15.11.2010 | 15:33
Gildi nýrrar stjórnarskrár
Enn spyrja menn, hvaða gildi stjórnlagaþing hafi, hvers vegna þörf sé á slíku þingi nú, hvort menn hafi ekki annað þarfara að iðja á þessum viðsjárverðu tímum, hvort gamla stjórnarskráin sé ekki fullgóð og hvort Íslendingar hafi ráð á að efna til þings á þessum síðustu og verstu tímum.
Sundrung í þjóðfélaginu, tortryggni í garð stjórnmálamanna, reiði fólks og vonleysi margra fjölskyldna getur torveldað kosningar til stjórnlagaþings og jafnvel hindrað, að árangur náist á þessu þingi þjóðarinnar. Frumstæð og neikvæð umræða og ótti einstakra manna getur einnig torveldað árangur.
Hins vegar leikur engin vafi á því, að krafa meirihluta þjóðarinnar er um breytt viðhorf í stjórnmálum, að stjórnmálamenn sýni heiðarleika og ábyrgð og gagnsæi sé í stjórnarathöfnum og afdráttarlaus og skýr þrískipting valds.
Gildi stjórnlagaþings og nýrrar stjórnarskrár nú felst í því að sameina þjóðina, gefa fólki von, lægja öldur, vekja von og auka traust á Alþingi, stjórnmálaflokkunum og stjórnmálamönnum sem við komumst ekki af án. Ný stjórnarskrá á að verða samfélagssáttmáli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.11.2010 | 13:36
Stjórnlagaþing fólksins - lýðræði og jafnrétti
Gagnlegt var að hlusta á yfirvegaða umræðu dr Eiríks Bergmanns á ÍNN í gær þar sem hann fjallaði um stjórnlagaþingið 2011 og nýja stjórnarskrá. Benti hann á, að þing af þessu tagi væri einsdæmi og mikilsvert tæki til að móta stjórnarskrá á lýðræðislegan hátt.
Stjórnlagaþing fólksins er einsdæmi í sögunni. Tortryggilegt er því þegar Sigurður Líndal, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, og Davíð Oddsson reyna að finna þinginu allt til foráttu. Sigurður segir "bestu menn þjóðarinnar" eigi að setja saman stjórnarskrá og Davíð að "engin skýring hafi komið fram á því að nú verði að gera atlögu að stjórnarskránni".
Eftirtektarvert er að Sigurður notar orðin "bestu menn þjóðarinnar" og Davíð að "gera atlögu að stjórnarskránni". Þeir viðast ekki skilja kröfu tímans um lýðræði og jafnrétti - eða öllu heldur: Þeir vilja ekki skilja kröfu tímans um lýðræði og jafnrétti.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.11.2010 | 13:31
Að loknum þjóðfundi, svar til leiðarahöfundar MBL
Sorglegt er að lesa leiðara Morgunblaðsins í dag. Ályktunarorð leiðarans eru, að engin skýring hafi komið fram á því að einmitt nú verði að gera atlögu að stjórnarskránni.
Sorglegt er að lesa háðslegt orðbragð, niðurbælda reiði, útúrsnúninga og dulinn ótta um þetta mikilsverða mál. Sorglegt er að þetta gamla málgagn heiðarlegra íhaldsmanna leggst svona lágt.
Sorglegt er að svona er komið fyrir umræðu Morgunblaðsins sem undir forystu Matthíasar Johannessens og Styrmis Gunnarssonar fór fyrir í málefnalegri umræðu um ágreiningsmál í stjórnmálum um áratuga skeið.
Nú reynir leiðarahöfundur Morgunblaðsins að gera vilja meginhluti þjóðarinnar hlægilegan og þykist ekki skilja það sem flestum hugsandi mönnum er ljóst.
Ný stjórnarskrá er nauðsyn eftir verk spilltra stjórnmálamanna og glæpsamlegt athæfi einstakra manna í viðskiptalífinu undanfarin ár. Þjóðin er ekki síður reið en leiðarahöfundur MBL og hefur til þess meiri ástæðu. Afskræmd frjálshyggja og stjórnmálaspilling lagði líf tugþúsunda manna í rúst, ekki gamla, danska stjórnarskráin - heldur brostið siðvit.
Ný stjórnarskrá er nauðsynleg til þess að treysta siðvit og tryggja undirstöður lýðræðis, skýra þrískiptingu valds og eignarhald þjóðarinnar á auðlindum, stjórnarskrá sem reist á virðingu fyrir öllum einnig þeim sem hafa andstæða skoðun en það er grundvöllur heilbrigðrar umræðu.
Heiðarlegum Íslendingum mun á grundvelli jafnréttis á öllum sviðum og skýrrar þrískiptar valds takast að reisa landið úr rústunum frjálshyggjunnar, en verk óbótamanna gleymast ekki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
6.11.2010 | 23:42
Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja
Í dag, laugardag 6ta nóvember 2010, var haldinn þúsund manna þjóðfundur í Reykjavík. Fólk alls staðar að af landinu, ungt fólk og gamalt, karlar og konur, lærðir og leikir komu saman til þess að láta í ljós álit sitt á því hvernig ný stjórnarskrá fyrir lýðveldið ætti að líta út.
Lítið þýðir að segja að fundurinn hafi verið heimssögulegur atburður, því heimurinn er stór og Ísland er lítið. Þjóðfundurinn var heldur ekki fyrsta frétt í fjölmiðlum heimsins heldur ofbeldi í skjóli hervalds, misrétti í skóli auðvalds og yfirgangur í skjóli blindra stjórnvalda sem troða á rétti barna, kvenna og fátæks fólks.
Þjóðfundurinn ER engu að síður heimsögulegur atburður af því slíkt hefur aldrei verið reynt áður í hinum stóra heimi. Þjóðfundurinn er einnig sögulegur atburður á litla Íslandi og markar tímamót í sögu þjóðar og á fundinum ríkti einurð, samstaða - og bjartsýni.
Enda er margt gott að gerast með þessari fámennu þjóð. Ungt fólk vinnur afrek á sviði tónlistar, leiklistar, íþrótta og annarrar menningar og staðarmenning eflist um allt land. Hugmyndir fæðast um nýjar leiðir í atvinnumálum og landið býr yfir auðlindum: hreinu vatni, hreinu lofti, jarðvarma, fallorku og síðast en ekki síst gjöfulum fiskimiðum.
En heimilum landsins er að blæða út. Á meðan sitja alþingismenn eins og umskiptingar og formaður stærsta stjórnmálaflokksins segist ekki vinna með stjórn landsins af því að hann viti allt, skilji allt og geti allt. Auk þess leggst flokkurinn gegn því að ný stjórnarskrá sé samin. Sú gamla sé nógu góð.
Þegar lærisveinarnir spurðu Jesú, hvers vegna hann talaði til manna í dæmisögum, sagði hann: Þess vegna tala ég til þeirra í dæmisögum að sjáandi sér þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja. Þetta á við um alþingismenn. Sjáandi sjá þeir ekki og heyrandi heyra þeir ekki né skilja.
Þjóðin mun hins vegar ekki tala til þeirra í dæmisögum - heldur í verkum sínum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2010 | 23:56
Íslensk umræðuhefð
Í kvöld horfði ég á vikulegan umræðuþátt í norska sjónvarpinu, DEBATT, eins og þátturinn nefnist. Rætt var um njósnir Bandaríkjamanna í Noregi, viðkvæmt efni og óskiljanlegt: að "vinaþjóð", sem svo er nefnd, brjóti lög samstarfsþjóðar.
En það var ekki þetta sem ég ætlaði að ræða um nú undir miðnætti, heldur hvernig rætt var um þetta viðkvæma mál í norskum stjórnmálum sem á eftir að draga dilk á eftir sér. Skoðanir voru skiptar og skoðanaskipti hörð og einörð. Hins vegar sýndu viðmælendur öðrum virðingu og tóku aldrei fram í fyrir öðrum, því síður þeir notuðu háð og brigslmælgi.
Mér varð hugsað til umræðu á Alþingi fyrr í dag, elsta þings í Evrópu, eins og kallað er, þar sem sama hanaatið fer fram og áður, ómálefnaleg umræða, skortur á virðingu og skortur á hugmyndum þegar landið er að sökkva. Þingmenn þyrftu sannarlega að snúa bökum saman og finna leiðir til lausnar, lausnir sem liggja í augum uppi fyrir þá sem sjáandi eru. Alþingismenn Íslendinga eru hins vegar blindir - og haga sér eins og götustrákar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.11.2010 | 14:23
Er Evrópusambandið eina leiðin?
Lengi fannst mér tvær þjóðir búa í þessu landi, þjóðin í borgríkinu Reykjavík - og hin þjóðin. Nú er mér farið að finnast eins og margar þjóðir búi í þessu fagra og landi og gjöfula: fátækt fólk og ríkt, menntað fólk og ómenntað, hógvært fólk og dónar, hugsandi fólk og götulýður og að sjálfsögðu ungt fólk og gamalt, konur og karlar, sjómenn og bændur, iðnaðarmenn og ófaglærðir - og svo atvinnustjórnmálamenn sem ekki koma sér saman um neitt, þótt landið sé að sökkva - eða hvað.
Ýmislegt bendir nefnilega til þess, að landið hafi aðeins sokkið að hluta. Meðan þúsundir þurfa að þiggja mat í plastpokum og íbúðir 20 þúsund fjölskyldna séu á uppboði, getur fjölmargt fólk leyft sér hvað sem er í efnalegu tilliti. Bjórkrár eru fullar af fullu fólki kvöld eftir kvöld, veitingastaðir og sælkerahús eru troðin af úttroðnu fólki á besta aldri viku eftir viku, uppselt er að verða í sólarlandaferðir í vetur og dýrir bílar eru farnir að seljast aftur eins og heitar lummur, en sumir virðast telja það bera vitni um velmegun í landinu.
Hefur eitthvað gleymst? Hefur hrunið ekki kennt nýríkum og sjálfselskum Íslendingum neitt? Getur ekkert komið okkur í skilning um að jafnrétti, hófsemi og mannvirðing á að gilda? Eða getum við ef til vill ekki bjargað okkur sjálf? Þurfa aðrir að koma okkur til hjálpar, eins og lærðir menn frá útlöndum í Silfri Egils prédika sunnudag eftir sunnudag? Er Evrópusambandið ef til vill eina leiðin?
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
29.10.2010 | 11:15
Virðing fyrir sérhverjum manni er ófrávíkjanleg og algild
Eins og áður hefur komið fram, hef ég gerst svo djarfur að bjóða mig fram til stjórnlagaþings til þess að leggja mitt af mörkum við að móta nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.
Stjórnarskrá skal tryggja öllum lýðræðisleg mannréttindi, félagslegt öryggi, jafnrétti á öllum sviðum og frelsi til orða og athafna, treysta undirstöður nútímalýðræðis, sem er mannvirðing og umburðarlyndi, tryggja réttlátt samfélag, skýra þrískiptingu valds, eignarhald þjóðarinnar á náttúruauðlindum, landsréttindi og umhverfisrétt sem móti samskipti fólks við umhverfi sitt.
Stjórnarskráin skal reist á skýlausri virðingu fyrir öllum einstaklingum, traustri siðvitund og stuðla að virðingu fyrir sögu Íslands og hefðum íslenskrar tungu.
Stjórnarskrá skal vera á vönduðu máli og gagnorð svo að allir skilji.Stjórnskráin á aðeins að geyma grundvallarlög lýðveldisins. Stjórnskráin á að vera stuttorð, gagnorð og auðskilin og tryggja lýðræðisleg mannréttindi, félagslegt öryggi, jafnrétti á öllum sviðum og frelsi til orða og athafna.
Fyrsti kafli stjórnarskrárinnar á að fjalla um mannréttindi og fyrsta setningin að vera: Virðing fyrir sérhverjum manni er ófrávíkjanleg og algild, sbr. upphafsorð þýsku stjórnarskrárinnar: Die Würde des Menschen ist unantastbar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
27.10.2010 | 12:07
Sælir eru fátækir í anda
Í morgun ræddi ég við gamla vinkonu mína sem bæði er orðin gömul að árum komin á níræðisaldur, og hefur auk þess verið vinkona mín meira en hálfa öld. Hún er því gömul vinkona í tvennum skilningi.
Þegar við tölum saman, verða umræðurnar oft heimspekilegar. Ekki svo að skilja, að við sláum um okkur með lærðu orðalagi heimspekinga og torræðu tali. Nei, við tölum um lífið og tilveruna á einfaldan hátt, fegurð hversdagsleikans, um réttlæti og ranglæti hér í heimi, um gott og illt í manninum og þá gjarnan hvað í því felst að vera maður vera almennileg manneskja, eins og sagt var fyrir austan.
Hún vinkona mín sagði mér, að hún hefði verið bæði seinþroska, barnaleg og einföld langt fram eftir aldri og gæti sennilega aldrei losnað við barnaskapinn. Sagði ég henni, að það væri öfundsvert að vera bæði barnalegur, seinþroska og einfaldur. Í fyrsta lagi virtust þeir sem væru seinþroska eldast betur en hinir sem yrðu fullorðnir þegar á barnsaldri.
Í öðru lagi fælist í mínum huga mikil einlægni í því að vera barnalegur, enda hefði frelsarinn sagt ýmislegt um börnin og einlægni þeirra, en hann var bæði vitur maður og mikill hugsuður og jafnvel einn mesti heimspekingur allra tíma.
Þá sagði ég líka við hana, að eftir því sem árin færðust yfir mig, félli mér betur við þá sem væru einfaldir en hina sem þykjast vita allt og skilja allt, en vissu svo ekkert og skildu fátt. Enda hefði frelsarinn átt við okkur - hina einföldu - þegar hann mælti: Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.10.2010 | 21:00
Hvers vegna stjórnlagaþing og nýja stjórnarskrá
Enn velta menn því fyrir sér hvers vegna halda skal stjórnlagaþing sem almenningur kýs þar sem forsetinn, alþingismenn og ráðherrar eru ekki kjörgengir. Einnig velta menn því fyrir sér hvort setja þurfi Íslandi nýja stjórnarskrá á þessum síðustu og verstu tímum svika, tortryggni og vonleysis.
Nokkrir fræðimenn og gamlir atvinnustjórnmálamenn, sem ráðið hafa ríkjum áratugum saman, hafa fundið kosningunum og þinginu flest til foráttu: þær séu flóknar, erfitt verði að kynna 500 frambjóðendur, þingið muni skipað óhæfum fulltrúum, ný stjórnarskrá verði marklaust plagg af því að bestu menn hafi ekki um hana fjallað, eins og Sigurður Líndal sagði í viðtali við MBL. Tíminn sé ekki réttur, engin umræða hafi farið fram og núverandi stjórnskrá sé góð af því að hún sé gömul.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og doktor í stjórnmála- og stjórnsýslufræðum, segir, að þeir sem eru þekktir, búsettir á höfuðborgarsvæðinu, hefðu aðgang að fjármagni og væru í sveigjanlegri vinnu ættu mesta möguleika á að fóta sig í væntanlegri kosningabaráttu til stjórnlagaþings, eins og haft var eftir honum í DV í ágúst, og hundruð ef ekki þúsund kynnu að bjóða sig fram og kosningaþátttakan verði eins góð og í hefðbundnum" kosningum.
Þessir úrtölumenn telja sig vafalaust boðbera lýðræðis og jafnréttis, lausa við fordóma og meinbægni. Spádómar þeirra vekja hins vegar furðu og torskilið er af hverju þeir leggjast gegn því að almenningur, fólk upp og ofan, ungt og gamalt, konur og karlar, borgarbúar og sveitamenn, lærðir og leikir fái tækifæri til þess að spreyta sig á því að leggja drög að nýrri stjórnarskrá sem send verður Alþingi og síðan lögð fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar. Áhættan getur ekki talist mikil og ef stjórnlagaþinginu tekst ekki að sameinast um góðar tillögur tekur hið snauða Alþingi sem er rúð trausti almennings við og bætir um betur.
En það er önnur hlið á þessu máli. Almenningur hefur misst trú á stjórnmálamönnum og Alþingi nýtur ekki trausts. Hins vegar hefur almenningur sýnt stjórnlagaþinginu áhuga. 500 frambjóðendur til 25 þingsæta er tákn um lifandi áhuga almennings á virku lýðræði og fólk almenningur - vill leggja sitt af mörkum til að móta nútímalega stjórnarskrá. Að baki 500 frambjóðendum eru 15 til 25 þúsund meðmælendur auk 30 til 50 þúsund vitundarvotta eða samtals 45 til 125 þúsund manns sem þegar hafa sýnt þessu máli áhuga.Kynning á stjórnlagaþinginu er þegar hafin.
Kynning á öllum frambjóðendum verður send inn á sérhvert heimili. Hver frambjóðandi fær 120 orð til þess að kynna sig. Kynning á fjórum frambjóðendum kemst á hverja síðu. Kynningarbæklingurinn verður því um hundrað síður sem tekur sæmilega læst fólk klukkustund að hornalesa slíkan bækling. Sýnikjörseðill verður fenginn hverjum kjósanda í hendur fjórum vikum fyrir kjördag.
Kjósendur geta því búið sig undir kosningarnar og útfyllt sýnikjörseðilinn og kosið einn frambjóðanda eða 25 frambjóðendur með því að skrifa fjögurra stafa tölu á kjörseðilinn. Í þessum kosningum til stjórnlagaþings almennings eru atkvæði kjósenda jöfn og landið eitt kjördæmi. Kjörseðlar verða skannaðir inn í talningarkerfi fyrir allt landið og það sem er mest um vert: þetta er fyrsta stjórnlagaþing sinnar tegundar í heiminum og því heimssögulegur atburður.
Ný stjórnarskrá verður nýr vegvísir til framtíðar og samfélagssáttmáli sundraðrar þjóðar og kemur í stað gamallar, úreltrar, orðmargrar og óskipulegrar stjórnarskrár. Þjóðin hefur gengið gegnum mikla erfiðleika og orðið að líða fyrir ódugnað og sundrungu stjórnmálamanna og embættismanna og glæpsamlegu athæfi manna í viðskipta- og atvinnulífi.
Samhliða endurreisn efnahagslífs verður að fara pólitísk endurreisn: aukin mannvirðing, jafnrétti á öllum sviðum, meira gagnsæi, betri upplýsingar, bætt siðferði í stjórnmálum, aukinn heiðarleiki í viðskiptum og fjármálum - og bætt umræðuhefð.
Til að stuðla að þessu er efnt til stjórnlagaþings þjóðarinnar. Sjálfstætt stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá geta stuðlað að því að sameina sundraða þjóð, lægja öldur og vekja von og auka traust á Alþingi, stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Ný stjórnarskrá gæti því orðið samfélagssáttmáli í kjölfar mesta áfalls í sögu íslenska lýðveldisins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2010 | 11:35
Mikilvægi Ríkisútvarpsins 80 ára
Ríkisútvarpið er 80 ára á þessu ári og er mikilvægasta stofnun í eigu íslenska ríkisins.
Ríkisútvarpið skal leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og arfleifð og halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana og gætt fyllstu óhlutdrægni.
Ríkisútvarpið skal veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur mismunandi skoðana á málum sem efst eru á baugi og varða almenning, flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri og sérstaklega fjölbreytt efni við hæfi barna.
Ríkisútvarpið skal flytja efni á sviði lista, bókmennta, vísinda og sagnfræði og veita almenna fræðslu og gera dagskrárþætti er snerta Ísland eða Íslendinga sérstaklega og miða við fjölbreytni þjóðlífsins og lögð áhersla á að tal og texti sé á lýtalausu íslensku máli.
Þetta er afar mikilsvert hlutverk og Ríkisútvarpið hefur gegnt því hlutverki vel í 80 ár, enda ber meginhluti þjóðarinnar traust til þess. Á þessum síðustu og verstu tímum skiptir enn meira máli að Ríkisútvarpið gegni áfram vel þessu mikilsverða hlutverki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)