurði sínum, enda rétturinn hafinn yfir alla gagnrýni. Þetta er ekki góðs viti. Enginn er óskeikull, heldur ekki Hæstiréttur. Sýnu verra er ef annarlegar ástæður liggja að baki úrskurðinum, eins og gefið hefur verið í skyn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.1.2011 | 15:35
Skamma stund hönd höggi fegin
![]() |
Stjórnlagaþingskosning ógild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (47)
13.1.2011 | 15:12
Blekking og þekking
Sagt er að vísindin efli alla dáð, að mennt sé máttur - og að sannleikurinn muni gera yður frjálsa. Allt er þetta bæði satt og rétt. Stundum er mér hins vegar ekki ljóst, hvers konar vísindi eru á ferðinni, í hverju mennt er fólgin og hver sannleikurinn er í raun og veru.
Það vekur mér einnig furðu, hversu mikil blekking er viðhöfð í nafni vísinda, menntunar og sannleika í samfélögum vesturlanda og þá m.a. og á Íslandi. Hvern dag er hellt yfir okkur í fjölmiðlum steypu af hálfsannleika, röngum upplýsingum og kolhráum áróðri. Allt er þetta gert til að blekkja sauðsvartan almúgann í nafni þekkingar, víðsýni og menntunar.
Mörgum þykir svo mest koma til þeirra sem ósvífnastir, kjaftforastir og einsýnastir eru, svo sem Davíð Oddsson, Guðmundur Ólafsson, Hannes Hólmsteinn og Jónas Kristjánsson, auk þess sem spámenn á við Birgi Guðmundsson og Eirík Bergmann eru taldir opna augu okkar fyrir sannleikanum og sýna okkur inn í framtíðina. Má ég þá heldur biðja um Nostradamus.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2011 | 21:54
Samfélagssáttmáli og þjóðarsátt
Um áramót hvöttu formenn stjórnmálaflokka, forseti Íslands, biskup Íslands, prestar, forystumenn atvinnurekenda og launþega og flestir leiðarahöfundar dagblaða Íslendinga til þess að snúa bökum saman, slíðra sverðin og láta af bræðravígum og brigslmælgi og sameinast um endurreisn þjóðfélagsins eftir hrunið sem kalla má "móðuharðindi af manna völdum".
Eftir viku kemur Alþingi Íslendinga saman eftir jólaleyfi. Þá er vonandi að andi sátta og samlyndis ríki og alþingismenn og alþingiskonur láti hvatningarorð góðra manna frá áramótunum lýsa sér veginn, ástundi yfirvegaða orðræðu, hugsi um almannaheill og leggi gott til mála.
Stóra spurningin er hins vegar sú, hvert íslenska þjóðin vill stefna, hvort kjósendur vilja breytingar, hvort almenningur vill breytingar á viðhorfi til lífsgæða - og menn spyrji sjálfra sig, að hverju þeir vilja stefna í lífinu.
Eitt af því sem gamall skólameistari að norðan spurði nemendur meira en aldarfjórðung var: Hver ert þú? Hvaðan ert þú? Hvert vilt þú stefna - og hvað viltu verða? Gamli skólameistarinn hefur sjálfur spurt sig þessara spurninga - og ekki haft illt af. Því er sennilegt að ýmsir aðrir, alþýða manna, almenningur, kjósendur, alþingismenn og -konur og ráðamenn þessarar dugmiklu þjóðar hafi einnig gott af því að spyrja þessara fjögurra spurninga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)