Færsluflokkur: Bloggar

Ráðstefna um líknarmeðferð

Ráðstefna um líknarþjónustu verður haldin n.k. laugardag, 12ta október 2013, á Grand Hóteli í Reykjavík. Markmið ráðstefnunnar er að fræða um líknarmeðferð og vinna gegn mýtum „staðhæfingum sem standast ekki“. Einkunnarorð Alþjóðadags líknarþjónustu 12. október 2013 eru: Baráttan fyrir alþjóðlegri viðurkenningu á mikilvægi líknarþjónustu - Staðhæfingar sem standast ekki.

 

Fyrirlesarar verða Arndís Jónsdóttir, sérfræðingur í líknarhjúkrun á Landspítala, Valgerður Sigurðardóttir, yfirlæknir á líknardeild Landspítala, og Gunnar Hersveinn heimspekingur og rithöfundur.

 

Alþjóðadagur líknarþjónustu er haldinn árlega á vegum Alþjóðasamtaka um líknarþjónustu, The Worldwide Palliative Care Alliance, í samvinnu við Alþjóða heilbrigðismálastofnunina, WHO.

 

Hægt er að fylgjast með ráðstefnunni gegnum fjarfundarbúnaði á Heilbrigðisstofnun Vesturlands Akranesi, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða Ísafirði, Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki, FSA á Akureyri, Menntaskólanum á Egilsstöðum, Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu á Höfn í Hornafirði og hjá Fræðslunetinu Fjölheimum Selfossi. Að loknum fyrirlestrunum verða fyrirspurnir og umræður þátttakenda frá öllum þátttökustöðunum.

 

Að ráðstefnunni standa Hollvinasamtök líknarþjónustu, Lífið, samtök um líknarmeðferð á Íslandi, Krabbameinsfélagið, ráðgjafarþjónusta, og Landspítali-Háskólasjúkrahús.

Allir velkomnir.

 

 

 


Myndin af Jónasi

Seðlabankinn hefur látið gera tíu þúsund króna seðil sem „tileinkaður er Jónasi Hallgrímssyni, en í seðlinum má finna vísanir í störf Jónasar sem skálds, íslenskumanns, alþýðufræðara og náttúrufræðings. Á framhlið er mynd af Jónasi Hallgrímssyni, Háafjalli og Hraundranga“, eins og segir í frétt frá bankanum.

Mynd sú sem um ræðir eftirmynd af litógrafíu sem prentuð var framan við Ljóðmæli Jónasar og út komu í Kaupmannahöfn 1883. Litógrafían er gerð af óþekktum starfsmanni prentverksins Hoffensberg&Traps, þar sem ljóðmælin voru prentuð. Er þessi mynd þekktust allra mynda af Jónasi og oftast er notuð, m.a. á vefnum jonashallgrimsson.is.

Litógrafían frá 1883 er gerð eftir ljósmynd af teikningu sem Sigurður málari gerði 1860 eftir blýantsteikningu sem Helgi Sigurðsson dró upp af Jónasi á líkbörum á Friðriksspítala í Kaupmannahöfn 27. maí 1845.

JH koparstungaJH eftir Sigurð GuðmundssonJH LÍ 151, meiri upplausn 

 

 

 

 

  

 

 

 

 

1 Litógrafían frá 1883             

2 Teikning Sigurðar málara 1860     

3 Teikning Helga af Jónasi á líkbörunum 27. maí 1845

Frá teikningu séra Helga Sigurðssonar til litógrafíunnar eru því ekki aðeins 38 ár heldur tveir milliliðir: teikning Sigurðar málara og ljósmynd af þeirri teikningu. Þess er því naumast að vænta að myndin, sem kölluð er af Jónasi Hallgrímssyni, sé lík manninum Jónasi Hallgrímsyni, enda eru heimildir um að frændur hans í Eyjafirði hafi talið myndina framan við ljóðmælin lítið minna á hann og „verið á móti myndinni”.

Í Listasafni Íslands eru varðveittar fjórar teikningar eftir Helga Sigurðsson af Jónasi. Ein er myndin af Jónasi á líkbörunum, sem nefnd hefur verið. Önnur er hálfvangamynd, dregin mjúkum dráttum með sterkum persónueinkennum: mjúkhærður, lítt skeggjaður og dökkbrýnn, ennið allmikið, réttnefjaður og heldur digurnefjaður, granstæðið vítt, vangarnir breiðir, kinnbeinin ekki eins há og tíðast er á Íslandi, munnurinn fallegur, varirnar mátulega þykkvar og stóreygður, svo notuð séu orð Konráðs Gíslasonar úr minningargrein í Fjölni 1847. 

JH LI 152 GRÆN

 Myndin af Jónasi

Helgi Sigurðsson var lengi þjónandi prestur, fyrst að Setbergi í Eyrarsveit og síðar að Melum í Melasveit. Hann lauk prófi úr Bessastaðaskóla 1840 og sigldi þá til Hafnar, gaf sig fyrst að lögfræði og nam dráttlist í Det kongelige danske kunstakademi en las læknisfræði á sjötta ár og var kominn að prófi vorið 1846 er hann hvarf heim og tók við búi eftir föður sinn. Helgi lagði ekki aðeins stund á dráttlist heldur tók hann haustið 1842 að nema ljósmyndagerð við Listaskólann, fyrstur Íslendinga. Ýmislegt í gerð myndarinnar bendir til þess að við gerð hálfvangamyndarinnar af Jónasi hafi hann notað teiknivél eða myndvarpa þess tíma, camera lucida, sem svo var nefnd.

Samtímafrásagnir herma að Helgi Sigurðsson hafi heimsótt Jónas þar sem hann lá fótbrotinn á Friðriksspítala eftir að honum skruppu fætur í stiganum upp í herbergið í Skt. Pederstræde að kvöldi 21. maí 1845. Jónas var þá rændur allri lífsgleði og þótti óþarfi að gera neinum ónæði um nóttina af því að hann vissi að hann gæti ekki lifað, eins og Konráð Gíslason hefur eftir honum. Helga hefur tekist að telja Jónas á að leyfa sér að draga upp af honum mynd með teiknivélinni, en Konráð hafði í bréfi árið áður hvatt þá Brynjólf Pétursson, Grím Thomsen og Jónas til að láta gera af sér mynd „svo myndirnar verði til eptir þeirra dag, svo skal jeg sjá um, þegar þeir eru dauðir, og jeg er orðinn blindur, að þær verði stungnar í kopar”, eins og segir í bréfinu.

Hálfvangamyndin sker sig mjög úr myndunum fjórum sem Helgi teiknaði af Jónasi. Er hún sennilega fyrsta myndin sem hann gerði af Jónasi. Eftir að Helgi hafði dregið hana upp með hjálp myndvarpans, andaðist Jónas skyndilega að morgni 26. maí 1845.

Matthías Þórðarsonar þjóðminjavörður segir í grein í Óðni 1908, að Helgi Sigurðsson hafi skýrt Jóni forseta frá því, að daginn eftir andlát Jónasar, 26. maí 1845, fór hann „að líki Jónasar [á Friðriksspítala], færði hann í búning hans og reisti hann upp. Hann dró upp mynd af honum, eins vel og nákvæmlega eins og hann gat, mynd af líki Jónasar. Líkaminn var svo sem fallinn saman og höfuðið sigið niður á bringuna.“

Eftirtektarvert er að á myndinni af Jónasi á líkbörunum sjást döpur augun undir þungum augnlokum. Augu Jónasar hafa hins vegar verið lukt þegar Helgi Sigurðsson dró upp þá mynd, því að Jónasi hafa að sjálfsögðu verið veittar nábjargir daginn sem hann dó. En af því að Helgi Sigurðsson hafði áður dregið upp mynd af Jónasi með teiknivélinni, gat hann teiknað augun eins vel og raun ber vitni á myndinni af Jónasi á líkbörunum. Þung augnlok voru og eru ættarfylgja Hvassafellsættar, eins og m.a. fram kemur á ljósmynd sem varðveist hefur af Rannveigu, húsfreyju á Steinsstöðum, systur Jónasar, sem tekin er 1872, þegar Rannveig var 72 ára að aldri. 

Hálfvangamyndin var því gerð af Jónasi í lifanda lífi og má kallast myndin af Jónasi - er eins konar ljósmynd af listaskáldinu góða. Aðrar myndir eru eftirlíkingar af Jónasi á líkbörunum.


Nýr Landspítali Háskólasjúkrahús

Alma D. Möller, yfirlæknir gjörgæsludeildar Landspítala við Hringbraut, skrifar í dag grein í Morgunblaðið - sem allir ættu að lesa.

Í greininni segir, að ef lífeyrissjóðir landsmanna láni fé til byggingar Landspítala Háskólasjúkrahúss, fái lífeyrissjóðirnir ávöxtun innanlands, ríkið spari fé til lengri tíma og landsmenn eignist nútíma sjúkrahús. Alma færir skynsamleg rök fyrir máli sínu og bendir á að allir hagnist á þessu - og ekki þýði að gefast upp.

Óvanalegt er að lesa grein af þessu tagi um jafn viðkvæmt og vandasamt efni og heilbrigðismál Íslendingar eru. Að mínum dómi er engum vafa undirorpið, að leiðin, sem Alma bendir á, er fær.

Nú ber öllum að taka höndum saman um að leysa þetta þjóðþrifamál. Lausn þessa máls varðar alla, unga sem gamla - frá vöggu til grafar - og gæti skipt sköpum fyrir ótal margt annað sem vinna þarf til bóta í þessu þjóðfélagi.

 


Hátíð vonar - jafnrétti og bræðralag

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur sýnt vilja sinn í verki, einurð og kjark með því að ætla að flytja ávarp á trúarhátíðinni Hátíð vonar sem haldin verður í Laugardalshöllinni í lok september og er samstarfsverkefni fjölmargra kirkna og kirkjudeilda. Með því segist hún styðja samstarf kristinna safnaða. En auk þess styður biskup raunverulegt skoðana- og trúfrelsi og lætur ekki undan áróðri þeirra fjölmiðla sem ganga erinda trúleysingja í landinu.

Áróður trúleysingja gegn Hátíð vonar er byggð á því að Franklin Graham, sonur Billy Graham, er ræðumaður hátíðarinnar, en hann er mótfallinn hjónaböndum samkynhneigðra og hefur talað opinberlega gegn samkynhneigð.

Áróður trúleysingja gegn Hátíð vonar er enn eitt dæmi þess, að þeir - og aðrir andstæðingar kristinnar trúar og kristinnar kirkju - beita nú þá, sem ekki eru á sömu skoðun og þeir, ofríki á sama hátt og þeir voru áður ofríki beittir. Þetta er ekki í samræmi við skoðana- og tjáningarfrelsi sem á að ríkja.

Fagna ber auknum réttindum einstaklinga hér á landi. Umræðu um mannréttindi, jafnrétti og bræðralag er þó hvergi nærri lokið. Ofstæki og áróður verður hins vegar ekki til að auka bræðralag, jafnrétti og mannréttindi. Allir skulu hafa rétt til að láta í ljós skoðanir sínar. Líka þeir sem eru mótfallnir hjónaböndum samkynhneigðra.


Reykjavík - höfuðborg allra landsmanna

Seint virðist sumum forráðamönnum Reykjavíkurborgar ætla að skiljast, að Reykjavík er höfuðborð Íslands - höfuðborg allra landsmanna með öllum þeim gögnum og gæðum, kostum og göllum sem slíku fylgir.

Við Akureyringar hefðum gjarnan viljað afsala okkur atkvæðisrétti í Alþingiskosningum til þess að fá löggjafarþingið, stjórnarráðið, Háskóla Íslands og Landspítalann norður og leggja land undir flugvöll - en þess mun ekki kostur.

Enn er af hálfu þessara forráðamanna  Reykjavíkurborgar farið af stað með umræðu um að leggja þurfi Reykjavíkurflugvöll undir byggð til þess að geta gert borgina lífvænlegri. Það eru aðrir hlutir sem gera borg lífvænlega og að því hafa borgarbúar - Reykvíkingar - stuðlað með margvíslegum hætti undanfarna áratugi. En með því að leggja Reykjavíkurflugvöll niður í sinni núvarandi mynd, er verið að skera hjartað úr borginni.

 


Fumlaus handtaka - eða ofbeldi

Undarlegt - svo ég segi ekki ógnvekjandi - er að heyra ummæli lögreglumanns um fumlausa handtöku, þegar lögreglumaður réðst á ósjálfsbjarga konu í Reykjavík á dögunum, og vitnar til þess, að lögregla á Norðurlöndum sé “heimsþekkt fyrir að vera umburðarlynda lögregla í heiminum”. Það kann rétt að vera- en þetta atvik sýndi ekki umburðarlyndi.

Enginn - með óbrjálaða dómgreind - fer í grafgötur um, að við handtöku konunnar var beitt ofbeldi og allt ofbeldi - hvar sem er og hvernig sem er - skal vera ólíðandi í lýðfrjálsu landi. Lögreglan er ekki aðeins til þess að handtaka óeirðafólk og skakka ójafnan leik, heldur til þess að hjálpa þeim sem hjálpar er þurfi og leiðbeina þeim sem þurfa leiðbeininga við.

Konan ósjálfbjarga þurfti á leiðbeiningum, aðstoð og hjálp að halda - ekki ofbeldi og misþyrmingu - og það er skýlaus krafa borgara í lýðfrjálsu landi, að fólk sé öruggt um að fá hjálp frá lögreglu - eins og oftast er sem betur fer. En þegar lögreglumenn verja augljóst ofbeldi, er illt í efni. Borgarar í lýðfrjálsu landi verða að fá að vita, við hverju þeir mega búast af lögreglunni, laganna vörðum - laganna vörðum - laganna vörðum.


Litir í örnefnum

Tungumálið geymir á vissan hátt sögu þjóða og viðhorf fólks til lífsins og tilverunnar. Má jafnvel segja að í tungumálinu felist eins konar heimspeki þjóðanna - heimspeki almennings. Örnefni geyma einnig upplifun fólks af umhverfi sínu og tilfinningu fyrir landinu og náttúru þess, eins og t.a.m. örnefnin Fagranes, Hreggnasi, Kaldbakur og Jökulfirðir bera með sér.

Flest íslensk örnefni eru náttúrunöfn, þ.e.a.s. eru mótuð af svip landsins og landsháttum. Norðmenn kalla slík örnefni naturnavn eða terrengnavn og hafa þeir lengið rannsakað slík örnefni. Á stundum er einnig í örnefnum tekin líking af líkama manns eða dýrs, s.s. þegar í örnefnum koma fyrir orð eins og bringa - eða bringur, botn, fótur, haus, háls, kinn, tunga - eða tungur og öxl.

Algengt er að litarorð komi fyrir í íslenskum örnefnum. Sem dæmi má nefna: Blábjörg, sem eru á tveimur stöðum á Austurlandi, Bláfeldur á sunnanverðu Snæfellsnesi, Bláfell og Bláfjöll, sem eru víða um land, Blágnípa, Bláhnjúkur og hið merkilega örnefni Blámannshattur við Eyjafjörð, Bláskógaheiði vestan Skjaldbreiðar, Bláskriða og Bleiksmýrardalur inn af Fnjóskadal, sem nær inn undir Kiðagil á Sprengisandi og mun vera einn lengsti dalur á Íslandi, Grænaborg, Grænafell, Grænahlíð, Grænalón, Grænanes, Grænavatn og Grænihnjúkur og Gullbrekka að ógleymdum sjálfum Gullfossi. Þá eru til mörg Hvítanes og Hvítár eru um sunnan- og vestanvert landið en ekki fyrir austan eða norðan. Þá er Hvítserkur á þremur stöðum á landinu, þótt Hvítserkur við botn Húnafjarðar sé þeirra kunnastur. Enn má nefna Rauðaberg, Rauðafell, Rauðháls, Rauðhóla, Rauðalæk, Rauðamel, Rauðanúp, Rauðasand, Rauðaskriðu, Rauðavatn og Rauðavík. Þá koma fyrir örnefni eins og Svartafell eða Svartafjall, Svartagil, Svartakvísl og margar Svartár, Svartfell, Svartifoss og Svarthamar.

Fróðlegt er að því að velta fyrir sér merkingu og líkingamáli í örnefnum á Íslandi þegar farið er um landið, hvort heldur er á sumri eða vetri.

 


Óli ólíkindatól.

Óli - ólíkindatól.
mbl.is Segir forsetann skorta hugrekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Evópusambandið, forsetinn og lýðveldið

Við setningu Alþingis 6. júní sagði forsetinn, að eðlilegt hefði verið að Alþingi skyldi fyrir fjórum árum, þegar örlagaþrungin óvissa ríkti í efnahagslífi okkar og hins vestræna heims, sjá kosti í aðildarviðræðum við Evrópusambandið, einkum vegna evrunnar sem virtist búa að styrk. Nú blasti annar veruleiki við. Enginn vissi hvernig sambandið kynni að þróast og evrusvæðið byggi við djúpa kreppu. Viðræðurnar hefðu gengið afar hægt og kjörtímabilinu lokið án þess hreyft væri við þáttum sem skiptu Íslendinga mestu. Síðan segir í ræðunni:

 

Þessi atburðarás, og reyndar líka viðræður mínar við fjölmarga evrópska áhrifamenn, hafa sannfært mig um að þrátt fyrir vinsamlegar yfirlýsingar sé í raun ekki ríkur áhugi hjá Evrópusambandinu á því að ljúka á næstu árum viðræðum við okkur. ... Því er í senn ábyrgt og nauðsynlegt að deila þeirri sýn með þingi og þjóð að litlu kann að skipta hvort Ísland kýs að halda viðræðum áfram; mótaðilann virðist í reynd skorta getu eða vilja til að ljúka þeim á næstu árum.

 

Þegar forsetinn segir mótaðilann virðast í reynd skorta getu eða vilja til að ljúka samningaviðræðunum á næstu árum, hafa flestir skilið orð hans þannig, að Evrópusambandið vildi ekki „taka við Íslandi” - á næstu árum.

 

Í viðtali við RÚV 27. júní vegna Þýkalandsheimsóknar segist forsetinn aldrei hafa sagt „að Evrópusambandið vildi ekki taka við Íslandi” - og bætir við, að óábyrgt af Íslandi að fara í viðræður við Evrópusambandið í einhverjum leikaraskap.

„Ég sagði í þingsetningarræðunni að það væri margt sem að benti til þess að - og það væri mín ályktun eftir viðræður við marga og það hefur nú styrkst í þessari heimsókn - að af ýmsum ástæðum, sem að ég rakti í ræðu minni, að ekki væri unnt að ljúka viðræðum, nema að ljóst væri að verulegur stuðningur væri meðal Íslendinga fyrir aðild.”

 

Þessi skoðun kemur ekki fram í ræðunni heldur sú skoðun að í raun væri ekki ríkur áhugi hjá Evrópusambandinu á því að ljúka á næstu árum viðræðum við okkur.

 

Alvörusamband og lýðveldið Ísland

Nú er það ályktun forsetans „að ekki væri unnt að ljúka viðræðum, nema ljóst væri að verulegur stuðningur væri meðal Íslendinga fyrir aðild” - og forsetinn heldur áfram:

 

Því það er á vissan hátt óábyrgt af okkur sem þjóð að fara í viðræður við alvörusamband eins og Evrópusambandið, svona í einhverjum leikaraskap, bara til þess að kanna nú, hvað við kannski fengjum út úr því. Slíkur leikaraskapur er bara ekki gjaldgengur í alvöru alþjóðlegum samskiptum, þó að það kannski passi á Íslandi í umræðunni þar. Við verðum að passa okkar orðspor sem þjóð og sem lýðveldi að þegar við sækjum um inngöngu í aðildarsamband eins og Evrópu þá meinum við það í alvöru.

 

Í þingsetningarræðunni var það „í senn ábyrgt og nauðsynlegt að deila þeirri sýn með þingi og þjóð að litlu kann að skipta hvort Ísland kýs að halda viðræðum áfram”. Í viðtalinu við RÚV er það óábyrgt af okkur sem þjóð að fara í viðræður við alvörusamband eins og Evrópusambandið svona í einhverjum leikaraskap bara til þess að kanna nú hvað við kannski fengjum út úr því. Ísland - þar sem leikaraskapur passar í umræðunni innan lands - getur ekki boðið alvörusambandi eins og Evrópusambandinu að kanna hvað fengist kannski út úr samningaviðræðunum. 

 

Eðli samninga

Þegar gengið er til samninga, er verið að kanna hvað fæst út úr samningum. Norðmenn gengu til samninga við EB 1972 og lögðu samninginn fyrir þjóðina sem var felldur vegna þess að kjósendur töldu sig engu bættari. Hið sama gerðist 1993.

 

Norðmenn fóru ekki í viðræður við „alvörusamband” í einhverjum leikaraskap heldur sem fullvalda þjóð til að kanna hvað fengist út úr samningum. Enginn talaði um, að það væri á vissan hátt óábyrgt af Norðmönnum að fara í viðræður við alvörusamband eins og Evrópusambandið til þess að kanna hvað þeir fengju út úr samningunum, allra síst þjóðhöfðingi Norðmanna sem lét aldrei hafa neitt eftir sér um afstöðu sína, enda þjóðhöfðingi allra Norðmanna - hvort heldur þeir voru með eða á móti aðild. Auk þess vissi hann, að hann ræður ekki stefnu Norðmanna í stjórnmálum.

 

Forseti Íslands þarf að gera sér grein fyrir að hann ræður ekki stefnu Íslands í stjórnmálum, heldur kjörnir fulltrúar - stjórnmálamenn - og forsetinn er ekki stjórnmálamaður. Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er „forseti lýðveldisins ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum” og „ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum”. En forseti Íslands má ekki vera ábyrgðarlaus í tali, því að við verðum að passa okkar orðspor sem þjóð og ekki vera með neinn leikaraskap.

 

 


Gladíatorar samtímans

Nú stendur yfir "álfukeppni í knattspyrnu", eins og alþjóð veit og  jafnvel heimurinn allur. Knattspyrna er skemmtilegur leikur - eins og fótbolti og skylmingar sem við stunduðum á Norðurbrekkunni um miðja síðustu öld. Í þeim fótbolta - knattspyrnunni - var spilað á eitt mark, allir á móti öllum,  og mestu  skipti að sparka sem lengst, eins og KRingar gerðu fyrir sunnan.  Brasilíumenn, Spánverjar og Ítalir eru - eins og gefur að skilja - betri en við KAmenn, að ekki sé talað um Þorpara, Eyrarpúka og aðra horngrýtis Þórsara sem sýndu bæði hörku og ósvífni - og unnu enda okkur Brekkusnigla oftast - ef ekki alltaf.  Amk man ég eftir tapi okkar KAmanna fyrir Þór 13:1 vorið 1950 þar sem ég stóð í marki! Hins vegar hef ég ekki getað varist þeirri hugsun að að horfa á álfukeppnina í knattspyrnu - og raunar fótbolta undanfarin á - að þessir knattspyrnusnillingar séu í raun og veru skylmingaþrælar samtímans - gladíatorar nútímans. Þeir eru að vísu ekki drepnir á vígvellinum en lifa ekki lengi og eru seldir sem þrælar.

"Þau eru súr", sagði refurinn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband