Endurreisn Íslands

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er góð. Umræður á Alþingi lofa ekki góðu. Sumir þingmenn hafa lítið að segja, benda hver á annan, kenna öðrum um, ræða ávirðingar annarra, drepa málinu á dreif - og virðast lítið hafa lært.

Fyrir Alþingi liggja 600 - sex hundruð - mál sem seint verða afgreidd. Meðal þessara mála er frumvarp til laga um ráðgefandi stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána. Kjósa átti til þingsins í vor samhliða kosningum til sveitarstjórna. Það verður ekki.

Stjórnlagaþingið átti að fjalla um undirstöður stjórnskipunar og hugtök og valdmörk löggjafarvalds og framkvæmdavalds, hlutverk forseta, sjálfstæði dómstóla, kosningar og kjördæmaskipan og þátttöku almennings í lýðræðislegri stjórn landsins.

Í ljósi þess sem gerst hefur og í ljósi sundurlyndis alþingismanna og getuleysis er rétt að kjósa stjórnlagaþing óháð Alþingi og kjósa fulltrúa persónulegri kosningu með landið sem eitt kjördæmi. Slíkt stjórnlagaþing almennings er fyrsta skrefið í endurreisn Íslands og lýðræðislegu skipulagi.


Dugleysi íslenskra fjölmiðla

Enn einu sinni verðum við vitni að dugleysi íslenskra fjölmiðla. Í morgun lagði rannsóknarnefnd Alþingis fram skýrslu sína um bankahrunið 2008. Á hlutlægan hátt er þar gerð ýtarleg grein fyrir aðdraganda og orsökum.

Á blaðamannafundi í Iðnó gerðu fulltrúar í nefndinni grein fyrir meginþáttum skýrslunnar á skýran og skilmerkilegan hátt. Blaðamenn báru fram spurningar, nokkrir til þess að gera starf nefndarinnar tortryggilegt, drepa málinu á dreif og fela sekt velunnara sinna, aðrir spurðu út í loftið og nokkrir til þess að reyna að sakfella menn. Fremst í flokki fór Agnes Bragadóttir. Málefnalegar spurningar komu frá ýmsum, s.s. Þórdísi Arnljótsdóttur og Jóhönnu Hjaltadóttur, en RÚV hefur nú sem áður staðið sig best íslenskra fjölmiðla í fréttamiðlun og fréttaskýringu. 

Hins vegar hefur "gömlu gufunni" - að ég tali ekki um "gulu pressunni", "hagsmunablöðum íhaldsins" og "áróðursfréttamiðum sýndarmennskunnar" gleymst, að glæpurinn, sem framinn var, gerðist í nýju bankakerfi á Íslandi eftir einkavæðingu Davíðs og Halldórs. Í bankakerfinu er að leita hinna seku. 

Sé morð framið í Bankastræti og lögreglan er við Laugaveg 78, er morðið ekki sök lögreglunni. Hins vegar þarf að rannsaka morðið, finna hinn seka og draga fyrir dóm. 

Að sjálfsögðu má ýmislegt betur fara í löggjöf og stjórnsýslu þessa kalda lands og það vantar nýja stjórnarskrá sem alþýða landsins setur til þess að vekja gömul gildi: heiðarleika og sannsögli og tryggja mannréttindi.


Íslensk umræðuhefð

Í þætti Hallgríms Thorsteinssonar "Í vikulokin" í RÚV í dag urðum við enn einu sinni vitni að brotalöm í íslenskri umræðuhefð. Hver talar upp í annan og enginn hlustar á hinn og menn reyna að slá sig til riddara með strákslegum og öfgakenndum athugasemdum. Þessi umræðuhefð er einn meginvandi þess að geta komist að kjarna máls og fá réttar upplýsingar um menn og málefni.

Íslensk menning - og "fjármálasnilld"

Styrmir Gunnarsson skrifaði um helgina grein í Sunnudags Moggann og fjallar um íslenska menningu og fjármál á Íslandi. Niðurstaða hans er sú, að þótt fjármálasnillin hafi reynst byggð á sandi, sé menningin byggð á traustri þúsund ára arfleifð.

Menningarlíf þjóðarinnar sé frjótt og menningarleg staða sterk. Fjölmennur hópur frábærra tónlistarmanna hafi sprottið upp úr starfi erlendra tónlistarmanna og sú kynslóð leikara, sem nú standi á sviði, hafi fengið afburða menntun. Ef til vill sé gróskan þó mest í myndlist, og þótt við höfum ekki eignast nýtt Nóbelskáld, eigum við fjölmennan hóp rithöfunda sem náð hafi til lesenda í öðrum löndum og fræðimenn okkar standi engum að baki í rannsóknum á sögu og menningu þjóða í heimshluta okkar. Síðan segir Styrmir:

"Nú eigum við að nýta menninguna til að endureisa sjálfstraust okkar, byggja sjálfsmynd okkar upp á nýtt og endurheimta virðingu annarra þjóða. Við eigum að hefja markvissan og skipulegan útflutning á menningu okkar með ýmsum hætti og í ýmsum myndum. Það kostar einhverja peninga og þótt við höfum ekki ráð á miklu höfum við ráð á einhverju. Og þeir eiga að koma úr almannasjóðum." 

Gamli ritstjóri Morgunblaðsins skrifar orðið eins og gamall skólameistari að norðan, sbr. grein mína hér að neðan frá 28. f.m., þar sem lögð er áhersla á menningu þjóðar sem sameningartákn, en menning byggist á landi, tungu og sögu þjóðar - en hluti af sögu þjóðar er menning hennar.

Það eina sem ég vil gera athugasemd við í skrifum hins merka ritstjóra Morgunblaðsins - meðan Morgunblaðið var og hét - er hugmyndin um skipulegan útflutning menningarinnar. Hugmyndin ber keim af fjármálasnilli útrásarvíkinga, en sú "snilli" var heimska, græðgi og þekkingarleysi í þessari röð.

Aftur á móti er sjálfsagt að stuðla að kynningu íslenskrar menningar erlendis á markvissan og skipulegan hátt og leggja til fé úr sameiginlegum sjóðum, eins og við sósíalistar höfum lengi viljað. 

En svo þurfum við að berjast fyrir því að efla frelsi, jafnrétti og bræðralag - og ekki síst endurreisa virðingu stjórnmálamanna, sem eru allt að því eins nauðsynlegir einni þjóð og listamenn. Við getum endurreist virðingu ágætra stjórnmálamanna með því að efna til stjórnlagaþings, sem þjóðin kýs í almennum, persónubundnum kosningum með landið allt sem eitt kjördæmi.


"Dóttir mín á vinkonu" - orð gamals leiðtoga ASÍ

Ásmundur Stefánsson, núverandi bankastjóri LÍ, áður hagfræðingur ASÍ, framkvæmdastjóri og forseti ASÍ, framkvæmdastjóri Íslandsbanka, framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Alþýðubankinn, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Íslands, stundakennari við MH og cand. polit. í hagfræði 1972 frá Kaupmannahafnarháskóla kom í Kastljós í kvöld. 

Það vakti furðu okkar gamalla framsóknarmanna að norðan hversu gamlir byltingarmenn að sunnan eldast illa. Þeir tala ekki lengur um hagsmuni almennings í kerfishruni heimilanna í landinu - alþýðan er ekki nefnd á nafn - heldur tekin dæmi um að dóttir Ásmundar eigi vinkonu sem eigi í erfiðleikum með að flísaleggja gólfið heima hjá sér. Sjálfur segir hann sig ekki muna mikið um að skulda tíu milljónir í húsinu sínu, sem metið er á 300 milljónir króna, eftir að hafa ráðið sjálfan sig bankastjóra LÍ - þá formaður bankaráðs LÍ. Gaman væri að vita hverjar eru ævitekjur þessa gamla alþýðuforingja.

Sighvatur skáld Þórðarsonar frá Apavatni í Grímsnesi, sem  talinn er dauður 1045, fór mikla svaðilför um Svíþjóð fyrir vin sinn Ólaf hinn helga Haraldsson Noregskonung að njósna um óvini konungs.  Gisti hann hjá þeim manni sem kallaður var "besti þegn konungs".  Ekki leist Sighvati skáldi betur en svo á þennan besta mann konungs að hann sagði í vísu einni: Þá er hinn versti illur ef þessi er hinn besti. Held ég þó göllum manna lítið á loft.

Sama segi ég: Þá er hinn versti illur ef þessi er hinn besti. Held ég þó göllum manna lítið á loft. 


Stjórnlagaþing - samfélagssáttmáli

Atburðir undanfarin misseri hafa vakið til umhugsunar um hvað sameini þessa sundruðu þjóð, hver séu gildi samfélagsins og styrkur íslenskrar menningar - og hvort fámenn þjóð, sem eitt sinn var talin búa á mörkum hins byggilega heims, geti staðið auðvaldi heimsins snúning á tímum hnattvæðingar. Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvort starfshættir stjórnmálaflokka og fjölmiðla á Íslandi séu með svipuðum hætti og hjá frændþjóðum okkar, en í ljós hefur komið að siðferði í stjórnmálum og traustir fjölmiðlar skipta sköpum fyrir virkt lýðræði og farsælt stjórnarfar.

Land, þjóð og tunga

Þrennt sameinar þjóð. Í fyrsta lagi landið sem hún byggir. Í öðru lagi sagan og í þriðja lagi tungan sem þjóðin hefur alið af sér. Engin þjóðernishyggja býr að baki þessum orðum heldur eiga þau við allar þjóðir sem ala með sér vitund um að vera þjóð.

Landið, sagan og þjóðin

Lengi virtist Ísland aðeins geta brauðfætt um 50 þúsund manns vegna lélegs verðurfars, lítillar verkmenningar og brogaðs stjórnarfars. Á 18. öld, erfiðustu öld í sögu þjóðarinnar, fækkaði fólki stöðugt. Í upphafi aldar voru landsmenn um 50 þúsund, álíka margir og þeir höfðu verið um 1200. Í Stóru bólu 1706-1709 fækkaði fólki um þriðjung. Urðu Íslendingar þá aðeins um 36 þúsund og hafa aldrei orðið færri í sögu þjóðarinnar. Til samanburðar má nefna að mannfjöldi í Danmörku og Noregi hafði þá þrefaldaðist frá því um 1200. Ísland var á þessum tíma talið á mörkum hins byggilega heims.

Fólksfjölgun er nú meiri á Íslandi en í flestum öðrum löndum Evrópu. Veðurfar hefur batnað, verkkunnátta er sambærileg við verkkunnáttu í nágrannalöndunum og landgæði eru mikil: ósnortin víðerni, auðug fiskimið, orka í fallvötnum og jarðvarma, hreint vatn og hreint loft og stórbrotin og fjölbreytileg náttúra. Ræktun og uppgræðsla hefur tekið algerum stakkaskiptum, skógrækt er orðin atvinnugrein og farið að rækta korn og grænmetisrækt á sér framtíð ef rétt er á haldið. 

Þúsund ár á einni öld

Styrkur íslensku þjóðarinnar felst í fleiru. Á einni öld hefur samfélagið breyst úr einagruðu bændasamfélagi í margskipt þekkingarþjóðfélag í stöðugum tengslum við umheiminn. Menntun er sambærileg menntun nágrannaþjóðanna. Rannsóknir og vísindi hafa stóreflst. Sem dæmi þar um má nefna að 1950 höfðu örfáir tugir Íslendinga lokið doktorsprófi. Nú skipta íslenskir doktorar þúsundum. Heilsugæsla er ekki síðri en í nágrannalöndunum og barnadauði, sem í lok 19. aldar var hæstur á Íslandi allra Evrópulanda, er nú lægstur í heiminum. Þetta sýnir framfarirnar í hnotskurn.

Fyrir rúmri öld var landið dönsk hjálenda. Borgmenning hafði ekki fest rætur og gamalt bændasamfélag var einrátt. Níu af hverjum tíu bjuggu í sveit og þjóðhátíðarárið 1874, þegar Íslendingar fengu danska stjórnarskrá, bjuggu rúmlega tvö þúsund manns í Reykjavík af 70 þúsund íbúum landsins. Nú er Ísland sjálfstætt og fullvalda ríki með trausta innviði, gott heibrigðiskerfi, þjóðin er vel menntun og auðlindir landsins miklar. Því má segja að Ísland hafi ferðast þúsund ár á einni öld.

Tunga, menning og listir

Íslensk tunga er fornlegasta tungumál Evrópu – sem er styrkur því að hvert mannsbarn getur lesið bókmenntir þjóðarinnar í þúsund ár. Auk þess hefur tungan aldrei staðið sterkar. Nýyrðasmíð er öflug og fleiri nota íslenskt mál í daglegu starfi og tómstundum en nokkru sinni. Ritað er um flest þekkingarsvið samtímans á íslensku. Leikritun, ljóðagerð og skáldsagnaritun standa með blóma og nýmæli hafa komið fram í auglýsingagerð og orðanotkun.

Menning og listir blómstra, bæði leiklist, tónlist og myndlist, og staðarmenning vex um allt land og íslensk hönnun vekur athygli. Stjórnvöld og almenningur eru einhuga um málrækt og er síðasta dæmið íslensk málstefna, sem Alþingi samþykkti í mars 2009, en markmið hennar er að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Þetta er styrkur og dýrmæt sameign þjóðar.

Hrunið og hið alþjóðlega auðvald

Í lok 19. aldar var Ísland eitt fátækasta land í Evrópu. Hagtölur ársins 2002 sýna hins vegar að landsframleiðsla á mann var 10% hærri en meðaltal í löndum Evrópusambandsins. En svo kom hrunið. Í ljós kom að velsældin byggðist á svikagróða og blekkinum, sýndarmennsku og gróðafíkn.

Nú er reynt að grafast fyrir um orsakir hrunsins og stjórnvöld leita leiða til bjargar. Reynt er að finna þá sem valdir voru að ósköpunum og gerðust brotlegir við lög – og er skömm þeirra mikil. Már Guðmundsson bankastjóri Seðlabankans segir í Skírnsigrein 2009 að erfitt sé að skilja flókna atburði meðan þeir gerast. Það eigi við um fjármálakreppuna sem tröllriðið hafi heimsbyggðinn, ekki síst vegna þess að áhrifin eru enn ekki komin fram og viðbrögð stjórnvalda í mótun, eins  og hann segir. Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur skrifaði bók um hrunið og rakti atburði frá degi til dags. Það er ljót lesning og bregður upp skuggalegri mynd af fjármálum á Íslandi þar sem fákunnátta og óheilindi einkenna öll viðskipti manna. Eftir lesturinn má efast um að fámenn þjóð geti staðið alþjóðlegu auðvaldi snúning nema til komi meiri þekking, aukinn heiðarleiki, virkara lýðræði og traust stjórn. Og nú er beðið eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Óvarlegt er að blanda sér í umræður um efnahagsmál. Þó virðist krafa hins alþjóðlega auðvalds um 20% arð af fé hljóti að leiða til ófarnaðar. Ekkert fyrirtæki getur skilað slíkum arði nema hagur starfsmanna og annarra sé fyrir borð borinn eins og í löndum þriðja heimsins þar sem enn er stundað arðrán, angi af gömlu nýlendustefnunni. Þetta arðrán - krafa hins alþjóðlega auðvalds um 20% arð var ein meginorsök hrunsins.

Umræðuhefð og stjórnmálasiðferði

Í upphafi var um það spurt hvort starfshættir stjórnmálaflokka og fjölmiðla væru með sama hætti og í nágrannalöndunum. Samanburður á starfsháttum stjórnmálamanna og umræðuhefð í Danmörku og Noregi annars vegar og á Íslandi hins vegar leiðir í ljós mikinn mun. Umræða er þar málefnalegri en hér. Brigslmælgi og stóryrði, sem stjórnmálamenn á Íslandi temja sér, er nær óhugsandi þar. Með slíku græfu stjórnmálamenn á Norðurlöndum sína eigin gröf. Hér eru stóryrði talin merki um djörfung og festu. Þessi umræðuhefð setur svip á störf Alþingis sem iðulega minnir meir á sjónleikahús en löggjafarsamkomu. Umræðuhefðin hefur aukið tortryggni og komið í veg fyrir eðlilegt samstarf – jafnvel á örlagastundu. Má fullyrða að ein ástæða erfiðleika íslensku þjóðarinnar eigi rætur að rekja til sundurlyndis stjórnmálamanna og lélegs stjórnmálasiðferðis og frumstæðrar umræðuhefðar.

Fjölmiðlar

Íslenskir fjölmiðlar hafa lengi verið þess vanmegnugir að brjóta til mergjar og skýra atburði liðandi stundar. Veldur því margt, s.s. fámenni og eignarhald á fjölmiðlum. Sá fréttamiðill, sem ber af og nýtur mests trausts, er fréttastofa RÚV. Er vonandi að breytt skipulag og sparnaður breyti því ekki. Einstaka fréttamenn og blaðamenn eru hins vegar því marki brenndir að vilja frekar vekja athygli – selja fréttir – en upplýsa mál á hlutlægan hátt. Þá hafa einstaka umræðuþættir í sjónvarpi einkennst af yfirheyrsluaðferðinni þar sem stjórnandi reynir að koma höggi á viðmælanda, gera hann tortryggilegan og fella yfir honum dóm. Í stað dómstóls götunnar – kjaftagangsins – er því kominn dómstóll fjölmiðla. Af þeim sökum hafa iðulega ekki fengist svör við mikilsverðum spurningum og almenningur situr eftir ringlaður með óbragð í munninum. Í Danmörku og Noregi leita þáttastjórnendur svara á hlutlægan hátt og fella ekki dóma – heldur er hlustendum látið eftir að draga ályktanir.

Frumstæð umræðuhefð

Ástæður frumstæðrar umræðuhefðar hér eru margar. Borgmenning hefur ekki fest rætur með þeirri tillitssemi og persónulegu fjarlægð sem einkennir slíka menningu. Fámenni veldur því einnig að úrval fréttamanna er minna, allir þykjast þekkja alla og návígið nálgast stundum hreinan dónaskap. Stéttskipting og agi hafa einnig verið með öðrum hætti en í flestum Evrópulöndum og enn eimir eftir af agaleysi bændasamfélagsins.

Yfirveguð umræða er grundvallarþáttur í lýðræðislegri endurreisn og aukinni samfélagsmenningu á Íslandi. Þar gegna fjölmiðlar mikilsverðu hlutverki - ásamt skólunum.

Samfélagssáttmáli

Íslensk þjóð hefur áður gengið gegnum erfiðleika og sigrast á þeim. Það mun hún einnig gera nú með dugnaði og samstöðu og á grundvelli dýrmætra sameigna sinna – lands, sögu og tungu en einnig með aukinni menntun og mikilla náttúruauðlinda. Samhliða endurreisn efnahagslífs verður að fara pólitísk endurreisn: aukin mannvirðing og jafnrétti á öllum sviðum, meira gagnsæi, betri upplýsingar, bætt siðferði í stjórnmálum, aukinn heiðarleiki í viðskiptum og fjármálum - og bætt umræðuhefð.

Til að stuðla að þessu þarf að efna til sjálfstæðs stjórnlagaþings - stjórnlagaþings þjóðarinnar sem kosið yrði í almennum kosningum með landið sem eitt kjördæmi. Sjálfstætt stjórnlagaþing og ný stjórnarskrá geta sameinað sundraða þjóð, lægt öldur og vakið von – og ekki síst aukið traust á Alþingi, stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum. Ný stjórnarskrá gæti því orðið samfélagssáttmáli í kjölfar mesta áfalls í sögu íslenska lýðveldisins. 


Íslensk umræðuhefð

Í kvöld horfði ég á KASTLJÓS þar sem alþingiskonurnar Ólína Þorvarðardóttir og Vigdís Hauksdóttir áttu að ræðast við um stöðu ríkisstjórnar og þjóðmál undir stjórn Þórhalls frá Kópaskeri. Ekki bættu konurnar og linmælti maðurinn að norðan íslenska umræðuheft, heldur voru þau trú hanaati sem hófst með nautaati Hannesar Hólmsteins og Marðar Árnasonar í árdaga svokallaðra umræðuþátta í íslenskum fjölmiðlum og töluðu lengst af öll í einu. Hvenær læra íslenskir stjórnmálamenn að talast við - og hvenær tekst RÚV að efna til umræðuþátta sem skipta máli? Spyr sá sem ekki veit.

Farsi í Þjóðleikhúsinu

Í kvöld sá ég uppfærslu Þjóðleikhússins á Gerplu í leikstjórn Baltasar Kormáks, Ólafs Egils Egilssonar og leikhópsins.  Þetta var sorgleg sjón. Hér er ekki um að ræða Gerplu HKL og því síður Fóstbræðrasögu heldur moðsuðu leikstjóranna og leikhópsins sem leggja meiri áherslu á brellur og skrípislæti en texta - að ekki sé talað um boðskap.

Í hléi ræddi ég við nokkur ungmenni sem sögðust ekki hafa lesið Gerplu og heldur ekki Fóstbræðrasögu og sögðust ekkert skilja í þessu verki og sýningin væri hundleiðinleg. 

Hver tími hefur sinn stíl og hver kynslóð sín viðhorf. Ef til vill er réttlætanlegt að færa bókmenntaverk og leikverk í nýjan búning og beita leikbrögðum sem eru ný af nálinni og nýstárleg, en slíkt verður að þjóna einhverjum tilgangi - þjóna verkinu.

Þessi sýning Þjóðleikhússins var hins vegar í mínum augum farsi, að vísu allvel gerður farsi af því að margir leikendur skiluðu verki sínu vel, þótt í ljós kæmi það sem sífellt er að verða meira áberandi, að ungir leikarar ráða illa við texta - skilja ekki textann - og framsögn þeirra er stórlega ábótavant.


Heimspeki - skýr hugsun

Í kvöld, mánudagskvöld, hlustaði ég á upptöku á Silfri Egils frá því á sunnudag. M.a. hlustaði ég á Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki við Háskólann í Bifröst. Framsetning hans og tal var að mínum dómi öfgafullt og mótsagnakennt svo nokkrum undrum sætir af hans hálfu. Er mér illskiljanlegt hvers vegna heimspekingur flytur mál sitt með þessum hætti, en heimspekingar eiga að mínum dómi að vera yfirvegaðir og tala skýrt - af því að þeir hugsa skýrt.

Heimspekingurinn gerði m.a. lítið úr andófi gegn því óréttlæti sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar telja að felist í kröfu um að íslenskur almenningur skuli greiða Bretum og Hollendingum útlagðan kostnað vegna ICESAVE. Kallaði hann þetta andóf þjóðvarnarhyggju eða þjóðvörn sem bæri vott um einangrunarhyggju, vorkunnsemi og undarlegan grátkór. Í næsta orði segir hann svo að einangrunarhyggja Íslendinga væri skiljanleg og vel kynni að vera að Íslendingar hefðu verið hlunnfarnir og illa með þá farið. Má þá ekki mótmæla þeirri meðferð! 

Þá talaði hann um gildishlaðna umræðu, sem hefði verið horfin úr þjóðfélaginu, fjandskaparumræðu, þar sem því væri m.a. haldið fram að viss öfl í þjóðfélaginu væru meðvitað að vinna gegna hagsmunum þjóðarinnar. Með þessu væri verið að saka fólk um mjög alvarlega hluti.

Í næsta orði segir heimspekingurinn svo, að það valdi sér vonbrigðum og áhyggjum þegar öfl lengst til vinstri og lengst til hægri læsi sig saman og berjist fyrir sameiginlegu máli. Þá sé eitthvað undarlegt á ferðinni. Með þessu er heimspekingurinn að saka fólk - lengst til hægri og lengst til vinstri - um alvarlega hluti. Það vekur einnig nokkra furðu að heimspekingurinn skulu ekki þekkja dæmi um það úr sögu þjóðarinnar eða heimssögunni, sem hann vitnaði gjarna til, að andstæð öfl hafa staðið saman þegar ógn eða hætta steðjaði að. 

Til þess að taka þriðja dæmið um mótsögn í málflutningi Jóns Ólafssonar, má nefna að hann líkti þjóðaratkvæðagreiðslunni við kosningar í einræðisríkjum þar sem aðeins væri um einn flokk að velja, þjóðaratkvæðagreiðslan hefði ekki verið lýðræðisleg auk þess sem hún skýrði ekki neitt. Þessi orð heimspekingsins hljóma að vísu undarlega líkt og orð fjármálaráðherra á dögunum um hina sömu þjóðaratkvæðagreiðslu.

En það verð ég að segja þessum tveimur góðu drengjum, að sjaldan hefur verið skýrara í kosningum á Íslandi, að um tvo ólíka kosti var að velja: láta lög halda gildi sínu eða fella þau úr gildi - og að þjóðaratkvæðagreiðslan leysti margan vanda. Það má svo hugsanlega velta því fyrir sér á heimspekilegan, hlutlægan og yfirvegaðan hátt, hvers vegna tveir þriðju hlutar þjóðarinnar sögðu nei. En ef þjóðaratkvæðagreiðsla, sem á sér stoð í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, er orðin ólýðræðisleg, er farið að snúa flestum hlutum á haus og menn ættu að reyna að rétta sig af.

Í lok máls síns sagði Jón Ólafsson, að "heimspeki væri andóf gegn ríkjandi öflum" og þá heimspeki vildi hann stunda. Með þeim rökum hans má segja að þjóðvörn eða þjóðvarnarhyggjan, sem m.a. kom fram í afstöðu almennings í þjóðaratkvæðagreiðslunni, sé heimspeki - einmitt sú heimspeki sem hann vill stunda. 


Þekking og réttsýni

Gaman er að verða vitni að því í spurningakeppni framhaldsskólanna í "sjónvarpi allra landsmanna" hversu margt skólanemendur vita um einskisverða hluti. Það bókstaflega stendur upp úr þeim bunan.

Forðum daga var sagt, að stúdent væri sá sem vissi ekkert um allt, en fræðimaður sá sem vissi allt um ekkert. Þetta hefur sannast í spurningakeppni framhaldsskólanna og í umræðum undanfarinna mánaða. Almenningur virðist vita allt um ekkert og ráðgjafar þjóðarinnar virðast vita allt um ekkert - en enginn virðist vita muninn á réttu og röngu.

Hins vegar sýnist mér sem gömlum skólameistara, gömlum stúdent og starfandi fræðimanni, að þörf sé á því að fræðimenn, stúdentar og almenningur læri að þekkja hvað er rétt og rangt. Því held ég sjónvarpið og skólar landsmanna - frá leikskólum til háskóla - ættu að hætta spurningarugli um einskisverða hluti og taka upp fræðslu, greiningu og beina kennslu um muninn á réttu og röngu. Þegar öllu er á botninn hvolft er það sú þekking sem máli skiptir. Ef þjóðin hefði vitað mun á réttu og röngu, stæðum við ekki frammi fyrir svikum og blekkingum sem við megum nú horfa upp á og er því miður enn ekki lokið.    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband