Færsluflokkur: Bloggar
17.2.2013 | 17:38
Hraðfréttamenn
![]() |
Okkur fannst hann eiga prentara skilið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.1.2013 | 11:38
Að heilsast og kveðjast
Páll J. Árdal frá Helgastöðum í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði, gagnfræðingur frá Möðruvöllum 1882 og skólastjóri Barnaskóla Akureyrar 1884 til 1901, var gott skáld og orti meðal annars hina alþekktu stöku:
Að hryggjast og gleðjast
hér um fáa daga,
að heilsast og kveðjast,
það er lífsins saga.
Stökuna nefndi hann Sögu lífsins. Saga lífsins er sannarlega að hryggjast og gleðjast, heilsast og kveðjast hér um fáa daga og er hugsunin svipuð og í hinu gamla íslenska orðtaki: "Enginn ræður sínum næturstað." Að sínu leyti er hugsunin um hverfulleik lífsins einnig hin sama og í þjóðvísunni Góða veislu gjöra skal þar sem segir:
Góða veislu gjöra skal,
þá geng ég í dans,
kveð ég um kóng Pípin
og Ólöfu dóttur hans.
Stígum fastar á fjöl.
Spörum ei vorn skó.
Guð mun ráða hvar við dönsum næstu jól.
Í kvæði sínu Einræðum Starkaðar segir Einar Benediktsson: Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Það skiptir því máli í hverfulleika lífsins að hafa aðgát í nærveru sálar og þá einnig hvernig við heilsumst og kveðjumst, en með kveðjuorðum okkar eins og raunar öllum orðum okkar höfum við áhrif á annað fólk.
Sögð er saga af erlendum ferðamanni sem kom til Íslands um miðja 19du öld og hreifst að því, hvernig þessi fátækasta þjóð í Evrópu heilsaði og kvaddi með fallegum kveðjuorðum eins og: Komdu blessaður og sæll eða: Vertu sæl og blessuð og guð veri með þér en slík kveðjuorð eru afar mörg í íslensku.
Á auglýsingu Coca-Cola frá árinu 1943, fallegri vatnslitamynd af bandarískum hermanni og íslenskum fiskimanni sem brosa hvor til annars um leið og þeir lyfta flösku af töfradrykknum, stendur: Have a Coca-Cola = Come, be blessed and be happy or how to break the ice in Iceland, sem er eins konar þýðing á kveðjuorðunum: Komdu blessaður og sæll, enda undruðust bandarísku hermennirnir á Íslandi falleg kveðjuorð Íslendinga eins og ferðamaðurinn einni öld áður.
Stuðmenn sungu líka í lagi sínu Ofboðslega frægur: Hann sagði: Komdu sæll og blessaður á plötunni Hve glöð er vor æska frá árinu 1990 en bættu svo við: Ég hélt ég myndi fríka út.
Við íhaldsamir málræktarmenn erum líka að fríka út, þegar við verðum vitni að því dag hvern að meirihluti þjóðarinnar, jafnvel miðaldra fólk svo ég segi ekki gamalt fólk heilsast orðið með því að segja: Hæ og kveður með því að segja: OK, bæ.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.1.2013 | 18:01
Hlutverk forseta Íslands
Enn einu sinni er ástæða til þess að ræða hlutverk forseta Íslands í fortið, nútíð og framtíð, því að enn einu sinni hefur Ólafur Ragnar blandað sér á óviðeigandi hátt í stjórnmáladeilur samtímans.
Eins og oft áður hefur höfundur þessara orða hlustað á áramótaræður Margrétar Danadrottningar og Haralds Noregskonungs, en frá Noregi og Danmörku var Íslandi stjórnað í 656 ár hálfa sjöundu öld og engum þjóðum erum við Íslendingar skyldari.
Megináhersla í orðum þessara tveggja þjóðhöfðingja um nýliðin áramót var lögð á það sem sameinaði þjóðirnar. Bæði Margrét Danadrottning og Haraldur Noregskonungur lögðu áherslu, hversu mikilsvert það væri að hefja sig yfir deilumál samtímans og Haraldur Noregskonungur sagði:
Það - að þroska bestu eiginleika sína er sérstaklega mikilsvert fyrir þá sem gegna forystuhlutverki í samfélaginu þannig að valdið sé notað til hagsbóta fyrir samfélagið allt. Bæði innan stjórnmálanna og í atvinnulífi, rannsóknum, umhverfismálum og fjölmiðlum stöndum við andspænis miklum áskorunum.
Við þurfum á vitrum leiðtogum að halda sem hafa getu til þess að hugsa langt fram í tímann og geta ráðið við áskoranir. Það er erfitt að taka ákvarðanir sem bera árangur inni í framtíðinni og ekki er auðvelt að mæla. En það eru hyggindi sem við þurfum á að halda, leiðtogar sem starfa í þeirri trú að góðar ákvarðanir borgi sig þegar til lengdar lætur.
Ólafi Ragnari var ólíkt farið. Hann lagði áherslu á deilurnar í þjóðfélaginu:
Því er miður að nú um áramótin blasir við að umræðan um nýja stjórnarskrá er á ýmsan hátt komin í öngstræti. Í stað samstöðu um sáttmálann geisa djúpstæðar deilur og virtir fræðimenn við háskóla landsins hafa áréttað að margt sé óskýrt og flókið í tillögunum.
Daginn áður hafði Ólafur Ragnar lagt fram bókun á fundi ríkisráðs. Kom þar til deilna og orðaskipta í kjölfar bókunarinnar. Engar heimildir eru um að áður hafi komið til orðaskipta í ríkisráði í nær 70 ára sögu lýðveldisins.
Í áramótaávarpinu gerði Ólafur Ragnar tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnskrá að sérstöku umræðuefni, einkum tillögur um að ríkisráð verði lagt niður. Taldi hann ríkisráð væri vettvangur fyrir samráð þjóðhöfðingja og ríkisstjórnar. Guðni Th. Jóhannesson segir, að ríkisráð hafi aldrei verið samráðsvettvangur, eins og Ólafur Ragnar vill vera láta.
Einnig má benda á, að ríkisráð er arfleifð frá konungsríkjunum Noregi og Danmörku og ef til vill óþarft með öllu. Þá hafa fræðimenn bent á, að Ólafur Ranar sé vanhæfur að ræða um nýja stjórnarskrá sem felur í sér leikreglur fyrir forseta og alþingismenn.
En hvernig sem allt veltist, er eitt víst: Hlutverk forseta Íslands er að vera sameiningartákn og koma fram fyrir hönd íslensku þjóðarinnar allrar án undirmála. Það gerðu fyrri forsetar. Þeir voru hafnir yfir flokkadrætti sem vitrir, víðsýnir og umburðarlyndur þjóðhöfðingjar en lögðu sig ekki fram um að stuðla að sundrungu og átökum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.11.2012 | 11:23
Íslenskir stjórnmálamenn alltaf að rífast
Fróðlegt var að hlusta á Göran Persson, fyrrum, forsætisráðherra Svía, ræða íslensk stjórnmál á dögunum. Það sem hann lagði mesta áherslu á til þess að komast út úr fjárhags- og hugmyndakreppu íslenskrar örþjóðar, var að íslenskir stjórnmálamenn sýndu samstöðu og ynnu saman þar til varanlegur árangur næðist. Síðan gætu þeir farið að takast á rífast.
Það eru gömul sannindi að sameinaðir sigrum vér, sundraðir föllum vér eða eins og rómverski sagnaritarinn Sallustius orðaði það fyrir 2000 árum: Concordia parvae res, discordia maximae dilabuntur. Samstaða virðist hins vegar ekki vera ein af gáfum þessarar undarlegu þjóðar. Sumir þingmenn eru heldur ekki þingtækir eru ekki færir um að talast við á mannamótum, heldur nota þeir sjóðabúðatal og vinnukonukjaft, sem hugsanlega getur verið gott og gilt norður í Ólafsfirði eða austur í Flóa en ekki á Alþingi.
Eftirtektarvert er einnig að sumir fréttamenn veita þessum strigakjöftum meira rúm í umfjöllun sinni en þeim fjölmörgu alþingisþingmönnum sem reyna að leggja gott til málanna. Það þykir sennilega ekki kúl í fréttum þar sem alltaf er verið að leita að fréttinni um manninn sem beit hundinn. Þá er það einnig umhugsunarvert að formenn stjórnmálaflokkanna láta sitt ekki eftir liggja í svigurmælum, hvort heldur um er að ræða Bjarna Benediktsson, Steingrím Jóhann eða Sigmund Davíð það er helst Jóhanna Sigurðardóttir sem talar af setningi, en Össur Skarphéðinsson bætir það þá upp.
Einnig er eftirtektarvert að gamlir stjórnmálamenn, sem ættu að geta litið af yfirvegun um farinn veg og gefið góð ráð, þenja sig með stóryrðum. Fer ritstjóri Morgunblaðsins þar fremstur í flokki, enda orðvís maður, en sama er að segja um Halldór Blöndal og Þorstein Pálsson, sem þó ættu að geta miðlað af þekkingu sinni. Ég tala ekki um Sighvat Björgvinsson sem enn verður sér til skammar í stjórnmálaumræðu eins og hann byrjaði með ungur á Alþingi 1976 þegar hann sakaði Ólaf Jóhannesson dómsmálaráðherra um að hefta rannsókn í morðmáli.
Þess hefur verið getið til, að við Íslendingar værum svona orðhvatir vegna þess að við erum komnir af Agli Skallagrímssyni og öðrum ribböldum sem flýðu nýtt þjóðfélagsskipulag og reglu sem Haraldur hárfagri Hálfdanarson svarta vildi koma á í Noregi. Einnig benda fróðir menn á að yfirgangur hafi fylgt okkur frá því Sturlungaöld þegar bræður bárust á banaspjót.
Ekkert af þessu er ekki næg skýring, þótt vera kunni hluti af skýringunni. Miklu fremur mætti segja að við gerum okkur ekki grein fyrir, hvað hæfir í samskiptum siðmenntaðs fólks, enda hafa útlendingar, sem hingað koma, undrast framkomu okkar. Hér er helst um að kenna þekkingarleysi á góðum siðum, fávísi og menntunarleysi.
Því bind ég vonir við að nýtt fólk og betur menntað og betur siðað sem er að hasla sér völl í stjórnmálum á Íslandi, taki upp aðra siði og sameinist um að sýna samstöðu en ali ekki á sundrungu. Þar bind ég vonir við stjórnmálaleiðtoga eins og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur. Hún flutti með sér nýtt viðhorf í borgarstjórn og gerir það án efa í landsstjórninni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.11.2012 | 17:44
Ný hugsun - Nýtt Ísland
Margt bendir til þess að ný kynslóð sé að kveðja sér hljóðs í stjórnmálum á Íslandi, bæði í gamla fjórflokkunum og nýjum flokkum eða framboðum, sem hafa hætt sér út á vígvöllinn, þar sem flestir verða sárir, allir ákaflega móðir og margur góður maður, karl eða kona, fer þaðan kalinn á hjarta, eins og Grímur Thomsen segir í kvæði sínu Á Glæsivöllum þar sem hann lýsir stjórnmálalífi á 19du öld. Kvæðið kallar hann Á Glæsivöllum. Þar er ekki allt sem sýnist, þrátt fyrir glæsileikann:
Hjá Goðmundi á Glæsivöllum gleði er í höll,
glymja hlátrasköll,
og trúðar og leikarar leika þar um völl,
en lítt er af setningi slegið.
Á Glæsivöllum aldrei
með ýtum er fátt,
allt er kátt og dátt,
en bróðernið er flátt mjög og gamanið er grátt,
í góðsemi vegur þar hver annan.
Náköld er Hemra,
því Niflheimi frá
nöpur sprettur á.
En kaldara und rifjum er konungsmönnum hjá,
kalinn á hjarta þaðan slapp ég.
Lýsing Gríms, bónda á Bessastöðum, getur vel átt við stjórnmálalíf á Íslandi undanfarna áratugi, eins og skrif Björns Bjarnasonar, Davíðs Oddssonar, Styrmis Gunnarssonar, Svavars Gestsonar - að ekki sé talað reiðilestra Sighvats Björgvinssonari - bera með sér. Allir virðast þeir að vísu hafa sloppið lifandi úr þessu ríki handan Hemru, fljótinu sem skilur á milli ríkis hinna lifandi og hinna dauðu, Niflheimi, en allir koma þeir aftur til mannheima með kalið hjarta.
Vonandi er að unga fólkið, sem nú kveður sér hljóðs í stjórnmálum á Íslandi, getið sloppið við hjartakuldann. Mikilsverðast í því sambandi er að nýir stjórnmálamenn geti talað saman, bróðernið verði ekki flátt og gamanið ekki grátt, heldur tali fólk saman, hlusti á andstæðinginn eins og segir í Hávamálum: tala þarft eða þegja, eða eins og Rómverjar hinir fornu höfðu að orði á blómaskeiði sínu: Audiatur et altera pars - hlustið einnig á hinn aðilann. Ef stjórnmálamenn á Íslandi hlusta á hinn aðilann og reyna að læra hver af öðrum- er von til þess að hilli undir nýtt Ísland.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.11.2012 | 23:40
Sjálfhverfur er Sighvatur
Eins og áður er kynlegt að lesa skrif Sighvats Björgvinssonar. Í grein í Fréttablaðinu daginn fyrir friðardaginn ræðst hann með skömmum að fólki á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 35 til 45 ára og kallar það sjálfhverfustu kynslóð á Íslandi, sem tali ekki um annað en sjálft sig og sagðist fyrir hrunið bera lagt af jafnöldrum sínum á Norðurlöndunum, taldi sig geta kennt öðrum þjóðum og ól af sér útrásarvíkingana, keypti þekktustu vörumerki Norður Evrópu og vínræktarhéruð í Suður Evrópu, turna í Macao og notaði gullduft sem útálát á steikurnar í Róm enda komið á vanskilaskrá fyrir hrun af því að lifa um langt efni fram, tók lán í öðrum gjaldmiðlum en hún hafði tekjur í og segir fall íslensku krónunnar forsendubrest. Þessi kynslóð sér ekkert fréttnæmt í því að hópur gamalmenna hafi tapað aleigu sinni við að reyna að tryggja sér verndarskjól í ellinni með viðskiptum sínum við Eir.
Ekki veit ég hvað fyrir fyrrum formanni jafnaðarmannaflokks Íslands, gömlum alþingismanni og ráðherra gengur til að hella úr skálum reiði sinnar yfir fólk á höfuðborgarsvæðinu á aldrinum 35 til 45 ára, uppnefna það, alhæfa og fella sleggjudóma. Gamli jafnaðarmaðurinn kórónar síðan skömm sína með grein í Fréttablaðinu í dag, 13da nóvember árið 2012, og dregur þá ályktun, að af því til eru fleiri ofstækismenn en hann jafnvel sex þúsund hafi hann sagt satt og stefið í drápu hans er: Ekki lýg ég.
En nú er komið í ljós að Sighvatur sagði ekki satt hann laug, ef til vill ekki vísvitandi heldur af þekkingarleysi og ofstæki sem hæfir ekki manni á áttræðisaldri. Í nýjustu neyslu- og lífsstílskönnun Capacent kemur nefnilega fram að hópurinn 35-45 ára er ekki sjálfhverfasti hópurinn, eins og hann heldur fram. Fyrirtækið Auglýsingamiðlun hefur unnið úr könnun Capasent þar sem kemur í ljós að hópurinn 18-29 er mun sjálfhverfari, þ.e.a.s. eyðir meiru. Í könnuninni kemur einnig í ljós að sjálfhverfa en hér er átt eyðslusemi fer almennt minnkandi eftir því sem fólk eldist, þótt undantekningar séu á og til séu gamlir menn sem gleyma engu og læri ekkert, eins og sagt er um heimska fíla. Og þá er að ráðast á hópinn 18-29 ára - það er sjálfshverfa kynslóðin.
Hins vegar vil ég sem gamall barnakennari að norðan benda á, að orðið sjálfhverfur er nýyrði sem Sigurður Guðmundsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, bjó til um það sem á dönsku er nefnt egocentrisk og á ensku egocentric og merkir sjálfselskur, eigingjarn en einnig maður sem beinir athyglinni um of að eigin tilfinningum eða gerir sig að mælikvarða allra hluta. (Ensk-íslensk orðabók með alfræðilegu ívafi 1999:311)
Bloggar | Breytt 14.11.2012 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2012 | 12:10
Ný stjórnarskrá - nýtt Ísland
Í dag greiðir þjóðin atkvæði í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem ráðið afhenti forseta Alþingis fyrir ári. Í kjölfar Þjóðfundar 2010 og áratuga umræðu um endurbætur á lýðveldisstjórnarskránni og kröfu um aukið jafnræði mun Alþingi móta stjórnarskrá sem borin verður undir þjóðina. Íhaldsöflin í landinu munu ekki geta stöðvað þá framþróun.
Frá stofnun lýðveldis hefur átt að endurskoða stjórnarskrána frá 1944, sem að meginstofni er þýðing á DANMARKS RIGES GRUNDLOV af 5. Juni 1915 med ændringer af 10. September 1920 ekki aðeins lappa upp á hana, eins og gert hefur verið sjö sinnum heldur semja algerlega nýja stjórnarskrá.
Við hrunið 2008, sem á sér enga hliðstæðu í 65 ára sögu lýðveldisins, töldu margir að nú væri tími kominn til að endurskoða stjórnarskrána, ekki vegna þess að danska stjórnskráin væri orsök hrunsins, heldur til að marka nýja stefnu. Í ljós hafði komið glæpsamleg spilling í efnahagslífi og stjórnmálum landsins, spilling sem á sér ekki hliðstæðu með nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum.
Sundurlyndi stjórnmálaflokka, sem eru sjálfum sér sundurþykkir, og fyrirlitning stjórnmálamanna - svo ekki sé sagt hatur þeirra hver á öðrum - hefur kynt ófriðarbál og tafið endurbætur á stjórnkerfi landsins.
Enn ríkir sundrung í þjóðfélaginu, tortryggni, reiði, vonleysi og vonbrigði. Frumstæð umræða á opinberum vettvangi um ágreiningsmál og þá ekki síst frumstæð ómálefnaleg umræða á Alþingi gerir þinginu ókleift að ráða fram úr aðkallandi verkefnum.
Með nýrri stjórnarskrá, sem verður sáttmáli meirihluta þjóðarinnar, má vænta þess að unnt sé að auka ábyrgð stjórnvalda, tryggja raunverulega þrískiptingu valds og endurreisa traust almennings á Alþingi, ríkisstjórn og dómstólum.
Bloggar | Breytt 14.11.2012 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.9.2012 | 22:41
Heimsþorpið, Ísland og íslensk tunga
Á einni öld hefur íslenskt þjóðfélag breyst úr einföldu, einangruðu þjóðfélagi bænda og sjómanna í ógagnsætt og margskipt þjóðfélag í stöðugum tengslum við umheiminn. Fyrir 100 árum var einn framhaldsskóli á landinu með 100 nemendur og fámennur, vanbúinn háskóli að stíga sín fyrstu spor. Nú eru framhaldsskólar 37 með um 30 þúsund nemendur og sjö háskólar og nemendur nær 20 þúsund.
Fyrir einni öld höfðu innan við 30 Íslendingar lokið doktorsprófi. Nú skipta íslenskir doktorar nær fjórum þúsundum. Verkkunnátta, sem breyttist lítið í 1100 ár, er orðin svipuð og annars staðar í Evrópu og grunnrannsóknir stundaðar á fjölmörgum sviðum. Menntun Íslendinga hefur því aukist mikið á einni öld og er sambærileg menntun nágrannaþjóðanna. Það e.t.v. segir þó mest um breytingar á samfélaginu, er sú staðreynd, að fyrir einni öld var barnadauði mestur á Íslandi allra Evrópulanda. Nú er hann minnstur á Íslandi í öllum heiminum.
Því má segja að íslenskt samfélag hafi ferðast þúsund ár á einni öld og breyst meira en flest önnur samfélög í Evrópu. Hins vegar hefur íslensk tunga breyst minna en aðrar tungur. En hvers vegna hefur íslenska breyst minna en önnur tungumál þegar íslenskt samfélag hefur breyst meira en önnur samfélög í Evrópu? Viðhorf samfélagsins ræður miklu um breytingar á tungumáli, þótt fleira komi til, s.s. lega lands og gerð þjóðfélagsins. Þá hefur samhengi í bókmenntum áhrif á tungumál, en styrkur íslenskunnar er m.a. fólgin í því að við getum lesið bókmenntir þjóðarinnar í þúsund ár og það gerir engin önnur þjóð í Evrópu. Sterk vitund um þjóðerni hefur einnig einkennt Íslendinga og þótt ekki sé í tísku að gerast formælandi þjóðernisvitundar, verður því ekki móti mælt, að vitundin um upphaf sitt er ein sterkasta kennd mannsins og á lítið skylt við þjóðernisstefnu öfgamanna.
Nú virðist breyting vera að verða á viðhorfi til tungumálsins og til vitundarinnar um upphaf sitt. Ákveðinn hópur fólks talar gjarna um heimsþorpið og hið alþjóðalega samfélag, þótt átök, yfirgangur og ofbeldi einkenni flest lönd og þjóðir berist á banaspjót. Hugtakið heimsþorp er því nokkurt öfugmæli. Þessi hópur "heimsborgara" leggur litla áherslu á vandað mál, ræður jafnvel illa við flóknar beygingar, föst orðasambönd og orðatiltæki, en slettir erlendum orðum einkum enskum orðum. Þá er minni áhersla lögð á málrækt og málvöndun af hálfu hins opinbera, m.a. í Ríkisútvarpinu, þar sem þrístrikaðar villur koma fyrir á hverjum degi og enginn þáttur um daglegt mál eða íslenskt mál hefur verið á dagskrá í þessu musteri íslenskrar tungu um árabil. Einnig má nefna að gerð er minni krafa um íslenskukunnáttu kennara sem er áhyggjuefni, því að allir kennarar eru íslenskukennarar.
Þegar allt kemur í einn stað, er því sennilegt, að á næstu áratugum breytist íslenska verulega og til verði stéttamállýskur annars vegar mál þeirra sem vilja og geta vandað mál sitt og hins vegar mál þeirra sem hvorki vilja það né geta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.9.2012 | 09:09
Frá vöggu til grafar
Ráðstefna Hollvinasamtaka líknardeilda um notendamiðað heilbrigðiskerfi vill knýja Alþingi til þess að koma á notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi sem mótað er í samráði við sjúka, aldraða og deyjandi.
Evrópudeild Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar WHO hefur mótað nýja stefnu í heilbrigðisþjónustu, nefnd er Health 2020. Ástæðan er krafa um aukin áhrif sjúklinga og aðstandenda þeirra á heilbrigðisþjónustu. Einnig má nefna hærri lífaldur, áhrif mengunar og umhverfis á heilsufar, breytingar á búsetu, efnahagslega mismunun og minna fjármagn til heilbrigðisþjónustu í kjölfar óreiðu í fjármálaheiminum. Þá hafa framfarir í tækni aukið kostnað við heilbrigðisþjónustu en jafnframt opnað nýjar leiðir til að samþætta ólíkar greinar og auka samstarf stofnana og spara fé á þann hátt. Með aukinni menntun hefur verið gerð krafa um gagnsæi í heilbrigðiskerfisinu og aukin áhrif almennings á mótun og rekstur heilbrigðisstofnana.
Í stefnu WHO er lögð áhersla á, að unnið verði að samræmdum aðgerðum og sameiginlegri stefnu með það að markmiði að styrkja heilbrigðisþjónustu landanna í þessum anda og blása lífi í starf heilbrigðisstofnana í samráði við almenning.
Í samræmi við stefnu WHO og tók áætlun um nýtt heilbrigðiskerfi gildi í Noregi í upphafi þessa ára í kjölfar laga norska Stórþingsins frá því í júní í fyrra. Áætlunin er nefnd Samhandlingsreformen samstarfsáætlun um endurbætur í heilbrigðiskerfinu. Með lögunum er almenn heilbrigðisþjónusta og umönnun aldraðra og deyjandi sameinuð undir eina stjórn og lögð áhersla á forvarnir í stað lagfæringa, lækningu strax en ekki þegar allt er komið í eindaga og mælt fyrir um aukið samstarf heilbrigðisstofnana. Þá er stefnt að því að færa heilbrigðisþjónustu nær fólkinu og auka samstarf sérhæfðra þjónustustofnana. Einnig eru fleiri verkefni fengin sveitarfélögum og áhrif sjúklinga og aðstandenda þeirra aukin: bedre for pasientene - sterkere brukermedvirkning, eins og það er orðað.
Í október efna Danir til ráðstefnu í Kaupmannahöfn í samræmi við þessa stefnu WHO. Þar verður fjallað um þátttöku notenda í heilbrigðiskerfinu undir heitinu Brugerinddragelse i sundhedsvæsenet sem felur í sér, að notendur verði kallaðir til áhrifa - eða notendamiðað heilbrigðiskerfi. Eitt meginþema ráðstefnunnar er þátttaka og stuðningur aðstandenda sjúklinga og bent á, að aðstoð og virk þátttaka sjúklinga og aðstandenda þeirra sé einn mikilsverðasti þáttur í lækningu og meðhöndlun sjúkra og aldraðra.
Hollvinasamtök líknardeilda standa fyrir ráðstefnu á Grand Hótel Reykjavík á morgun, 24. september, undir heitinu Frá vöggu til grafar. Með ráðstefnunni vilja samtökin knýja Alþingi til að koma á notendamiðuðu heilbrigðis- og velferðarkerfi, mótað er í samráði við sjúka, aldraða og deyjandi og aðstandendur þeirra.
Gerð er krafa um að Alþingi setji lög um heildarstefnu í heilbrigðismálum með tilliti til þarfa notenda á grundvelli samráðs við sjúka og aldraða og aðstandendur þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2012 | 14:17
Hugsunin og tungumálið
Eitt af undrum sköpunarverksins er hugsun mannsins. Í kvæði eftir enska skáldið Shelley [d 1822] segir, að tungumálið hafi skapað hugsunina (Speech created thought). Undir þau orð má taka. Mannleg hugsun er óskiljanleg manninum, þótt í því kunni að felast mótsögn, en hugsunin er bæði margþætt og margslungin.
Í fyrsta lagi má nefna hina skapandi hugsun, sem er undirstaða í listum, mannskilningi og mannúð. Sumir halda því fram, að þar sem í Biblíunni er talað um að guð hafi skapað manninn í sinni mynd, sé átt við hugsunina. Það sé hugsunin, sem mannskepnan og guð eigi sameiginlegt og geri mannskepnuna líka guði. Í öðru lagi má nefna hina gagnrýnu hugsun, sem er undirstaða þroska og skilnings.
Í þriðja lagi má nefna hugsunina sem býr að baki tungumálinu. Haft er eftir franska stjórnmálamanninum Charles-Maurice de Talleyrand [d 1838], að málið hafi verið gefið manninum til þess að leyna hugsun sinni (La parole a été donnée à lomme pour désguiser sa pensé). Þessi hugmynd kemur raunar fyrir miklu fyrr og er rakin til gríska heimspekingsins Plútarkosar [d um 120] þar sem hann segirað flestir Sófistar noti orðræður sínar til þess að breiða yfir hugsanir sínar. Þetta getur enn átt við bæði heimspekinga og stjórnmálamenn og hugsanlega fleiri.
Danski heimspekingurinn Søren Kierkegaard [d 1854] segir hins vegar að maðurinn virðist ekki hafa hlotið málið til að leyna hugsun sinni heldur til þess að leyna því að hann hugsar ekki neitt (Menneskerne synes ikke at have faaet Talen for at skjule Tankerne men for at skjule, at de ingen Tanker har.)
Ekki er vitað hvernig samband hugsunar og máls er, hvort mannskepnan hugsar í orðum eða í myndum eða hvort tveggja, allt eftir því hverjar aðstæðurnar eru og um hvað við erum að hugsa. Stundum förum við að vísu með orð í huganum til þess að rifja upp eitthvað, s.s. ljóð eftir Jónas Hallgrímsson, eða við erum að ráða við okkur hvað við ætlum að segja hvernig við ætlum að orða hugsanir okkar. Hins vegar er ljóst að mikið af hugsunum okkar fer ekki fram í orðum heldur í myndum hugarmyndum.
En hvernig sem sambandi hugsunar og mál er farið, er mikilsvert að hugsa áður en við tölum. Sagt er að skipta megi fólki í tvo hópa. Í fyrri hópnum eru þeir sem hugsa áður en þeir tala, í hinum eru þeir sem tala áður en þeir hugsa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)