Færsluflokkur: Bloggar

Reykjavík, höfuðborg allra landsmanna

Stundum virðist gleymast að Reykjavík er höfuðborg Íslands og hefur hlutverki að gegna sem höfuðborg allra landsmanna. Stefna núverandi meirihluta í borgarstjórn er enn eitt dæmið um þessa  gleymsku þegar stefnt er að því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður fyrir 2030 til þess að byggja nokkur þúsund manna byggð í Vatnsmýrinni, enda þótt nægilegt byggingarland sé annars staðar á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem með þessu væri er raskað áratuga gamalli borgarmynd.

Með því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður er fótunum kippt undan innanlandsflugi og öryggi landsbyggðar rýrt að miklum mun auk þess sem æfingarflug er gert hornreka. Ofan í kaupið veit enginn hvar nýr flugvöllur ætti síðan að koma.

Þetta háttarlag núverandi borgarstjórnarmeirihluta gerir það enn brýnna en áður að taka skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins til algerrar endurskoðunar og endurskoða samskipti og samvinnu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Hins vegar virðist nýr og skeleggur innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, ætla taka í taumana, ræða við hlutaðeigandi og leysa málið á farsælan hátt.


Þjóðstjórn er eina leiðin

Fyrir dyrum er stjórnarmyndun eftir stutta en snarpa kosningabaráttu undanfarinna vikna í kjölfar endurreisnarinnar eftir Hrunið, þar sem enginn vissi hvort heldur hann var seldur eða gefinn. Margar leiðir virðast færar.

Skynsamlegasta leiðin - leið sem gæti sameinað þessa sundruðu þjóð - er þjóðstjórn - samlingsregering - eins og við Danir segjum.

Með því að atvinnustjórnmálamenn - alþingismenn sem þjóðin hefur kjörið - sameinist um að finna leiðir út úr vandanum, er von til þess að þessi voðalega þjóð  þrjú hundruð þúsund sérvitra einstaklinga - geti litið á sig sem eina þjóð - er þjóðstjórn. Hafi stjórnmálamenn einhverju hlutverki að gegna, er það að finna sameiginlega leið til framtíðar. Sú leið verður aðeins fundin í þjóðstjórn þar sem allir bera ábyrgð.


Að leiðarlokum vinstri stjórnar

Það er auðvelt að vera vitur eftir á - ekki síst fyrir annarra hönd. Nú hefur vinstri stjórn Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs runnið skeið sitt á enda. Eftirmælin verða misjöfn, einkum eftir því hvar í flokki menn standa.

Eins og lesendur þekkja, varð sterk vinstri sveifla í kosningunum 2009. VG varð sigurvegari, hlaut 14 þingmenn og bætti við sig fimm þingmönnum. Samfylkingin fékk 20 þingmenn og bætti við sig tveimur og varð stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð, fékk 16 þingmenn, tapaði níu. Ástæður þess voru augljósar. Kjósendur töldu Sjálfstæðisflokkinn eiga mesta sök á Hruninu þar sem spilling, græðgi og einkavinavæðing lá að baki og brýna nauðsyn bæri til að fá ný öfl, nýtt fólk og viðhorf að stjórn landsmála.

Í framhaldinu mynduðu Samfylkingin og VG meirihlutastjórn og birtu sjö þúsund orða samstarfsyfirlýsingu. Galli yfirlýsingarinnar - auk þess að vera allt of löng - er að í henni er allt nefnt - allt frá stöðugleika og þjóðarsamstöðu til þess að setja heildstæð lög um fjölmiðla þar sem ritstjórnarlegt sjálfstæði og réttur blaðamanna væru tryggð. Í stað þessarar langloku átti stjórnin að lýsa yfir í örfáum orðum að meginverkefni stjórnarinnar væri að bjarga þjóðarskútunni af strandstað frjálshyggjunnar og slökkva elda sem peningahyggja, græðgi, svik og glæpir auðvaldsins höfðu kveikt.

 

Flestum stefnuskrármálum ríkisstjórnar Samfylkingar og VG hefur verið komið í kring og stjórnin unnið kraftaverk í efnahags- og atvinnumálum, enda eru framtíðarhorfur þjóðarinnar góðar. Ný viðhorf eru komin fram um grundvallaratriði lýðræðis, jafnréttis og mannréttinda. Ungt og vel menntað fólk flytur með sér nýjan andblæ og setur svip á stjórnmála- og þjóðmálaumræðuna og nýtt Ísland er í augsýn. Engu að síður virðast stjórnarflokkarnir ætla að gjalda afhroð í kosningunum í dag.

 

Steingrímur J. Sigfússon, sem átti mestan þátt í endurreisnar- og björgunarstarfi undanfarinna ára, hefur ekki hlotið miklar þakkir fyrir dugnað sinn og ósérplægni. Hann hefur verið settur af sem formaður umbótaflokksins, sem hann stofnaði fyrir áratug, og flokkurinn virðist auk þess gjalda afhroð. Í stað 22% fylgis 2009 sýna skoðanakannanir nú um 10% fylgi VG. Í stað 14 þingmanna 2009 virðist flokkurinn aðeins fá sjö þingmenn. Hvað veldur ?

 

Vafalaust er margt sem veldur, s.s. áróðursmáttur Sjálfstæðisflokksins, mistök VG að semja við Samfylkinguna um, að aðildarviðræður yrðu settar á oddinn, svo og - og ekki síst sundurlyndi og einstaklingshyggja - svo ekki sé sagt þverlyndi sem virðist fylgja vinstra fólki. Þá er alkunna að kjósendur eru fljótir að gleyma - vika er langur tími í stjórnmálum - auk þess sem þjóðarleiðtogar á stríðstímum hafa mátt þola afneitun og undanfarið kjörtímabil voru stríðstímar. Þá er einnig ljóst að fáir njóta eldanna sem fyrstir kveikja þá, eins og Davíð frá Fagraskógi segir.

 

En auðvitað átti VG ekki að semja um það við Samfylkinguna að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið á þessum stríðstímum Hrunsins.


Reykjavíkuríhaldið og Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavíkuríhaldinu í Samfylkingunni og VG - að ekki sé nú talað um Reykjavíkuríhaldinu í Sjálfstæðisflokknum - gleymist á stundum að Reykjavík er höfuðborg allra landamanna - ekki bara borgarstjórnar Reykjavíkur.

Svandís Svavarsdóttir og Sigríður Ingadóttir lögðu áherslu á það í umræðum á Rás2 í kvöld að skipulagsvaldið væri hjá borgarstjórn Reykjavíkur. Af þeim sökum mætti byggja í Vatnsmýrinni og úthýsa flugvellinum, þótt 80% landsmanna vilji flugvöllinn í Vatnsmýrinni, auk þess sem nægilegt byggingarland er annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, s.s. í Kópavogi, Mosfellsbæ og Hafnarfirði - ef því er að skipta.


Málefnaleg yfirveguð umræða

Hanna Birna bað um málefnalega og yfirvegaða umræðu í stjórnmálum í upphafi umræðu á Rás2 í kvöld. Lítið fór fyrir málefnalegri og yfirvegaðri umræðu hennar í þættinum. Hún er komin í sama gamla Black and Decker gírinn. Það er hægara að kenna heilræðin en halda þau.

Vit og þekking - hver á að marka stefnu og hver á að ráða?

Fróðlegt var að hlusta á Robert Wessman í Silfri Egils í dag um "snjóhengjuna", fjárhagsstöðu Íslands og framtíð þjóðarinnar. Robert er mjög vel máli farinn og skýr í hugsun svo að hver sveitadrengur gat skilið allt sem hann sagði.

Þá vaknaði sú hugsun að láta fólk, sem hefur vit á fjármálum, marka stefnuna í fjármálum, fólk sem hefur vit á menntamálum marka stefnuna menntamálum og fólk sem hefur vit á samgöngum marka stefnuna í samgöngumálum og leggja tillögurnar fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu og minnka sem mest áhrif atvinnustjórnmálamanna sem fæstir hafa vit á því sem þeir eru að fjalla um. 


There is no such thing as public mone

Ofanrituð orð eru einhver frægustu orð Járnfrúnarinnar, Margaret Thatcher, sem hún viðhafði á landsfund breska íhaldsflokksins í Blackpool árið 1983. Orðin hafa skoðanabræður hennar og skoðanasystur endurtekið í þrjátíu ár sem grundvallarsannleika um mannlegt samfélag. Ummælin eru sannarlega hnyttileg um leið og þau eru röng, eins og fleiri hnyttileg orð atvinnustjórnmálamanna á Íslandi sem annars staðar. 

Til þess að geta komið öllu þessu í kring þarf opinbera sjóði - public money - sem myndaðir eru af sköttum af ýmsu tagi, innflutningsgjöldum og jafnvel af frjásum framlögum fólks, sem flest reiðir fé fram með glöðu geði vegna þess að það skilur samhengi hlutanna.

Mannlegt samfélag - ekki síst nútíma lýðræðisleg þjóðfélög - byggja á samstöðu þegnanna, samhjálp allra og tillitssemi þar sem leitast er við að allir séu jafnir fyrir lögunum og sama réttlæti gildi fyrir alla. Til þess þarf sameiginlegan vilja og sameiginlegan sjóð, opinbera sjóði sem allir greiða í eftir efnum og aðstæðum. Þeir sem eiga miklar eignir og afla mikils fjár, greiða meira en þeir sem eiga ekkert og geta ekki séð fyrir sér. Ástæður þess að fólk getur ekki séð sér farborða eru margar, oft æska eða elli, fötlun á líkama eða sál ellegar félagslegar aðstæður - jafnvel búseta. Við teljum ekki eftir okkur að sjá fyrir börnum okkar eða öldruðum foreldrum okkar, fötluðu barni eða gamalli frænku sem býr fyrir austan og getir ekki séð sér farborða.

Eitt grundvallaratriði í mannlegu samfélagi - nútíma lýðræðislegu menningarsamfélagi - er traust menntakerfi og öflugt heilbrigðiskerfi. Þetta er talið til mannréttinda, og þótt orðið mannréttindi sé sannarlega ofnotað, eru þetta grundvallarmannréttindi ásamt því að njóta friðar og félagslegs öryggis.

Einn af hinum mætustu mönnum, sem ég hef kynnst um dagana, er Thorolf Smith, fréttamaður og rithöfundur, flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum öll sín fullorðinsár. Meðan við unnum saman á gömlu Fréttastofu Ríkisútvarpsins nefndi hann oft hversu ánægður hann væri að geta borgað skattana sína, bæði vegna þess að hann gæti það af því að hann hefði vinnu, sem ekki væri sjálfsagt, og einnig vegna hins, að með því legði hann í sameiginlega sjóði sem hann, börnin hans og barnabörnin og allir aðrir nytu góðs af. Þá viðhafði hann gjarna orð þau, sem höfð eru eftir franska  rithöfundinum Voltaire: „Ég er ósammála því sem þú segir, en ég un verja allt til dauða rétt þinn til þess að segja það.”

Þetta er að mínum dómi góð heimspeki, góð stjórnmálaleg afstaða. Thorolf Smith lifði það ekki að heyra orð Margaret Thatcher: „There is no such thing as public money,” enda held ég hann hefði verið þeim óssamála eins og undirritaður. En blessuð sé minning Járnfrúarinnar. Hún skildi eftir sig spor sem ekki samræmast skilningi á mannlegu samfélagi réttlætis og jöfnunar.

 

 


Réttlæti, velferð, jöfnuður

Miklar breytingar verða á þingliði eftir kosningar. Ljóst er, að fleiri nýir fulltrúar taka sæti á Alþingi en nokkru sinni í 167 ára sögu hins endurreista Alþingis. Vonandi þekkja nýir alþingismenn og -konur sinn vitjunartíma og átta sig á því, til hvers ætlast er til af þeim: að þjóna almenningi, hætta skömmum og málrófi og taka upp samræður en láta af hæðni, spotti og heimskutali, sýna virðingu og nýta þingtímann til góðra verka, bæði í nefndum og á þingfundum. 

Það eru nýir tímarKjósendur þekkja orðið rétt sinn - þekkja sinn vitjunartíma. Þeir vita að valdið er hjá fólkinu. Í nýrri stjórnarskrá verða - hvernig sem annað veltist - ákvæði um að kjósendur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög, sem Alþingi hefur samþykkt, og geti lagt fram þingmál á Alþingi.

Beint lýðræði tekur við af flokksræði og frjálsir blaðamenn munu í auknum mæli grafast fyrir rætur hvers máls. Aukin menntun og víðsýni fólks mun valda því að gagnsæi verður haft og blind flokkshollusta hverfur fyrir skynsamlegu mati á hverju máli sem upp kemur. Þetta verða alþingismenn og -konur að gera sér ljóst. Ef þau bregðast á næsta þingi, verða þau send heim. 

Þjóðþing Íslendinga árið 2010 - sem einstaka misvitrir stjórnmálamenn hæddust að - bað um réttlæti, velferð og jöfnuð, bætt siðgæði, frið, aukið alþjóðlegt samstarf, skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og virðingu fyrir alla: konur og menn, unga og gamla, fólk allra þjóða og alls staðar í heiminum, hver sem trúarbrögð kunna að vera.

Það eru nýir tímarKrafan er jöfnuður, velferð og réttlæti. Það er nóg handa öllum - ef skipt er rétt og þjóðin fær sjálf arð af eignum sínum: orkunni, vatninu og fiskinum í sjónum. Purkunarlaus auðsöfnum fárra mun senn heyra fortíðinni til. Þá er unnt að bæta menntun, sinna sjúkum frá vöggu til grafar og gera almenningi kleift að búa við öryggi í eign húsnæði - eða í leiguhúsnæði 


Það dagar fyrir DÖGUN

Sjaldan hef ég heyrt frambjóðanda - stjórnmálamann - flytja mál sitt jafn vel og Andreu Ólafsdóttur, fulltrúi DÖGUNAR, í viðtali í ríkissjónvarpinu í kvöld. 

Skýr hugsun og einföld, afdráttarlaus og skiljanleg svör við öllum spurningum, svör byggð á raunsærri stefnu til hagsbóta fyrir almenning, mótuð á grundvelli beins lýðræðis sem veitir stjórnmálamönnum aðhald.

Vonandi nær þessi rödd að heyrast á Alþingi. Þjóðin þarf á því að halda.


Nemendur MR

Gaman væri að vita, hvers vegna nemendur Menntaskólans í Reykjavík við Lækjargötu - hins gamla Lærða skóla - hafa unnið 18 sinnum í spurningakeppni framhaldsskólanna undanfarin 20 ár. Eru nemendur skólans svona miklu betur gefnir - það sem Þingeyingar kalla "gáfaðri" - en nemendur allra 40 annarra framhaldsskóla landsins eða falla furðulegar - svo ég segi ekki heimskulegar spurningar - betur að takmörkuðum lærdómi nemenda "lærða skóla" á Íslandi ellegar er þetta einn eitt dæmi um fornaldarmenntun Íslendinga, þ.e.a.s að geta svarað hvaða ár Cesar var drepinn en ekki hvers vegna Cesar var drepinn? Að lokum vil ég segja, að þann hálfan mannsaldur, sem ég hef verið búsettur í þremur þjóðlöndum Evrópu - öðrum en elsku hjartans Íslandi - hef aldrei séð svona "skemmtiþátt" heimskunnar - og vona að ég eigi aldregi eftir að sjá.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband