9.9.2010 | 23:07
Áskorun til alþingismanna
Íslensk þjóð hefur oft gengið í gegnum erfiðleika og sigrast á þeim. Það mun hún einnig gera nú með dugnaði og samstöðu á grundvelli sameiginlegra verðmæta, aukinnar menntunar og náttúruauðlinda.
Það sem skiptir máli, er að allir taki höndum saman: stjórnmálamenn, launþegasamtök og samtök atvinnulífsins, embættismenn, fulltrúar almennings og fjölmiðlar - og horfi fram á veginn.
Undanfari endurreisnar efnahagslífs er pólitísk endurreisn, bætt siðferði í stjórnmálum, aukinn heiðarleiki í viðskiptum og fjármálum og þroskuð umræðuhefð, mannvirðing og jafnrétti á öllum sviðum.
Þegar við höfum fast land undir fótum, heimilum landsins hefur verið bjargað úr skuldafeni, óttinn er horfinn og dómgirni hefur vikið fyrir yfirvegaðri umræðu, reynum við að átta okkur á því hvað gerðist.
En fyrsta skrefið er samvinna alþingismanna og myndun þjóðstjórnar.
Alþingismenn allra flokka sameinist!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.9.2010 | 10:03
Ónýt stjórnarandstaða - ónýtt Alþingi
Alþingi kom saman í gær eftir sumarleyfi. Almenningur lifir enn í óvissu um atvinnu og afkomu. Landsframleiðsla dregst saman. Arionbanki dreifir skít yfir þjóðina með því að gefa ósnertanlegum svikurum upp skuldir. Kvótakóngar segja eitt hér og annað þar.
Svo stendur hin þríeina stjórnarandstaða á Alþingi upp og tuðar um tittlingaskít. Nú er kominn tími til þess að Alþingi, ríkisstjórn og stjórnarandstaða taki höndum saman, gleymi fyrri væringum og takist sameiginlega á við vandann sem við er að stríða. Af nógu er að taka.
Bloggar | Breytt 9.9.2010 kl. 23:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.8.2010 | 12:21
Sviksemi, siðleysi og glæpir
Sviksemi í viðskiptum, óheilindi í stjórnmálum og mannlegum samskiptum, rógur og illt umtal nafnlauss undirmálsfólks í opnum netfjölmiðlum eru sorgleg dæmi um siðleysi og jafnvel glæpsamlegt athæfi.
Þegar biskup íslensku þjóðkirkjunnar er barnaníðingur og ofbeldismaður gegn konum, er hins vegar fokið í flest skjól. Ég stend höggdofa, lamaður og yfirkominn af sorg. Vondir eru samfélagsglæpir viðskiptaþjófa, svikulla stjórnmálamanna og rógbera, en glæpir gegn varnarlausum einstaklingum eru þúsund sinnum verri. Ef núverandi biskup og hollir ráðgjafar hans geta ekki fundið leið út úr þessum skelfingum, er rétt að skilja að ríki og kirkju, leggja þjóðkirkjuna niður.
Næst á eftir fjölskyldunni er skólinn mikilsverðasta stofnun samfélagsins, fremri Alþingi og dómstólum. Kirkjan kæmi svo þarna einhvers staðar á eftir, ef hún væri stofnun sem almenningur treystir. En eftir síðustu atburði treystir almenningur ekki kirkjunni og þjónum hennar.
Til þess að skilja rétt frá röngu og gott frá illu þarf skólinn að styðja við heimilin og kenna okkur að virða mannréttindi: frelsi, jafnrétti og bræðralag. Stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá bjarga engu. Nýtt Ísland verður ekki til nema skilningur á grundvallaratriðum lýðræðislegrar siðfræði sé fyrir hendi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.8.2010 | 14:38
Hommar, lesbíur - og jafnrétti á öllum sviðum
Hommar og lesbíur á Íslandi telja réttindi sín hafi verið fyrir borð borin. Því er ekki hægt að neita. Hommar og lesbíur á Íslandi segja litið hafi verið niður á samkynhneigt fólk. Því er ekki hægt að neita. Hommar og lesbíur á Íslandi hafa hins vegar heilan áratug farið kröfugöngur til þess að berjast fyrir réttindum sínum, mannréttindum sínum, eins og sagt er, og barátta þeirra hefur borið árangur þótt enn eigi þau langt í land, að eign sögn.
Öllum má ljóst vera að árangur af baráttu homma og lesbía hefur borið ótrúlegan árangur. Ber að óska þeim til hamingju með árangurinn. Sjálfsagt er að krefjast réttar síns, krefjast þess að aðrir sýni okkur virðingu, ekki síst þegar um er að ræða friðsamlega, fallega og litskrúðuga kröfugöngu með dansi og söng, enda margar listakonur og margir listamenn í hópi homma og lesbía.
En það er litið niður á fleira fólk en homma og lesbíur. Það er fleira fólk sem vill tryggja réttindi sín og óskar eftir að því sé sýnd virðing og skilningur. Í þessum hópi er gamalt fólk, fatlað fólk, þroskaheftir og ekki síst fólk með geðrænar truflanir, jafnvel svo miklar ranghugmyndir að það getur naumast sýnt sig út á meðal hinna sem talin eru heilbrigð, en öll erum við að vísu fötluð hvert á okkar hátt.
Er ekki kominn tími til að hæfileikaríkir hommar og lesbíur sameinist okkur hinum öllum sem eru að leita eftir skilningi og jafnrétti á öllum sviðum og alls staðar? Er ekki ástæða til að gleðigangan á næsta ári verði ganga til þess að krefjast jafnréttis og mannréttinda á öllum sviðum og alls staðar? Mannréttindi og jafnrétti á öllum sviðum er krafa samtímans. Allir eiga að vera jafnir fyrir lögunum, allir eiga að fá á að lifa í samræmi við óskir sínar og þarfir, ef það brýtur ekki gegn frelsi annarra. Þetta er krafa samtímans.
Sennilega er engum betur treystandi en hommum og lesbíum til að berjast fyrir jafnrétti á öllum sviðum og alls staðar. Hommum og lesbíum hefur tekist að komast út úr myrkrinu út í hundrað þúsund liti í fjölbreyttu samfélagi jafningja á öllum sviðum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
7.8.2010 | 13:06
Peningar, kynlíf og íslenskt gamanmál
Þegar allt snýst um peninga og kynlíf, er gaman að einhver skrifar um íslenskt mál, jafnvel þótt skoðanirnar séu skrýtnar. Hins vegar er erfitt fyrir mann eins og mig, sem gerir ekki að gamni sínu nema við einstaka vini, að skiptast á skoðunum við mann sem hefur atvinnu af því að gera að gamni sínu og vera skemmtilegur.
Skrif Davíðs Þórs í Fréttablaðinu um norðlenska flámælið eru skemmtilega skrýtin og ef hann hefur ætlað sér að vera fyndinn, tekst honum það með þessum aulaskap sem einkennir íslenska fyndni, ekki síst sjónvarpsauglýsingar síðustu misseri og barnatíma sjónvarpsins og margt annað barnaefni sem miðar að því að gera börn að skrípum, enda grípa mörg íslensk börn til skrípisláta ef á þau er yrt.
Okkur málverndarmönnum er hins vegar vandi á höndum þegar kemur að því að dæma rétt mál og rangt, gott mál og vont, fallegt mál og ljótt eða hefði ég heldur átt að segja: fagurt mál og ófagurt. Ástæðan er einkum sú að skiptar skoðanir eru um, hvernig staðið skal að málrækt og málvernd. Sumir segja, að allt sé rétt mál sem skilst. Aðrir segja þýðingarlaust að ætla að breyta þróun tungumála. Svo er hópur sem engu vill breyta.
Við hófsamir málræktarmenn miðum við, að orð, beygingar, setningaskipun og framburður sé í samræmi við reglur málsins, málfræðina, og málvenju sem skapast hefur á þeim grunni. Til þess að geta dæmt um þetta verða menn að hafa þekkingu á greinum málfræðinnar, s.s. orðmyndunarfræði, beygingarfræði, setningafræði og hljóðfræði. Einnig skiptir máli að hafa kynnst því sem best hefur verið skrifað á íslensku, t.d. Eddukvæðum, dróttkvæðum, Íslendingasögum, Sturlungu, ljóðum góðskálda og skáldverkum fremstu rithöfunda frá upphafi til okkar daga.
Að mínum dómi hefur málrækt farið aftur undanfarna áratugi. Ástæður eru margar, s.s. hrá erlend máláhrif, þekkingarleysi þeirra sem nota málið í fjölmiðlum - bæði útvarpi, sjónvarpi og blöðum - áhugaleysi margra á því að vanda mál sitt, tískufyrirbæri eins og tafs, endurtekningar og erlendar slettur, minni lestur góðra bóka, ónóg menntun kennara í grunn- og framhaldsskólum og áhugaleysi háskóla á að leggja rækt við íslenska tungu.
Enda þótt ég fullyrði að málrækt hafi farið aftur undanfarna áratugi, hefur aldrei verið skrifað og talað betra mál en síðustu hundrað ár. Þetta kann að þykja mótsögn en svo er ekki. Ástæðan er einfaldlega sú, að nú eru að skapast stéttamállýskur í stað landfræðilegra mállýskna. Í stað norðlensku er að myndast útvarpsmál, unglinga- og barnamál, götumál, mál presta og rithöfunda, mál skemmtikrafta eða með öðrum orðum mál lærða og leik(a)ra.
En svo ég snúi aftur að upphafinu, þá fer Davíð Þór villur vegar í skrifum sínum um norðlenska flámælið. Rekur þar sig hvað á annars horn. Ég nefni þrennt. Í fyrsta lagi er orðið flámæli notað um breytingar á sérhljóðum, ekki samhljóðum, þ.e.a.s. þegar sérhljóð verða opnari eða falla saman. Frændur mínir á Mjóafirði sögðu skEr bæði um mjólkurmatinn skyr og steina og björg - sker - sem stóðu upp úr sjónum og fyrir austan var lengi spElað á spEl, einkum vist og kasína.
Í öðru lagi heitir norðlenska flámælið raddaður harðhljóðsframburður í málfræði. Þessi framburður er upphaflegur í málinu og barst til landsins með máli landsnámsmanna, norskunni, en íslenska er upphaflega mál norskra innflytjenda.
Í þriðja lagi er íslensk stafsetning ekki framburðarstafsetning og hefur aldrei verið. Staða eða réttmæti raddaða harðhljóðsframburðarins á Norðurlandi ræðst því ekki af stafsetningu heldur af því að harðhljóðsframburður er upphaflegri en sunnlenska linmælið.
Fróðlegt verður að sjá til hvaða köpuryrða Davíð Þór grípur næst í gamanmálum sínum um íslenska tungu til þess að ýta við okkur gömlum málverndarmönnum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.7.2010 | 14:21
Einsýni, dómgirni og öfgar
Undarlegt var að lesa "skoðun" Óla Kristjáns Ármannssonar í Fréttablaðinu föstudag 25ta júlí. Er erfitt að átta sig á, hvað vakir fyrir mönnum að skrifa slíka grein og hvaða tilgangi slík grein á að þjóna? Hún bætir a.m.k. ekki umræðu um viðkvæmt og flókið deilumál þar sem einsýni, dómgirni og öfgar blasa alls staðar við.
Greinin hefst með gildishlöðnum yfirlýsingum um að þjóðremba og oftrú á ágæti þess sem sprottið er upp í nærumhverfinu sé með leiðinlegri kenndum og slíkur rembingur sé oftast talinn birtingarmynd ákveðinnar minnimáttarkenndar og skiljanlegt að hann leggist fremur á smærri þjóðir.
Síðar er talað um að "í þjóðrembingi sé kominn sá falski tónn sem höfundur þykist merkja í háværri baráttu sem fram fer gegn fjárfestingu Magma Energy í íslenskum orkuiðnaði.
Upphaf greinarinnar lofar því ekki góðu og framhaldið er eftir því. Sagt er að einhverjum kunni að þykja þægilegra að bölsótast yfir kaupum Magma Energy fremur en horfast í augu við ónýtan gjaldmiðil og viðvarandi gjaldeyrishöft, atvinnuleysi, fjármálafyrirtæki á brauðfótum, óleysta Icesave-deilu.
Greininni lýkur með langri röð af gildishlöðnum yfirlýsingum og dómgirni þar sem segir að ósvarað sé spurningunni hvernig hollvinir krónunnar og andstæðingar aukins Evrópusamstarfs ætla að tryggja stöðuleika gjaldmiðils og byggja upp þann trúverðugleika sem þarf til þess að í landinu verði lífskjör viðunandi. Vera má að það sé hluti einangrunarstefnunnar að berja frá landinu erlenda fjárfestingu. En þá þarf líka að segja það svo fólk átti sig að hverju er stefnt, fremur en að snúa umræðunni upp í einhverja öfugsnúna þjóðernishyggju þegar kemur að fjárfestingum og fyrirtækjarekstri.
Við hvað ætli Óli Kristján Ármannsson eigi svo með orðunum þjóðremba, þjóðrembingur og öfugsnúin þjóðernishyggja. Er það að vilja koma í veg fyrir samninga sem eru lagalega vafasamir og óhagstæðir frá viðskiptasjónarmiði og geta bundið afnot af mikilverðri auðlind þjóðarinnar og orkunýtingu í 130 ár. Og það sem meira er: Samningurinn færir ekki eina einustu krónu inn í landið heldur er gamla aðferðin notuð að taka fé að láni innanlands með veði í nýtingunni auðlindarinnar. Þetta er bara "2007".
Bloggar | Breytt 27.7.2010 kl. 21:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2010 | 12:00
Beint lýðræði - ný stjórnarskrá
Eftir alræði stjórnmálaflokka heila öld tala menn um beint lýðræði þar sem ákveða skuli meginmál með þjóðaratkvæðagreiðslu. Jafnframt er talað um að fjórflokkurinn sé dauður og flokkakerfið hafi runnið sitt skeið á enda.
Þetta er enn eitt dæmi um öfgar í stjórnmálaumræðu á Íslandi. Beint lýðræði krefst þess að kjósendur setji sig inn í öll mál, þekki allt, skilji allt og viti allt. Slíkt er óhugsandi af þekkingarfræðilegum ástæðum. Enginn getur þekkt allt heldur verða kjósendur að treysta kjörnum fulltrúum til þess að ráða fram úr málum samfélagsins. Í slíku felst eðlileg verkaskipting í þjóðfélagi sérfræði og sérþekkingar. Auk þess ber enginn ábyrgð í beinu lýðræði, en ábyrgð skiptir máli, ekki síst í stjórnmálum.
Til þess að auka ábyrgð þarf ábyrga stjórnmálaflokka sem ákveða - og bera ábyrgð á frambjóðendum, en skýla sér ekki á bak við prófkjör sem fundin voru upp til þess að láta kjósendur halda að þeir beri ábyrgð á frambjóðendum, prófkjör sem lauk með fjármálaspillingu þar sem hlaupandi strákar úr íþróttafélögum eða öðrum stjórnmálaflokkum réðu framboðslistum.
Stjórnmálaflokkar eiga að kynna stefnu sína og viðhorf á skýran og skiljanlegan hátt og fjölmiðlar eiga að veita flokkum og frambjóðendum aðhald á grundvelli þekkingar á lögmálum samfélagsins.
Hins vegar hefði átt að nota beint lýðræði til þess að setja landinu nýja stjórnarskrá, þar sem kjörið væri til sjálfstæðs stjórnlagaþings með landið allt sem eitt kjördæmi. En það fór sem fór. Alþingismenn treystu almenningi ekki til þess að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá, enda er svo komið að almenningur treystir heldur ekki Alþingi og þá er líkt á komið með öllum.
En ný stjórnarskrá á að tryggja réttindi almennings, en ekki vald Alþingis, tryggja órkoraða virðingu fyrir hverjum manni - eða eins og segir í fyrstu grein stjórnarskrár Þýskalands: Die Würde des Menschen ist uantastbar virðing mannsins er ósnertanleg. Það er megurinn málsins.
Bloggar | Breytt 27.7.2010 kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2010 | 14:07
Stjórmálaógæfu Íslands verður allt að gagni
Enn einu sinni er almenningi sagt ósatt. Enn einu sinni eru íslenskir stjórnmálamenn ósammála um grundvallaratriði. Enn einu sinni geta fjölmiðlar landsins ekki greitt úr vandanum og skilið hismið frá kjarnanum. Enn einu sinni sitjum við eftir með aulasvip, óbragð í munni og sárt enni.
Útlendingar mega ekki samkvæmt lögum eignast auðlindir landsins. Útlendingar eiga heldur ekki að eignast auðlindir landsins eða ráðstöfunarrétt á þeim af því að þær eru lífsbjörg okkar. Þær eru því og eiga að vera í eigu þjóðarinnar. Svo einfalt er það.
Engu að síður lætur ríkisstjórn fólksins viðgangast að erlent fyrirtæki, kanadískt fyrirtæki, sem samkvæmt regluverki Evrópska efnahagssvæðisins má heldur ekki fjárfesta á Íslandi, stofnar skúffufyrirtæki í Svíþjóð til þess að fara á svig við lög landsins og reglur Evrópska efnahagssvæðisins.
Þorsteinn Pálsson, sem stundum hefur virst hafa tilburði til þess að reyna að segja satt, gengur í lið með blekkingunni. Í Fréttablaðinu 17. þ.m. segir hann að í umræðunni um kaup á Magma á HS orku sé "stöðugt ruglað saman fjárfestingu í orkuframleiðslu og orkulindum". Þessi orð minna á bellibrögð kaþólskra manna á föstunni þegar þeir kölluðu kjöt vatnakarfa og átu af bestu lyst og án nokkurs samviskubits.
Hvað má til varnar verða vorum sóma? Er enginn endir á svikum og blekkingum íslenskra stjórnmálamanna og fjölmiðla? Verður stjórnmálaógæfu Íslands enn allt að gagni? Kunna menn enn ekki að skammast sín eftir öll svikin sem á undan eru gengin?
Bloggar | Breytt 27.7.2010 kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.6.2010 | 22:59
Virðing Alþingis - framtíð þjóðarinnar
Eldhúsdagsumræður í kvöld juku lítið virðingu Alþingis. Formaður Sjálfstæðisflokksins gerði virðingu Alþingis að meginumræðuefni sínu, en flutti gamalþekkt nudd og ássakanir í garð annarra. Verst var tal hans um stjórnlagaþing þjóðarinnar. Það væri Alþingi sem ætti að setja þjóðinni stjórnarskrá. Vi alene vide, sagði einn síðasti einvaldskonungur Evrópu. Formaður Sjálfstæðisflokksins ætti að vita að tími einvaldskonunga er liðinn.
Formaður Framsóknarflokksins kom enn einu sinni fram fyrir þjóðina með neikvæða afstöðu og skipulagslaust nudd og ásakanir í garð annarra. Hjá formanni Framsóknarflokksins örlaði hvergi á bjartsýni eða jákvæðri framtíðarsýn. Framsókn flokksins er að engu orðin!
Eins og oft áður talaði formaður VG af mestu viti. Sem fjármálaráðherra og hinn sterki maður ríkisstjórnarinnar tók hann við spillingarhruni sem heimskir gróðapungar áttu sök á. Formaðurinn hefur sem fjármálaráðherra axlað þunga byrði sviksemi og þjófnaðar frjálshyggju, en í umræðunni í kvöld og reyndi hann einn fárra að telja kjark í fólk og bregða upp jákvæðri framtíðarsýn.
Nei, virðing Alþingis jókst ekki í kvöld. Hvað má þá til varnar verða vorum sóma?
Bloggar | Breytt 27.7.2010 kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2010 | 22:20
Samræðutækni RÚV
Enn einu sinni þurfa sjónvarpsáhorfendur að horfa upp á yfirgang Sigmars Guðmundssonar í ríkissjónvarpinu þegar hann valtaði yfir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra með frekju og yfirgangi í Kastljósi í gærkvöldi.
Þessa hegðan telur útvarpsstjóri til fyrirmyndar og "mætti nota frammistöðu Sigmars til kennslu í því hvernig ganga eigi að stjórnmálamönnum í sjónvarpsviðtölum - af kurteisi og harðfylgni," eins hann segir í tölvubréfi til mín.
Að mínum dómi hefur ókurteisi og yfirgangur Sigmars Guðmundssonar iðulega komið í veg fyrir að nauðsynlegar upplýsingar fengjust í viðtölum. Auk þess gerir hann sér mannamun því að hann á það til að vera mjúkmáll og blíður og liggja hundflatur fyrir viðmælendum sínum eins og í drottningarviðtalinu við Davíð Oddsson seðlabankastjóra í nóvember 2008. Hins vegar eiga allir að vera jafnir fyrir Ríkisútvarpinu.
Sigmar Guðmundsson og útvarpsstjóri eiga enn margt ólært og ættu að horfa á sjónvarpsviðtöl í ríkissjónvarpi Dana, Norðmanna eða Svía, BBC eða Channel 4. Þar er fólk sem kann til verka.
Bloggar | Breytt 27.7.2010 kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)