Framtíð íslenskrar tungu

16da þ.m. var Dagur íslenskrar tungu haldinn víðs vegar um land á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar.  Á þessum degi hafa Móðurmálsverðlaunin verið veitt frá 1996 og aðrar viðukenningar þeim til handa sem stuðlað hafa að vexti og viðgangi elstu lifandi þjóðtungu Evrópu.

19da nóvember var haldin afmælishátíð Hins íslenska bókmenntafélags í tilefni 200 ára afmælis félagsins sem stofnað var í Kaupmannahöfn og var „einn hinn mesti atburður í sögu íslenzkra mennta, því að hún táknar gagnger umskipti í viðhorfi manna gagnvart íslenzkri tungu og bókmenntum síðari alda,” eins og Þorkell Jóhannesson segir í Sögu Íslendinga.

Á afmælishátíð Hins íslenska bókmenntafélags töluðu Guðni Th. Jóhannesson forseti, Jón Sigurðsson forseti Bókmenntafélagsina og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.  Allir gerðu stöðu íslenskrar tungu og framtíð að umræðuefni. Jón Sigurðsson ræddi sérstaklega um framtíð tungunnar í stafrænum heimi og sagði, að þegar Bókmenntafélagið var stofnað hefði íslensk tunga verið í hættu og þá – eins og nú – hefðu margir haft áhyggjur af stöðu og framtíð tungunnar. Stofnendum félagsins hefði verið ljóst að sérstaða íslenskrar menningar – sjálf líftaugin í sögu þjóðarinnar – væri fólgin í óslitnu samhengi tungu og bókmennta frá upphafi og yfir þessu samhengi þyrfti að vaka. Yfir streymdi í vaxandi mæli margvíslegt efni á erlendum tungum í ýmsum myndum. Gæfa Íslendinga hefði verið að varðveita forna skáldskaparhefð og málið væri dýrmætasti þáttur íslenskrar menningar og um leið einn áhrifaríkasti hvati þeirrar endurreisnar á nítjándu og tuttugustu öld sem að lokum leiddi til sjálfstæðis. „Tungumálinu megum við ekki týna – því að þá týnum við okkur sjálfum”, sagði forseti Hins íslenska bókmenntafélags, og hélt áfram:

Nú er í vændum að viðmót hvers konar véla og tækja sem beita þarf daglega verði þannig úr garði gert, að það taki við fyrirmælum á mæltu máli. Eigi íslenskt mál að verða gjaldgengt í þeim samskiptum þarf að koma upp íslenskum máltæknigrunni til að tengja talað mál við tölvur. Vísir að slíkum grunni er til hjá upplýsingatæknifyrirtækinu Google vegna þess að íslenskir starfsmenn hafa séð til þess að íslenskan er eina fámennistungumálið sem komið hefur verið fyrir í máltæknigrunni þar á bæ. ... Áætlað hefur verið að það kosti á annan miljarð króna að smíða nothæfan máltæknigrunn fyrir íslensku. Tíminn er naumur og næstu þrjú til fjögur ár geta ráðið úrslitum um framtíð íslenskunnar á þessum vettvangi. Til þess að koma þessu í kring þarf samstillt átak hins opinbera og atvinnulífs og allra þeirra sem láta sér annt um framtíð tungunnar. Bókmenntafélagið hyggst kveðja til ráðstefnu á næsta ári sem flesta er láta sig framtíð íslenskunnar varða til þess að stilla saman krafta í slíku átaki. Íslensk málnefnd hefur lagt  sérstaka áherslu á mikilvægi máltækni fyrir framtíð íslensku í stafrænum heimi. Íslendingar þurfa að fjárfesta myndarlega í eigin móðurmáli. Framtíð íslenskrar tungu er ekki einkamál Íslendinga. Hverfi hún, hverfur heill menningarheimur. Forvígismenn Bókmenntafélagsins á nítjándu öld sýndu og sönnuðu að íslenska gat dafnað mitt í tækni- og samskiptabyltingu þeirrar aldar. Núlifandi kynslóð þarf að sýna og sanna að íslensk tunga geti blómstrað mitt í stafrænni byltingu á okkar öld – og þeirri næstu.

Undir þessi orð Jóns Sigurðssonar, forseta Hins íslenska bókmenntafélags, skal tekið. Þetta er aðkallandi verkefni fyrir íslenska menningu og framtíð íslenskrar tungu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Þórhallsson

Ég hef engar áhyggjur af íslenskri tungu;

ég hef meiri áhyggjur af stækkandi brasíliskum gaypride-göngum hér á landi og að rúv skuli vera á valdi slíks fólks.

Jón Þórhallsson, 24.11.2016 kl. 13:02

2 Smámynd: Erla Magna Alexandersdóttir

JÓN SIG. MUNDI SNÚA SER VIÐ Í GRÖFINNI NUNA EF HANN VÆRI ÞAR ENN- EF HANN FÆRI AÐ REYNA AÐ TÚLKA SVOKALLAÐA ÍSLENSKA TUNGU !!! HE HEcool

Erla Magna Alexandersdóttir, 24.11.2016 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband