Hvað gerir Íslendinga að Íslendingum

Í fyrradag var fullveldisdagur Íslendinga, en eins og lesendur vita, varð Ísland frjálst og fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku 1. desember 1918. Sumir halda því að vísu fram, að Ísland hafi ekki fengið fullt sjálfstæði fyrr en með stofnun lýðveldis 17. júní 1944. Hafa þeir e.t.v. eitthvað til síns máls, því að fullveldi felur í sér, að þjóðin – eða kjörnir fulltrúar hennar – fer með æðstu stjórn ríkisins, þ.e.a.s. löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdavald á ákveðnu landssvæði sem tengt er ákveðnum hópi fólks, þjóðinni.

Eftir áratuga umræðu um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu og Evrópusambandinu vita hins vegar fáir, við hvað átt er með sjálfstæði þjóðar. Fyrir hálfri öld sagði Gylfi Þ. Gíslason, að til þess að tryggja fullveldi sitt yrðu Íslendingar að láta af sjálfstæði sínu. Fæstir skyldu þessi orð þá, og fáir gera það enn. En ljóst er, að sumir mætir menn álíta, að til þess að tryggja fjármál og afkomu þjóðarinnar, öryggi hennar og viðskipti í framtíðinni verði Íslendingar að gerast aðilar að Evrópusambandinu og láta af hendi þætti, sem áður töldust til fullveldis, s.s. hluta af löggjafarvaldi, hluta af dómsvaldi og ákveðin yfirráð yfir landi og jafnvel ráðstöfun á auðlindum.

En það var ekki ætlunin í þætti um íslenskt mál á fullveldisdaginn 2011 að tala um sjálfstæði og fullveldi né heldur um aðild að Evrópusambandinu, þótt full ástæða væri til, heldur að svara spurningunni: Hvað gerir Íslendinga að Íslendingum? Þessari spurningu er ekki auðvelt að svara – frekar en öðrum spurningum sem skipta máli.  Þjóðerni er háð ýmsu, s.s. uppeldi, stöðu, viðhorfum og fæðingarstað.

En til þess að flækja málið ekki frekar með málalengingum, tel ég einfalda svarið við spurningunni, að það sem gerir okkur að Íslendingum er tungumálið. Í þessu felst ekki þjóðernishroki, þ.e.a.s. lítilsvirðing fyrir öðrum þjóðum eða fólki af öðru bergi brotið – þvert á móti. Aðrar þjóðir eiga sitt tungumál, mikilfenglegt tjáningartæki, sem gerir það fólk að því sem það er. Tungumálið og hugsunin, sem þar býr að baki, er dýrmætasta eign sérhvers einstaklings og sérhverrar þjóðar ásamt landinu og sögu þjóðarinnar, en í sögu þjóðar varðveitist hugsun hennar og minning. Því ber okkur að hafa móðurmál okkar í heiðri, virða landið og sögu þjóðarinnar – ekki aðeins á fullveldisdaginn heldur alla daga. Með því höldum við virðingu okkar sem einstaklingar og þjóð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Ert þú ekki í rauninni að varpa fram spurningunni: Hvað gerir Íslendinga að ekta Íslendingum? Allir sem eru ríkisborgarar hér eru Íslendingar skv. lögum. Huti ríkisborgaranna eru aðkomnir og ekki með fullt vald á tungumálinu. Teljast þó Íslendingar í heimsregistrinu hjá SÞ. Tungumálið okkar er tjáningartæki og listasmíð. Margir innfæddir Íslendingar eru vart skrifandi og geta ekki tjáð sig á góðri íslensku. Þeir verða tæpast minni Íslendingar fyrir það. Lærðir menn hafa bent á að staða íslenskunnar geti styrkst við inngönguna í ESB. Þar verður hún eitt af opinberum málum álfunnar. Ég skil vangaveltur þínar og áhyggjur margra af framtíð íslenskunnar, en heimurinn er breyttur og því er tungumálið ekki algild mælieining á þjóðina.

Hjálmtýr V Heiðdal, 3.12.2011 kl. 12:18

2 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Flækjur eru leiðinlegar en Íslendingar eru ekkert frekar Evrópumenn en Ameríku menn eða Ástralíu menn. 

Íslendingar eru allir þeir sem hafa öðlast Íslenskan Ríkisborgara rétt, hvaðan sem þeir koma.   

Kæruleysi, peningar eða daður við monthænsn eiga ekki að ráða því hvernig Íslenskum borgara rétti er úthlutað, þar eiga allir að sitja við sama borð og þurfa að sanna sig. 

Innfæddir Íslendingar eru hinsvegar þeir sem  eru fæddir af Íslenskum foreldrum á Íslandi, um málið þarf þá ekki að tal.  Þessi munur skiptir ekki máli að jöfnu, en ætti að gera það varðandi Ísland og auðlindir þess.

Þó að Gylfi Þ. Gíslason hafi verið æðstiprestur Íslenskra krata á einhverjum tíma þá er líka til fólk sem ekki endilega þarf gamaldags æðstu presta hindurvitna til að finna leið til að vera það sjálft.     

Hrólfur Þ Hraundal, 3.12.2011 kl. 13:40

3 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Fyrir hálfri öld voru menn líka að velta þeirri spurningu fyrir sér hvað þarf til þess að vera og til þess að gerast íslendingur.

Þá var því til svarað: "Það þarf ást á þetta land".

Undirrituð hallast að því að sú væntumþykja sé jafnvel mikilvægari en að kunna okkar flókna tungumál til hlítar - hver sem í hlut á.

Kolbrún Hilmars, 3.12.2011 kl. 17:30

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ja, ef Gylfi hefur sagt þetta - þá var hann mikill hugsuður. Alveg hárrétt hjá honum. Hárrétt.

Eg segi hinsvegar: Algilt og 100% algjört sjálfstæði eða fullveldi - það er ekki til. Er ekki til. það er útópía.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.12.2011 kl. 18:20

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það má spyrja á móti hvort það sé þannig að ef einungis Kínverjar, svertingjar, arabar eða Indverjar væru hér og töluðu allir íslensku, væri það íslenska þjóðin?

Það kann að vera að allt verði vitlaust ef ég segi þetta, en stefnir kannski í þetta?

Ég er ekki að segja að eitthvað af þessu fólki megi ekki búa hérna, en þurfum við ekkert að verja okkar fornu samsetningu sem þjóð?

Stalín notaði fólksflutninga til að eyðileggja Eystrasaltslöndin. Hann fyllti allt af Rússum þar, svo Sovétríkin gætu gert tilkall til landanna.

Í Eistlandi og Lettlandi eru yfir 25% íbúa af rússnesku bergi brotnir. Hlutfallið var enn hærra á níunda áratugnum, þá var t.d. rétt um helmingur íbúa Lettlands innfæddir Lettar.

Það sást vel þegar hinn kínverski Nubo vildi kaupa hálft hálendið, undir því yfirskini að fara af stað með ferðaþjónustu, að landrými er eftirsótt, sérstaklega í þéttbýlum löndum eins og Kína.

Því miður rúmar jörðin einungis lítið brot af íbúum sínum, þess vegna verðum við að verja landið. Það er gott að huga að bágstöddum, en við þurfum líka að hugsa um okkur sjálf. Myndir þú lesandi góður fara á götuna með börnin þín, fyrir fjölskyldu frá Indlandi?

Theódór Norðkvist, 3.12.2011 kl. 18:40

6 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Ómar Bjarki, það var EKKI Gylfi Þ. sem átti þessi orð.

Þau eru hluti af og lokaorð í lesendabréfi í MBL þ. 6/11´1963 undir skammstöfuninni HÓV. Hver sem hann/hún er eða var.

Kolbrún Hilmars, 3.12.2011 kl. 18:54

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eg átti við þetta: ,,að til þess að tryggja fullveldi sitt yrðu Íslendingar að láta af sjálfstæði sínu."

þetta er mikil speki. Hann sagði eitthvað í þessa átt, að ég tel.

Enþar fyrir utan tala sumir og tala um eitthvert fullveldi og sjálfstæði og þeir tala um það á þann hátt að í rauninni er þannig sjálfstæði og fullveldi ekki til. þjóðernis-sinnar eru svakalega miklir útópíumenn. Draumsýnis-sinnar.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.12.2011 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband